Beint í efni

Sextíu kíló af sólskini

Sextíu kíló af sólskini
Höfundur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
Staður
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Maríanna Clara Lúthersdóttir

Hallgrímur Helgason á það sameiginlegt með Nóbelsskáldinu Halldóri að geta sagt harmþrungna sögu öreiga í kómískum ýkjustíl án þess þó nokkurn tíman að hæðast að þessu vesalings fólki eða lífsónefnum þeirra. Þess í stað er hæðnin eins og ljóskeila til að varpa ljósi á og lýsa því sem er svo skelfilegt að ekki er hægt að segja það öðruvísi en sem gamansögu, harmleikurinn dugir ekki til.

Hér segir frá Gesti sem er gerður munaðarlaus ungur að árum, annars vegar af völdum síns óblíða föðurlands og hins vegar af yfirvaldinu sem án umhugsunar sviptir fátæklingana því litla sem þeir eiga og sendir þá út í opinn dauðann. Við kynnumst líka Eilífi föður hans sem bar því miður ekki nafn með rentu þótt ólseigur væri, Kaupakabba kaupmanni fósturföður hans og Lása í Skriðu sem verður þriðji faðir hans. Við mætum reyndar æði litskrúðugum hópi fólks af ólíkum stéttum og gerðum. Sögusviðið Segulfjörður og næstu firðir – Heiðinsfjörður og Óðinsfjörður reyna ekki að leyna skyldleika sínum við Siglufjörð og nálæg pláss enda skáldanöfnin tilkomin eingöngu svo ekki þyrfti að hnýta sig alltof fast í sagnfræðina. Sumar persónur byggja á raunverulegu fólki svo sem Séra Árni sem tekur við brauði í Segulfirði og heillast af alþýðumenningunni en í honum líkamnast Bjarni Þorsteinsson, prestur og tónskáld sem vann sér m.a. það til frægðar að safna saman íslenskum þjóðlögum og þjóðvísum og gefa út.

Íslenska þjóðin stendur hér á krossgötum nýrra tíma um aldamótin 1900, hákarlaveiðar að syngja sitt síðasta svo lesendur fá að kynnast þessari lygilegu atvinnugrein þar sem aðeins um helmingur bátanna skilaði sér að jafnaði aftur í land eftir svaðilfarir á sjó. Silfur hafsins er á næsta leyti en það þarf Norðmenn til að kenna Íslendingum á síldina – það þarf raunar Norðmenn til alls því þeir koma með timbrið, peningana, skipin en fyrst og fremst hugvitið og framsýnina. Eins og höfundur segir námu Norðmenn hér land í annað sinn – þúsund árum síðar. Hinn ungi Gestur er hálfgildings leiðsögumaður lesandans í gegnum þær ótrúlegu breytingar sem ríða yfir plássið. Þótt hann sé ekki alltaf miðlægur í sögunni og aðrar söguraddir taki yfir komum við þó alltaf aftur að Gesti.

Yfir fjörlegri og ævintýralegri frásögninni vakir spurningin – hvernig fór fólk að? Hvernig lifði fólk af við skilyrði sem voru oft svo ömurleg og gjörsamlega sneydd allri mennsku? Kannski er það einmitt það sem Hallgrímur er að leitast við að skilja hér – hin íslenska þjóðarsál og hvernig hún tórði gegnum aldirnar. Svarið er þá mögulega þrjóska, ódrepandi lífsvilji og þorsti í sögur. Aftur og aftur eru Íslendingar sjálfir sínir verstu óvinir, fúlsa við síldinni – jafnvel þegar hún gengur upp í fjöru og nánast kastar sér í askana þeirra. Þá fussa þeir og skófla í sig slímgraut úr grösum. Það er á köflum erfitt að fyrirgefa þessum forfeðrum okkar – en um leið ekki annað hægt en að dást að seiglunni og ekki síður þeirri staðreynd að við höfum alltaf átt sögurnar. Jafnvel í mestu fátæktinni stingur upp kolli vísa eða saga. En þrátt fyrir vosbúðina og ömurleikann er bjart yfir bókinni, nýir tímar eru í augsýn þar sem Íslendingar eru kannski ekki skynsamari eða veðrið ljúfara, en gúmmístígvélin eru þó allavega komin til landsins.

Það ótrúlegasta við frásögnina þegar upp er staðið er kannski hversu stutt er síðan þjóðin var stödd við þessar krossgötur fortíðar og nútímans – myrkurs og ljóss - í moldarkofunum með orf og ljá, kastandi frá sér síldinni. Persónur bókarinnar þekkja Skarphéðinn og Njál, Egil og Gretti og standa þeim félögum að mörgu leyti miklu nær en okkur sem erum þó aðeins örfáar kynslóðir frá þeim.  

Hallgrímur hefur alltaf verið stílfær maður en hér er allt keyrt í botn svo lesandann næstum sundlar af kjarnyrtri íslenskunni sem dansar um síðurnar og dregur hann með sér í lygilegar svaðilfarir, rússíbanareið. Höfundur fer líka vel með gríðar mikinn fróðleik um tímabilið sem hann hefur viðað að sér. Lýsingarnar á húsakynnum (ef það er hreinlega rétta orðið yfir suma moldarbingina sem fólk bjó í), aðstæður á bátum, við vinnu og auðvitað á veðrinu eru afskaplega sannfærandi og yfirleitt hrollvekjandi. Frásögnin verður grótesk í sláandi lýsingum á útliti og aðbúnaði fólks, Hallgrímur veigrar sér ekki við að lýsa vessum, greftri og skít en hann lyftir einnig sjónum okkar hærra – til tignar fjallanna, ískaldrar fegurðar snævi þakinna tinda og um leið og hann feykir heilli kirkju á haf út og býr vesaling þar vota gröf nær hann lesandanum aftur á band þessa harðbýla lands. Eins og hann bendir á í upphafi bókar getur lesandinn lesið um skelfingarnar í öruggri fjarlægð aldanna uppi í rúmi, við getum jafnvel hvílt bókina ef veruleiki hennar verður of erfiður. Þrátt fyrir heimildirnar sem undir liggja er aldrei hætta á að upplýsingar yfirgnæfi frásögnina – til þess er sagan alltof áköf og ryðst með dásamlegu persónugalleríi sínu út á síðurnar eins og snjóflóðin sem hefja og ljúka frásögninni. Hallgrímur skilur þó eftir opna enda – sem er vel – því þótt skáldsagan sé barmafullur bikar sem fylli yfir 400 síður þyrstir lesandann í meira að lestri loknum.

 

Marianna Clara Lúthersdóttir, 2018