Beint í efni

Skáldið á daginn

Skáldið á daginn
Höfundur
Jóhamar
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Snemma í ljóðabók Jóhamars, Skáldið á daginn, er ‘viðtal’ við höfund. Þar leggur hann áherslu á mikilvægi súrrealismans fyrir verk sín, og nefnir líka Dag Sigurðarson, Alfreð Flóka, James Joyce og Jeff Noon. Einnig er fjallað um útgáfu á netinu, en Skáldið á daginn er safn ljóða sem birst hafa á bloggsíðu höfundar. Jóhamar segir: „Netið er frábært. Ég elska hvað það er instant. Maður skrifar ljóð í eitthvað box og klikkar Submit og það er útgefið.“ Með þessu fær hann fleiri lesendur og bætir við að „þetta Nonprofit dæmi er líklega eina raunverulega hugsjónin sem er í gangi í dag.“ Hugsjónir eru þó ekki eitthvað til að stunda samkvæmt skáldinu, „Kaffi er miklu nauðsynlegra en nokkur hugsjón.“

‘Viðtalið’, sem er greinilega að hluta til paródískt, má vel sjá sem einskonar yfirlýsingu fyrir ljóðin, en þar er súrrealisminn áberandi, auk skemmtilega hráslagalegrar pólitískrar ádeilu sem minnir ofurlítið á hráslagann í ljóðum Dags. Ljóðin einkennast þó umfram allt af einhverskonar hreinu flæði, ‘instant’ tilfinningin frá netinu skilar sér í gegnum þetta streymi af snörpu myndmáli sem fangar tilfinninguna fyrir jaðarmenningu; þetta eru neðanjarðarljóð sem hafa náð að losa sig við farangur innantómrar tilraunamennsku, tilgerðar og naífisma og ryðjast fram í flæði sem á köflum er hreinlega óleyfilega góður skáldskapur.

Jóhamar var á sínum tíma meðlimur í Medúsu-hópnum og gaf út ljóðabækur undir merkjum þeirra. Árið 1988 sendi hann frá sér skáldsöguna Byggingin. Síðan hefur ekki heyrst mikið frá honum á vettvangi útgefinna bóka, fyrr en með Skáldinu á daginn, sem kom fyrst út sem PDF skjal árið 2005 og svo á bók árið 2007.

Það verður að segjast eins og er að heimurinn væri fátækari ef þessi ljóð hefðu ekki komið á bók. Með þessu er ég ekki að vanþakka mikilvægi netsins í að miðla ljóðinu, ljóðin gera sig vel á netinu líka, en það er eitthvað við bækur sem, allavega enn sem komið er, skapar skrifum mikilvægan ramma, gefur þeim vigt - í bókstaflegum skilningi þess að halda á gripnum ‘bók’ í höndunum. Þó er ekki mælt með því að renna sér í ljóðabók Jóhamars í einhverju áhlaupi, þrátt fyrir að tilfinningin fyrir ‘instant’ flæði sé áberandi er bókin það löng og ströng að hana er ekki hægt að innbyrða í einu lagi. Fyrir utan magn ljóðanna þá eru þau það sterk og áhrifarík að lesandi verður hreinlega lúinn og þarf að taka reglulegar (kaffi)pásur.

Fæst ljóðanna bera titil og á stundum getur verið erfitt að sjá hvar eitt ljóð byrjar og annað endar, sum tengjast greinilega í einhverskonar bálka, en lesandi fær litla hjálp við að sortera slíka niður. Allt eykur þetta á flæðið. Súrrealískt myndmál er áberandi, eins og fyrr segir, auk pólitískra undirtóna og vangaveltna um geðheilsu og -veiki. Dæmi um dulítið súrrealískt pólitískt ljóð hljóðar svo:

Áðan í sjónvarpinu niðurlægingin áfram. Tilgangslaust að sitja hér.
Stjórnborðið rauðglóandi. Það er eitthvað að tónlistinni. Viltu
samhengi þá verðuru hálsfestur. Fallegasta konan vill ekki vera
kona. Þjóðfélagið er planta. Við förum ekki þangað.

Ljóðið er einskonar framhald af ljóðinu næst á undan en þar hittir ljóðmælandi „fólk / í miðbæjarsjónvarpinu og segi eitthvað nógu vitlaust til að það fari að tvístíga.“ Seinna er menningu lýst sem lognmollu („Stormur allsstaðar á landinu nema í Reykjavík“), en það er sussað á slíkt: „Talaðu um hvað allt er að blómstra. Ljúgðu þig drukkinn af jákvæðni.“ Svo sér ljóðmælandi sýnir, ljóðabækur á útsölu sem hann þorir ekki að kaupa, en “Ef enginn kaupir þær ætli þeim verði hent?“ Kannski er þetta endirinn á vestrænni menningu: „Einmitt á þennan hátt endar allt. Og enginn tekur eftir því. Á Íslandi í vetrarhörku. Þar sem skáldin eru það sem úti frýs.“ Sjónvarpið er reglulegt tema bókarinnar og iðulega táknmynd dauða og deyfðar þó vissulega geti það líka verið trygging tilverunnar og jafnvel gluggi inn í annan heim.

Það er merkilegt hversu mikil blæbrigði birtast í þessum texta, allt frá einskonar kíminni sjálfsrýni yfir í bölmóð, með viðkomu í kaldri gagnrýni, veðurspá og vangaveltum um stöðu bókarinnar og skáldsins. Allt stungið súrralískum myndum eins og þegar „liðnir dagar koma hlæjandi upp um geðklofnar gangstéttarhellurnar.“

Inni á milli eru kyrrlátari stemningar eins og í ljóði sem fjallar um einskonar einmanaleika, ljóðmælandi gengur óafvitandi framhjá einhverjum, „snerta ekki snerta / ég hugsa ekki það sem ég hugsa / flýti mér áfram“. Þó veit hann ekki hvert hann er að fara, „ég tvöfaldast“. Það er ekki tekið á móti honum með opnum örmum, enginn tekur á móti honum, „bjóst ég við einhverjum?“ Svo er hann kominn heim, „sit og hlusta / bara síminn fari ekki að hringja / þessar eilífu skoðanakannanir“. Tilfinningin fyrir einmanaleika og skorti á tengslum við fólk og umhverfi breytist í ofurhversdagslega sýn undir lokin, á hinar eilífu skoðanakannanir sem búa í einhverskonar einskismannslandi samskipta.

Svo eru ljóð sem er ekki hægt að rekja upp og lesandi verður bara að anda að sér og halda sér dauðahaldi til að hanga með í beygjunum:

Þið margarma veraldir sem spúið eitri
framan í daginn sem gengur hægt upp stiga
höfuðlaus en ákveðið og sér eins og gluggi
á húsi sem hallast framaf jarðarbrúninni
Þið öfl eyðileggingarinnar
sem streymið um æðar fjallsins
og leggið vegi sem leiða mann ekkert
eða burt í öfuga átt
þegar allir vegvísar benda heim
og þetta heim er horfið eins og sólin af himninum
en höfuðlaus dagurinn tekur ofan

Á einhvern hátt mætti líklegast lýsa þessu sem stefi við náttúruljóð, um víðáttu og birtubrigði. Í öðru ljóði er það borgin sem er viðfangsefni:

stendur á horni
undir fallandi steypu
fólkið lítur upp
og eins og borgin leggi á flótta
sogist upp í loftið
óvart nakin
misst tímaskynið
brennandi heit
er manneskja með gluggaaugu
er það tilfellið?
rotaðir fuglar flatir á götunni
í þessari hringiðu persónuleysis
þar sem húð minnir á börk
og tilgangsleysi er marglitar blöðrur

Hér er dæmi um hvernig myndmál ferðast milli ólíkra ljóða og þjónar ólíkum tilgangi en skapar samt skemmtilegar tengingar. Borgin er skáldinu nokkuð hugleikin þó ekki sé hún kannski alltaf kunnugleg eða viðkunnanleg. Óreiða grundvallarviðmiða, eins og hvað snýr upp og hvað niður, er einnig algeng og ákaflega heillandi og gefur lesanda tilfinningu fyrir að svífa í lausu lofti þarsem öll lögmál eðlisfræðinnar eru óstöðug:

ég truflaður en genginn niður stiga með horn
í hendinni einkennilega frjáls en barinn veðri
og myrkri og hugsun og opnast stundum,
hraðbreytilegur punktur á línu dansarans,
Flóð svartnættis og stíg út úr sjálfum mér,
hrokkinn í lag, himininn streymir upp úr skókassa

Hér gengur ljóðmælandi upp stiga eins og höfuðlaus dagurinn fyrr, nema ljóðmælandi er með horn. Veðrið kemur aftur við sögu svo og tilfinningin fyrir fjölföldun, en klofin eða óstöðug sjálfsverund er reglulegt stef í ljóðunum:

ótta
ansans
blíb
og þá er ég hér teygður
út í það endanlega
djöfulli klárt
að vera ekki óvera
undarlega sjúkt
að vakna ekki með gadda
eins og kaktus
í ókortlagðri eyðimörkinni hérna
megin í bjánalegri andakt
óverulega smoginn af vindormum
þrjóskur eins og úlfaldi
og heyra fólk tala um Guð
svo ég sný mér undan
og er alfarið einn
í þessu drukkna fuglabjargi
og vakna
margfaldaður
í einni heild
einu rúmi
einum degi síðar
og það eru risastórir júlíregndropar
en frekar kyrrlátt
aldrei þessu vant

Það að vakna er tvítekið og kallar á tengingu við drauminn, eitt af leiðarljósum súrrealistanna.

Og svona mætti halda áfram að þræða krókótta stigu ljóða Jóhamars og velta sér uppúr dásamlegu myndmáli eins og „heimsendir í eldspýtustokk“ eða þegar ljóðmælandi „á vappi um daginn“ gengur fyrir horn „á kjálka kunnugleikans“. Það er eitthvað sérlega ánægjulegt við að sjá þessi öruggu tök á tungumáli og myndmáli falla saumlaust saman við snerpu og húmor og dágóðan skammt af súrrealísku brjálæði. Samt tapast aldrei tenging við veruleikann, en hún á sér myndir í sjónvarpinu og borginni, auk annarra kunnuglegra fyrirbæra.

Líklega er best að enda á orðum skáldsins sjálfs sem lýsa vel ánægjunni sem fylgir því að lesa ljóð hans:

Maður flettir bók eins og að opna dyr.
Það er alltaf þessi grunur um annan heim
sem er einhvernveginn allt í kringum mann.

Þennan heim er að finna í Skáldinu á daginn, dyr inn í nýjan veruleika sem er ýmist harkalegur eins og „kjálki kunnugleikans“ eða óútreiknanlegur eins og „hraðbreytilegur punktur“, en umfram allt ólíkur þjóðfélaginu sem er planta, því við þurfum að fara þangað.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2008