Beint í efni

Skiptidagar

Skiptidagar
Höfundur
Guðrún Nordal
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Fræðibækur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

Það er mikið undir í Skiptidögum Guðrúnar Nordal. Íslandssagan öll, menningararfurinn eins og hann leggur sig. En þó ekki síður athugun á því hvaða þýðingu fortíðin hefur fyrir nútíð og framtíð, nokkuð sem undirtitillinn, „Nesti handa nýrri kynslóð“ gefur til kynna. Togstreita einfaldra goðsagna og flókins raunveruleika sögunnar er til skoðunar, ekki síst hvernig veruleikinn er einatt margfalt flóknari og mótsagnakenndari en þær heimildir sem við höfum um hann, hvað þá þær túlkanir sem við höfum gert viðteknar á þessum sömu heimildum. Að auki er hér haldið á lofti málstað þess að leggja ríka rækt við rannsóknir á menningararfinum og miðlun þessara rannsókna, og vitaskuld á arfinum sjálfum. Þess ber síðan að geta að Skiptidagar er 188 blaðsíðna bók í litlu broti.

Enda er hér stiklað á stóru. Ekki alltaf samt: safaríkustu hlutar Skiptidaga eru tvímælalaust þegar Guðrún leyfir sér að staldra við tiltekið efni sem heillar hana. Má þar nefna umfjöllun um fræðastörf Jóns Sigurðssonar og hvernig þessi minna þekkti en fyrirferðamikli þáttur í lífsstarfi hans tengist afrekum hans í sjálfstæðisbaráttunni, myndar í raun undirstöðu árangursins. Það er líka gott að vera minntur á Mannfækkun af hallærum eftir Hannes Finnsson biskup, lítið þekkt eða lesið rit nú á dögum sem fær hér ágætt pláss.

Annað dæmi og vel heppnaðan kafla er að snemma í bókinni verður fyrir lesandanum verulega bitastæð túlkun á Innansveitarkróníku Halldórs Laxness, þar sem þessi litla skemmtisaga er sett í samhengi við bæði íslenskar fornsögur og helgirit kristninnar. Bókin verður í meðförum Guðrúnar skínandi dæmi um endurfæðingu fornra minna í nýjum jarðvegi sem umbreytir þeim þó ættarmótið leynist ekki þeim sem bera skynbragð á. Í framhaldinu nefnir Guðrún til sögunnar Gunnlaðarsögu Svövu Jakobsdóttur og Blóðhófni Gerðar Kristnýjar sem dæmi um frjóa úrvinnslu menningararfsins, einkum og sér í lagi það verkefni sem skáldskapurinn er kannski einn fær um: „kallast ekki [bara] á við gamlar ritaðar sögur heldur nemur æpandi þögnina“ (bls. 46). Hin hulda og þaggaða saga kvenna er einn af mörgum þráðum bókarinnar.

Mögulega of mörgum. Það er stundum dálítið erfitt að henda reiður á hvað Guðrún ætlar sér með Skiptidögum sínum, svo margt er hér dregið fram. Enn eitt mætti nefna: Skiptidagar eru líka öðrum þræði persónuleg skoðun á fortíð og uppruna. Guðrún segir frá forfeðrum sínum, og ekki síður formæðrum, og leið þeirra til nútímans. Þar birtist hvað skýrast erindið sem kannski er kveikja bókarinnar: Gjörbylting samfélags og lífshátta á tuttugustu öldinni á sama tíma og arfur fortíðarinnar er okkur einstaklega aðgengilegur, elstu textar öllum nokkurn veginn læsilegir og stöðug endurvinnsla í gangi eins og þessi dæmi sýna.

En hvað þýðir þetta allt? Kannski öllu heldur: Hvað þýðir þetta allt fyrir okkur? Getum við lært eitthvað meira af að rannsaka speglanir Hrunsins í átökum Sturlungaaldar en að skoða Hrunið sjálft og aðdraganda þess? Skiptidagar virðast staðhæfa það, en gefst varla færi á að færa fyrir því rök, eða jafnvel nefna um það gagnleg dæmi. Það er óneitanlega gaman þegar Guðrún rifjar upp ummæli Ketils flatnefs um að „í þá veiðistöð kem ég aldregi á gamals aldri“ þegar unga fólkið í kringum hann vill sigla til Íslands, og hún bætir við: „Okkur finnst við enn skilja hvað hann átti við“ (bls. 21). En er eitthvað meira að hafa en glott og gæsahúð við að skynja hliðstæðurnar milli landnámsmannsins og unga fólksins sem í dag lítur ekki á það sem sálfsagðan hlut að binda trúss sitt við veiðistöðina gömlu?

Kannski ekki, og kannski er ómaksins vert að taka saman svona yfirlit og það er vissuleg vel lestrartímans virði að fylgja Guðrúnu í gramsinu, hún stýrir öruggum penna og þekkir hvern krók og kima. Það er engin ástæða til að vanmeta glott og gæsahúð. Auðvitað má velta fyrir sér af hverju sumt fær ekki sitt pláss. Afrek Jóns Árnasonar og fleiri þjóðsagnasafnara, og hliðstæð þrekvirki séra Bjarna Þorsteinssonar í tónlistinni hefðu sómt sér með prýði við hlið Jóns Sigurðssonar og Árna Magnússonar. Endurómur þjóðsagna og þjóðtrúar í nútímanum hefði notið sín innan um fornsöguhetjur og þjóðveldisgarpa. En þetta er fánýtt: efnisvalið er auðvitað höfuðeinkenni bókarinnar. Að gera athugasemdir við það er að óska sér annarrar bókar

Engu að síður hefði ég kosið að Skiptidagar hefðu skilið mig eftir með skýrari tilfinningu fyrir af hverju bókin er eins og hún er: Rakning hápunkta úr menningarsögu fyrri alda, ábendingar um hliðstæður og speglanir í nútímanum. Vangaveltur um hvað eru goðsagnir og hvað staðreyndir. Ég er ekki viss um að hún standi vel undir undirtitli sínum. Til þess er gengið út frá of mikilli þekkingu og of mörg svæði skilin eftir órannsökuð.  Skiptidagar virka dálítið eins og óvenjulöng áramótahugleiðing viturs og vel menntaðs forseta. Allt er þetta góðra gjalda vert, en dálítið hátt hlutfall af sjálfsögðum hlutum. Og innan um fáséðari molar, enginn þó fágætari eða eftirminnilegri en saga af framúrstefnutónlistarmanninum John Cage sem kom til Íslands 1980 „og bar fram hráan fisk í kaffistofunni í Félagsstofnun stúdenta eins og ekkert væri.“ (bls. 174)

Þessi óvænta innreið Sushi-sins í íslenska matarmenningu hefði væntanlega ekki átt við á nýársdag.

 

Þorgeir Tryggvason, 2018