Beint í efni

Síðustu dagar Skálholts

Síðustu dagar Skálholts
Höfundur
Bjarni Harðarson
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Atli Antonsson

I – Inngangur

Hugsanlega ættum við ekki möguleika á því að lesa skáldskap eftir Bjarna Harðarson ef ekki hefði komið til sá tölvupóstaskandall sem hann lenti í bankahrunshaustið 2008. Tildrög málsins eru nú öllum gleymd en það lifir í minningunni að Bjarni gerði það sem margir stjórnmálamenn eiga svo erfitt með og sagði af sér. Á sama augnabliki endurfæddist hann sem rithöfundur. Strax á fyrstu blaðsíðu greinasafnsins Farsældar Frón sem kom út nokkrum vikum síðar játar höfundur að hafa notfært sér „tækifæri mikillar umfjöllunnar sem afsögn mín á þingmennsku fékk“ (10) til að gefa út úrval blaðagreina um þjóðmál. Næsta haust kom út hans fyrsta skáldsaga, Svo skal dansa, og Bjarni hefur síðan verið duglegur við skriftirnar og gefið út sex skáldsögur til viðbótar auk sannsögunnar Krónika úr Biskupstungum (2014). Reyndar hafði hann árið 2001 gefið út þjóðfræðiritið Landið, fólkið og þjóðtrúin: kortlagðir álagablettir og byggðir trölla, álfa, drauga, skrímsla og útilegumanna í Árnesþingi, sem fjallar um staðfræði sunnlenskra þjóðsagna. Bjarni hefur lengi verið þjóðþekktur fyrir blaðamennsku sína og stjórnmálaþátttöku en ekki síður fyrir að vera athafnaskáld á sviði menningarmála með stofnun fréttablaða, bókaútgáfu og bókaverslanna auk annarra verkefna tengdum sögu Suðurlands. Hér verður hins fæstum orðum eytt í að ræða hans margvíslegu störf heldur verður fyrst og fremst kannað hvað einkenni skáldsögur Bjarna.

II – Talað við gamalt fólk

Það sem fyrst vekur athygli er hvernig skáldskapurinn sprettur upp úr áhuga Bjarna á ættfræði og viðleitini frá því á unglingsaldri að tala við gamalt fólk um lífið í gamla daga. Nálægt endinum á Svo skal dansa (2009) segir hann frá því að þegar hann var nítján ára hafi hann fengið áhuga á ættfræði og heimsótti ættingja á Fáskrúðsfirði til að reyna að púsla saman ættartrénu. Aðferðin er á vissan hátt svipuð og Landið, fólkið og þjóðtrúin. Það er að segja, báðar bækurnar byggja á kortlagningu frásagna, annars vegar á þjóðsögum Suðurlands þar sem Bjarni ólst upp, og hins vegar á sögum sem tengjast forfeðrum og mæðrum. Fyrir austan heimsækir hann ömmubróður sinn, Nonna frænda, en hann kynnir hann síðan fyrir Pöllu frænku þeirra, sem er fróð um ættarsöguna.

Hún [Palla] heldur hér heimili fyrir Guðmund sinn sem er nokkurs konar eldri bróðir eða föðurbróðir en í raun og veru samt bara fjarskyldur ættingi í gegnum svo flókin hálfsystkinasambönd að ég fæ ennþá svimatilfinningu þegar ég reyni að koma öllu heim og saman og hefi samt grúskað eins og Nonni sagði. (276)

Eins og sést Í viðauka aftast í bókinni sést þó að Bjarni hefur þrátt fyrir allt komið ættartrénu heim og saman. Þetta ættartré nýtist manni mjög vel þegar maður les söguna, því maður getur orðið ruglaður í ríminu að muna hver var hvað og hvernig hver tengist hverjum. Bjarni skrifar aðallega um fjórar kynslóðir formæðra sinna: langalangömmu, langömmu, ömmu og föðursystur. Sagan spannar rúmlega hundrað ár frá því um miðja nítjándu öld fram á síðari hluta tuttugustu aldar. Þetta ættarsöguform sem spannar hundrað ár minnir á vissan hátt á Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez, eða ef maður fer inn í íslenska samhengið Djöflaeyjubækur Einars Kárasonar. En þótt Svo skal dansa beri þess ýmis merki að vera söguleg skáldsaga byggir hún í raun ekki á miklum heimildum:

Eða voru þessar konur hetjur fátæktarinnar þrátt fyrir allt? Í þrjá áratugi safna ég í sarpinn fróðleik um þessar konur með því að tala við gamlar konur og drekka með ömmubræðrum mínum en eftirtekjan kemst fyrir á einu vélrituðu blaði.

-Það er ekki frá neinu að segja, svaraði Nonni frændi mér eitt sinn og hafði rétt fyrir sér.

En sögur sem engar eru láta mig ekki í friði þar til ég ákveð að impróvisera þær án þess að hafa nokkuð fyrir mér. Það sem hér á eftir fer er því spuni og eins fjarri því að vera sagnfræði eins og Ragnars saga loðbrókar. Sem var hetja eins og þær ömmur mínar. (8)

En með því að fylla inn í eyðurnar með skáldskap nær hann að heiðra minningu formæðra sinna sem annars hefðu algerlega gleymst. Stíllinn er þannig að fyrst segir langalangamman, Sigríður Velding, frá í fyrstu persónu og svo tekur langamman, Sesselja Helgadóttir, við sem sögumaður um miðja bók. Töluvert er um sviðsett samtöl en annars er frásagnarhátturinn eins og ef ömmurnar væru að segja frá sitjandi við eldhúsborðið. Þær segja mest frá atburðum og framvindan er eðlilega hröð miðað við að frásögnin fer yfir hundrað ár á 280 blaðsíðum. Lítið er um lýsingar á umhverfi og útliti persóna og svo framvegis og mjög sparlega farið með að segja frá sögulegum aðstæðum, nema rétt nóg til að maður fái öðru hvoru vísbendingu um hvað árunum líði. Nánast ekkert er til dæmis minnst á fyrri heimstyrjöldina en seinni heimstyrjöldin minnir á sig fyrst og fremst vegna þess að landið er hersetið af Bretum og Bandaríkjamönnum. Á köflum er frásögnin svo sorgleg að maður neyðist til að leggja hana frá sér og taka hlé lestrinum. Sérstaklega þegar konurnar þurfa að senda frá sér börnin og þegar vonirnar um að hitta elskendurna og um að geta haft börnin hjá sér bresta hvað eftir annað. Svona heldur frásögnin áfram í gegnum árin án þess að kjör formæðranna bættist nokkuð að ráði fyrr en eftir seinna stríðið. Samt eru þær yfirleitt hressar og segja skemmtilegar sögur og eru fyndnar og bera sig oft mannalega þrátt fyrir alltsaman.

III – Alþýðan í brennidepli

Bjarni beitir einnig svipaðri aðferðafræði munnlegrar sagnfræði eða þjóðfræði í síðari bókum. Þar ber helsta að nefna Mensalder (2012), sem líkt og Svo skal dansa blandar skáldskap saman við munnlega geymd til að segja ævisögur fátæks alþýðufólks sem skildi ekki eftir sig miklar heimildir fyrir sagnfræðinga. Bókin rekur næstum aldar langa ævi kotbóndans Mensalders Rabens Mensalderssonar frá fæðingu 1888 til andlátsins 1980, en einnig í leiðinni sögu föður hans, Mensalders Jónssonar, og fóstrunnar Margrétar Jónsdóttur, Ranakots-Möngu. Bjarni var tæplega tvítugur þegar hann heyrði fyrst sögu Mensalders en hitti hann aldrei í eigin persónu. Frásögnina byggir hann þó að miklu leyti á samtölum við gamalt fólk í sveitinni sem þekkti til hans. Óvíst er hversu nákvæmar upplýsingar komu úr þeim samtölum og sjálfsagt er stór hluti bókarinnar skáldskapur til að fylla upp í eyður. Þetta er þjóðfræðiskáldskapur á elleftu stundinni til að segja sögu manns sem annars myndi gleymast og fáir myndu vera færir um að þekkja þótt þeir rækjust á hið sérkennilega nafn einhverstaðar í kirkjubókum. Sérkennilegt nafn aðalpersónunnar eitt og sér vekur í senn forvitni um ævi hans og tillfinningu fyrir framandleika fortíðarinnar, svo það er þjóðþrifaverk hjá Bjarna að eigna þessum manni heila bók og endurskapa veröldina í kringum nafnið. Hann lýsir vel lífi alþýðufólks í uppsveitum Suðurlands undir lok nítjándu aldar og fram eftir tuttugustu öld og virðist þar ná að byggja á víðtækum fróðleik um staðhætti og lifnaðarhætti í torfbæjarsamfélaginu.

 

Sterkar kvenpersónur einkenndu Svo skal dansa og það gera einnig nokkur af síðari verkum Bjarna. Þótt Mensalder sé kennd við karlkyns aðalpersónu og söguþráðurinn fylgi að mestu lífi Mensalders eldri (ca. fyrstu 100 blaðsíðuarnar) og Mensalders yngri (næstu 150 blaðsíður), þá er fóstran Ranakotsmanga, sem er lýst sem „tveggja álna uppkreistingi“, eftirminnilegasta persóna bókarinnar og eiginlega fyrirferðarmest á fyrstu 200 blaðsíðunum þangað til hún deyr. Hún elur upp Mensalder eftir að móðir hans deyr í barnsburði en stendur síðar í vegi fyrir því að hann gangi að eiga konuna sem hann elskar. Þannig myndast spenna sem heldur frásögninni gangandi allan síðari hlutann. Svo það má segja að skáldsagan Mensalder sé ástarsaga alþýðufólks úr sveit á fyrri hluta tuttugusta aldar sem þarf að hafa mikið fyrir því að geta verið saman. Þótt fátæktin sé mikil þá er þessi bók ekki jafn sorgleg og Svo skal dansa því þrátt fyrir allt er Mensalder gæfumaður á sinn nægjusama hátt. Að fylgjast með því hvernig þessi fátæki kotbóndi nær að lifa í sátt við hlutskipti sitt og jafnvel njóta lífsins er kannski það eftirminnilegasta úr þessari bók.

IV – Íslenskir kapítalistar

Önnur skáldsaga Bjarna, Sigurðar saga fóts (2010), sem var skrifuð á meðan kreppan var í hámarki er gjörólík þeim sem hingað til hafa verið ræddar, en sækir þó einnig efni í fyrri störf og áhugamál hans. Í þetta sinn leitar hann í brunn blaðamennskunnar og samfélagsrýninnar hvers úrval hann birti í fyrrnefndu greinasafni, Farsældar Frón. Þar birtust pistlar og greinar Bjarna um þjóðmál frá árunum 2005-2008 og bókin hefst á langri syrpu um „Íslenska efnahagsundrið“. Í Sigurðar sögu fóts má segja að Bjarni höggvi í sama knérunn þar sem hann skrifar háðsádeilu um líf og störf íslenskra kapítalista. Á þessum árum voru þeir oftast nefndir útrásarvíkingar en Bjarni virðist frekar vilja kalla þá riddara, enda er undirtitill bókarinnar „íslensk riddarasaga“. Orðið útrásarvíkingur kemur oft fyrir í bókinni, en í ræðu sem hjákona Sigurðar heldur í brúðkaupi hans þá heldur hún því fram að það ætti frekar að kalla hann riddara heldur en víking, þar sem Sigurður sé hetja alþýðunnar. Í endurliti er það kannski einmitt eitt af því undarlegasta við umræðuna um íslenska viðskiptamenn á fyrsta áratug aldarinnar að þeir hafi verið einhverskonar alþýðuhetjur:

Í brúðkaupi þessu voru ráðherrar og ritstjórar, sendiherrar og sjálftökumenn, útgerðaraðall og utangarðsmenn þessir sem í tísku töldust það sinnið. Og þar var Vala Maríudóttir. Af veislunni fer engum sögum frekar en óhófi yfirleitt. Ekki fyrr en eftir að utanríkisráðherra hafði flutt hjartnæma ræðu þar sem hann líkti Sigurði fót við víkinga fornaldar, kallaði hann útrásarvíking hins nýja tíma. Næst á eftir ætlaði veislustjóri að gefa forstjóra eins olíufélaganna orðið en þá heyrðist slegið fruntalega í glas og við borðsenda brúðhjónanna stóð Vala Maríudóttir með svarta svuntu.

-Kæru þið, kæri Sigurður og þið öll. Fyrir hönd, – segir  maður ekki þannig? – jú, fyrir hönd eða önd okkar starfsfólksins, okkar hinna óbreyttu á gólfinu hjá köllunum okkar, Sigurði fót og Bjarnhéðni kaupahéðni, já okkur finnst þetta gegt og okkur stelpunum finnst hann Sigurður eiginlega miklu flottari en víkingur, okkur finnst hann vera riddari, hann er í raun og veru riddarinn okkar á hvíta hestinum og nú þegar hann er að gifta sig þá finnst okkur eins og við séum allar að giftast honum og kannski erum við það bara, svo þú skalt passa þig, Ella mín, því við erum allar skotnar í honum og hann veit það. Hann Sigurður minn. (132)

Sigurður fótur heitir í raun Sigurður Frits og er sonur alþýðukonunnar Huldu Oddsdóttur, sem var launbarn hins ættstóra Fritz L. Fritz. Þaðan hefur Sigurður ættarnafnið sitt þó að hann hafi alist upp í Breiðholti hjá mömmu sinni og stjúppabbanum Bjarnhéðni kaupahéðni. Persónugalleríiið er fullt af vísunum í persónur úr íslensku þjóðlífi, t.d. virðist Fritz ættin byggja á Thors ættinni. Persóna Sigurður fóts virðist byggja að mestu á frægasta útrásarvíkingnum Björgólfi Thor, en sumt minnir líka á aðra þekkta viðskiptamenn, t.d. Jón Ásgeir. Samstarf þeirra feðga Sigurðar og Bjarnhéðins svipar á margan hátt til þeirra Björgólfsfeðga eða Jóns Ásgeirs og Jóhannesar í Bónus. Þessar vísanir í raunverulegar persónur þjóna að því er virðist þeim tilgangi að minna lesendur á að þótt söguþráðurinn sé farsakenndur byggir hann á raunverulegum atburðum. Viðskiptamódelið er til að mynda eins og hjá útrásarvíkingunum, þ.e.a.s. sífellt stærri skuldsettar yfirtökur á fyrirtækjum í krafti þess að hafa yfirráð yfir banka sem þjónar sem endalaus uppspretta lánsfés þangað til allt springur að lokum.

 

Bókin er skrifuð eins og ævisaga þótt helsta plottið snúist um viðskiptafléttur á áratugunum fyrir og eftir aldamótin síðustu og fram að Hruninu. Frásögnin hefst á ættarsögu Sigurðar í sveitinni kringum ánna Skrautu og svipar að því leyti til annarra skáldsagna Bjarna. Sagt er frá atburðum í lífi ömmu og afa Sigurðar og svo mömmu þar til aðalpersónan fæðist loks og vex úr grasi. Þetta er kannski heldur langur aðdragandi að sögu sem er kynnt aftaná kápu eins hröð atburðarás um íslenskt viðskiptalíf, sem hún verður eftir þennan fyrsta hluta um ættifræði og æsku Sigurðar í Breiðholti. Stærstur hluti bókarinnar er síðan lagður undir frásagnir af undarlegum viðskiptafléttum og samskiptum Sigurðar við ástkonur og viðskiptafélaga. Það er margt hressandi í þeirri frásögn en að öðrum ólöstuðum er Bjarnhéðinn kaupahéðinn skrautlegasti karakter bókarinnar. Persóna Sigurðar fótar líður svolítið fyrir það að vera í raun passíf og álpast einhvernveginn til þess að verða stórlax í viðskiptalífinu. Í lokin flýr hann af hólmi þegar fyrirtækið fer á hausinn og eyðir ævikvöldinu í útlegð í Afganistan, sem eru eflaust örlög sem margir hefðu óskað útrásarvíkingunum.

V – Málsvörn hinna vondu

Kannski má segja að skáldsagan Mörður (2014) sé framhald af þeirri braut sem Bjarni fetaði í sögunni um Sigurð fót. Á svipaðan hátt og hann samsamaði sig þar einni hötuðustu manngerð samfélagsins, útrásarvíkingunum, tekur Bjarni hérna upp málstað Marðar Valgarðssonar, líklega illræmdustu persónu íslenskrar bókmenntasögu. Ef við leyfum okkur að halda því fram að skáldsögur Bjarna Harðarsonar einkennist í heildina litið af stéttavitund þar sem samúðin liggur að mestu hjá fátækri alþýðunni þá mætti skilgreina skáldsöguna Mörð ásamt Sigurðar sögu fóts sem uppgjör hans við yfirstétt landsins. Í þann flokk mætti reyndar bæta mörgum köflum í Skálholtsþríleiknum og þriðja bindinu Síðustu dagar Skálholts sérstaklega, en að því verður vikið betur síðar. Hinn alræmdi goðorðsmaður Mörður hefur hérna orðið segir frá ævi sinni og atburðum Njálu frá sínum sjónarhóli. Hann útskýrir galla Gunnars og Njáls og hvernig þeir kölluðu með gjörðum sínum yfir sig sín grimmu örlög. Að auki hefur Mörður líka ýmislegar athugasemdir um þjóðveldisöldina og er ekki síst gagnrýninn á framkvæmd kristnitökunnar.

 

Um þessa sögu mætti kannski nota hugtakið „fan-fiction“, eða aðdáendabókmenntir. Þetta hugtak hefur aðallega verið notað um skáldskap, sem oftast er birtur á netinu þar sem lesendur skrifa viðbótarefni við vinsæla söguheima. Á sama hátt er Mörður eins og aukaefni við Njálu og í raun endurtúlkun sögunnar frá sjónarhóli eins af vondu köllunum. Á sama ári kom út svipuð bók eftir annan Njáluaðdáanda og félaga Bjarna úr Framsóknarflokknum. Hér er er átt við bók Guðna Ágústssonar Hallgerður: örlagasaga hetju í skugga fordæmingar þar sem hann heldur uppi málsvörn fyrir Hallgerði langbrók. [1] Kannski marka þessar bækur upphafið hefð Njálu aðdáendabókmennta, en það er fyrir utan efni þessarar greinar að fara nánar út í þá sálma. Það má þó auðvitað benda á að Njála á sér langa og viðburðarríka túlkunarsögu sem margt hefur verið ritað um, til að mynda gerir Jón Karl Helgason þessu efni skil í bókinni Höfundar Njálu.[2]

VI – Landamæri minninga og skáldskapar

Í Króníku úr Biskupstungum (2014) heldur Bjarni áfram með aðferðafræði munnlegrar sögu, en þessa bók mætti kannski kalla tilraun með frásagnarhátt sannsögunnar. Ég held það megi líta á hana sem ákveðinn millileik í höfundarverki Bjarna og upptaktinn að sögulegu skáldsögunum í þríleiknum um Skálholt. Í inngangi sínum að verkinu lýsir hann aðferðinni á eftirfarandi hátt:

Saga systkinanna frá Vatnsleysu og afkomenda þeirra verður rakin hér og eins heimildir leyfa og alls ekki umfram það. Það er vissulega freistandi að nota þessa mögnuðu ættarsögu sem efni í sögulega skáldsögu. Þar með mætti skyggnast inn í skáldaðan hugarheim þess fólks sem hér er sagt frá, gera grein fyrir mögulegum tilfinningum þess og sálarlífi. En um leið rýrir það til mikilla muna allt heimildargildi. Höfundur hefur á undanförnum árum rætt við fjölda Biskupstungnamanna og þannig dregið mikið efni á land úr munnlegri geymd. Sú söfnun verður vitaskuld marklítil ef saman við er blandað skáldskap. Það lygilegasta í slíkri sögu yrði þá ranglega talið til skáldskapar. (9-10)

Í þessari bók má segja að áhugi Bjarna ættfræði nái fullri blómgun. Bókin er prýdd fjölda ættartrjáa sem tengja saman fólkið sem sagt er frá í Krónikunni og jafnframt gömlum ljósmyndum af sögupersónunum. Líkt og í fyrri verkum vinnur Bjarni hér á elleftu stundu við að bjarga fróðleik frá glötun. Bókin endurspeglar mörk þess hversu langt er hægt að seilast aftur í tímann og rekja söguna út frá samtölum við gamalt fólk. Til marks um þetta er að á öftustu síðu kemur fram að nokkrir af heimildarmönnum bókarinnar voru látnir við útkomu hennar. Einn þeirra afhenti Bjarna stuttu fyrir andlát sitt viðtal sem hann hafði náð að taka við föður sinn áður en hann lést og með þessum hætti nær frásögn Krónikunnar að teygja sig allt aftur til miðrar nítjándu aldar.

VII – Skálholtsþríleikurinn

Í næstu bókum sínum lætur Bjarni eftir freistingunni að skrifa sögulegar skáldsögur. Þá teygir hann sig aftur í aldir þangað sem engar munnlegar heimildir ná lengur til. Þótt hér sé bent á að Bjarni snúi sér að sögulegum skáldsögum, þó eru flestar skáldsögurnar hans vissulega sögulegur. Einungis Sigurðar saga fóts gerist að mestu í samtímanum. Hinar segja allar frá atburðum frá því áður en Bjarni fæddist. Munurinn á skáldsögunum sem kenndar eru við Skálholt og fyrri verkum sem kalla má söguleg felst í aðferðinni. Í Svo skal dansa og Mensalder skrifaði Bjarni um raunverulega einstaklinga og reyndi að komast eins nálægt þeim og mögulegt var með samtölum við fólk sem mundi eftir þeim. Svo beitti hann ímyndunaraflinu til að fylla uppí eyðurnar. En í þetta skipti býr Bjarni til skáldaðar persónur og endurskapar umhverfi þeirra í kringum Skálholt á átjándu öld upp úr rituðum heimildum. Í stað þess að nota atburði úr lífi þekktra persóna, sem er líklega algengasta aðferðin við gerð sögulegra skáldsagna, þá skrifar Bjarni um skáldaðar persónur af alþýðustétt. Þó slæðast ýmsar sögulegar persónur inní frásögnina líka.

 

Í skáldsagnaþríleiknum sem inniheldur bækurnar Í skugga Drottins (2017), Í Gullhreppum (2018) og Síðustu dagar Skálholts (2020) kemur saman margt af því sem Bjarni hefur unnið með í fyrri bókum. Helstu þráðum frásagnarinnar er haldið saman með ættarsögu afkomenda Maríu Ingvarsdóttur og Greips Eiríkssonar sem kynnast í fyrstu bókinni, en sjónarhornið hvílir að mestu hjá mæðgunum Maríu og Katrínu Greipsdóttur. Sem fyrr liggur samúðin með fátækri alþýðunni og erfiðri stöðu leiguliða gagnvart ofurvaldi biskupsstólsins sem átti flestar jarðir eru gerð góð skil. En þrátt fyrir baslið og fátækina fá ástarsögur stórt pláss í þessum skáldsögum líkt og í fyrri bókum Bjarna.

 

Fyrsta bók þríleiksins um Skálholt, Í skugga drottins (2017), hefst einhverntíma um miðja 18. öld þar sem fátækir leiguliðar basla við að lifa af andspænis valdi biskupsstólsins í Skálholti. Aðalpersónan er hin fátæka bóndadóttir frá Álftanesi, María Ingvarsdóttir sem í byrjun starfar sem matselja í verbúð og kynnist þar bóndanum Greipi Eiríkssyni sem stundar útróðra til að borga landskuld til Skálholts. Hann biður hennar og hún flytur með honum á Eiríksbakka í Biskupstungum. Sagan segir síðan frá lífi þeirra í sveitinni næstu árin sem einkennist af fátækt og átökum við ofurvald biskups og sýslumanna. Samúðin er allan tímann hjá alþýðufólkinu og athyglinni er líka beint að alls kyns skrýtnu jaðarfólki eins og niðursetningnum Jóni skrifara og hinum samkynhneigða kapellán í Skálholti Þórði Jónssyni og svo mætti lengi telja. María Ingvarsdóttir er persóna sem er náskyld fyrri kvenpersónum Bjarna vegna þess hversu viljasterk og úrræðagóð hún er þrátt fyrir fátæktina. Lesandinn samsamar sig með henni í upphafi þar sem hún kemur sem utanaðkomandi inn í Biskupstungurnar og kynnist lífinu í sveitinni samtímis henni. Textinn liggur á mörkum skáldskapar og þjóðfræði þar sem markmiðið er ekki síst að endurskapa heim átjándu aldar og veita lesandanum tilfinningu fyrir því hvernig alþýðan lifði. Í samræmi við þetta viðhorf er mikil áhersla á hversdaginn í torfbænum en líka hátíðarnar sem stóðu upp úr eins og vikivaka dansinn sem var aldinn á hverju hausti í Hrosshaga.

 

Í næstu bók, Í Gullhreppum (2018), rekur Bjarni sögu Þórðar Jónssonar í Reykjadal sem kom við sögu í síðustu bók en hvarf úr sögunni þegar hann hélt til Kaupmannahafnar. Þórður er fyrir margra hluta sakir sérkennilegur maður en í þessari skáldsögu leggur Bjarni sérstaka áherslu á hlutskipti hans sem samkynhneigðs manns í ströngu og guðrækilega samfélagi 18. aldar. Í fyrsta hlutanum segir frá utanferð Þórðar til að leita réttar síns varðandi úthlutun prestsembættis í Reykjadal, sem Biskupsvaldið stóð gegn þrátt fyrir að hann hafi verið skipaður af stiftamtmanni á Bessastöðum. Þórður lendir í ástarævintýri með okurlánara af gyðingaættum sem greiðir götu hans í borginni svo að það vekur furðu þegar hann heldur sig fast við upphaflegt markmið sitt um að verða sveitaprestur og yfirgefur ástmann sinn. Heima á Íslandi sætir hann aðkasti vegna kynhneigðar sinnar og er undir stöðugu eftirliti biskupsstólsins í Skálholti fyrir að útbreiða frjálslyndan boðskap í predikunum sínum. Samhliða sögu Þórðar heldur Bjarni áfram að rekja sögu mæðgnanna Maríu og Katrínar Greipsdóttur og annarra persóna úr sveitinni. Þegar Þórður er settur af sem prestur og ráðinn sem kennari í Skálholt býðst ennfremur áhugaverð innsýn í skólalífið á staðnum.

 

Í þriðju bókinni, Síðustu dagar Skálholts (2020), er Katrín Greipsdóttir, dóttir hjónanna Maríu og Greips úr fyrstu bókinni í aðalhlutverki. Katrín býr í Skálholti alla sína ævi frá því að móðir hennar kom henni þangað í fóstur á barnsaldri. Hún verður þar vitni að mörgum örlagaatburðum eins og móðuharðindunum og suðurlandsskjálftanum 1784 þegar flest bæjarhúsin í Skálholti hrundu til grunna. Auk Katrínar þá eru í þessu bindi biskupafeðgarnir Finnur Jónsson og Hannes Finnsson í stórum hlutverkum. Þeir voru síðustu biskuparnir í Skálholti og frá þeirra sjónarhóli segir Bjarni söguna af því hvernig vald biskupsstólsins minnkaði í lok átjándu aldar svo að embættið var á endanum flutt til Reykjavíkur svo að hinn forni höfuðstaður verður á endanum einungis venjulegur bóndabær.

 

Í ljósi þess að flest sem Bjarni skrifar fjallar á einn eða annan hátt um sveitir Suðurlands mætti kannski kalla hann staðbundinn sagnamann, en þess ber að geta að í gegnum tíðina hafa íslenskir þjóðfræðingar oft sérhæft sig í sínu eigin héraði og líklega má skilja Bjarna sem hluta þeirrar hefðar. Þótt Bjarni miðli fróðleik sínum í gegnum sögur, bæði sannar og skáldaðar, þá verður ekki framhjá því litið að hvatinn að baki skrifunum virðist vera sá að bjarga frá glötun þekkingu sem hann hefur aflað jöfnum höndum með bókagrúski og samtölum við eldra fólk. Sú þekking sem hann miðlar snýst samt ekki beint um staðreyndir og ártöl heldur lýsingu á menningu, lifnaðarháttum, hversdegi, talsmáta og svo framvegis hjá alþýðufólki fyrri tíðar. Sá sem leitar að söguþræði til að draga sig áfram í gegnum Skálholtsþríleik Bjarna getur orðið fyrir vonbrigðum, því aðdráttarafl þeirra felst ekki í sögufléttunni heldur í þeim heimi sem skáldverkin endurskapa og þeim persónum sem þar lifna við. Eftir að hafa áttað sig á þessu getur maður lesið hægt og rólega og notið samtalanna og húmorsins sem gegnsýrir þjóðlífslýsingarnar. Í leiðinni verður lesandinn ríkari af fróðleik um hvernig fólk lifði í gamla bændasamfélaginu. Markmið sínu með skrifunum lýsti Bjarni vel í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni: „Til þess að skilja átjándu öldina, verður maður að skilja alþýðuna“. Og það má fullyrða að sögulegar skáldsögur Bjarna séu gott hjálpartæki til að öðlast þennan skilning.

 

Að lokum ber að nefna sérstakann stíl Bjarna Harðarson sem er í senn forn og alþýðlegur. Hans persónulegi frásagnarháttur leynir sér ekki í sögunum, en talandinn er líklega eftirminnilegur öllum sem hafa heyrt til Bjarna í eigin persónu eða í sjónvarpi. Jafnframt er það eitt af aðalsmerkjum skáldsagnanna hvernig hann nær að fanga tungutak allra þeirra ólíku persóna sem hann vekur til lífsins frá liðnum öldum í samtölum og hnyttnum tilsvörum.

VIII – Lokaorð

Þegar litið er yfir skáldsögur Bjarna Harðarsonar má greina ákveðna samfellur. Hann fjallar yfirleitt um efni sem stendur honum nærri á einhvern hátt, annaðhvort tengd fjölskyldu hans sjálfs eða heimahéraði. Skrifin má líka skilja sem einhverskonar kortlagningu. Í fyrstu bókinni tengdi hann saman sunnlenskar þjóðsögur við ákveðna staði og í síðari bókum heldur hann áfram að fylla bæði landakort og ættartré af sögum. Í sögum sínum einbeitir hann sér jafnframt að því að gefa fólki rödd sem áður hefur verið hunsað eða útskúfað: fátækum vinnukonum, kotbændum og niðursetningum en líka þeim sem hafa verið taldir vondir eins og Merði Valgarðssyni og útrásarvíkingum. Það verður spennandi að sjá hvar Bjarni stingur niður penna næst, en hvort sem það verður í enn fjarlægari fortíð eða byggi á munnlegum heimildum, þá er nokkuð öruggt veðmál að Suðurland verður áfram sögusviðið.

 

Atli Antonsson, desember 2020

 

[1] Guðni Ágústsson, Hallgerður: örlagasaga hetju í skugga fordæmingar (Reykjavík: Skynjun, 2014).

[2] Jón Karl Helgason, Höfundar Njálu: þræðir úr vestrænni bókmenntasögu (Reykjavík: Heimskringla, 2001).