Beint í efni

Stefnuljós

Stefnuljós
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingi Björn Guðnason

Þótt smásagnasafn Hermanns Stefánssonar, Níu þjófalyklar (2004), hafi kannski ekki flotið ofarlega í jólabókaflóðinu í fyrra var það án efa eitt athyglisverðasta verk síðasta árs. Áður hafði greinasafn Hermanns, Sjónhverfingar (2003), komið út en það hefur að geyma ýmsar athuganir á bókmenntum og menningu. Á dögunum sendi Hermann svo frá sér skáldsöguna Stefnuljós sem er, fyrir margar sakir, í beinu framhaldi af Níu þjófalyklum. Fyrir það fyrsta eru aðalpersónur Stefnuljóss meðal helstu persóna Níu þjófalykla. Þetta eru hjónin Guðjón Ólafsson rithöfundur og kona hans Helena. Einkalíf gegnir stærra hlutverki í Stefnuljósi en Níu þjófalyklum því Lína systir Guðjóns tjáir honum að Helena haldi við Jósef mann hennar. Framhjáhaldið sjálft, ásamt hugleiðingum Guðjóns og samtölum hans við Línu um það, er megin þráður sögunnar. Þar með er ekki nema hálf sagan sögð, og varla það, því í raun fjallar sagan um skáldskapariðkunina sjálfa – mörk skáldskapar og veruleika. Rithöfundurinn Guðjón glímir við eigin skáldskap sem rennur á ýmsan hátt saman við veruleikann. Með þessu er meginþráður Níu þjófalykla tekinn upp því þar voru mörk skáldskapar og veruleika einnig til umfjöllunar.

Frásagnarháttur Stefnuljóss er afhjúpandi, lesandinn er sífellt minntur á að hann sé að lesa skáldskap. Til dæmis ávarpar sögumaður lesandann og fjallar um glímu sína við sögupersónuna Guðjón: „Æ, þessi Guðjón Ólafsson. Ég ræð ekkert við hann, hann hleypur út undan sér og missir sig í fráleitustu vangaveltum, talar út í hött og mætir umhverfi sínu eins og það sé ráðgáta sem hann mun leysa ... En vel að merkja er hann – og ég fullyrði það – á leiðinni eitthvað.“ (bls. 79). Í Stefnuljósi heldur Hermann áfram að vinna með afhjúpandi frásagnarhátt hinna svokölluðu sjálfssagna (e. metafiction) sem setja lesandann í annað hlutverk en tíðkast í hefðbundnum raunsæissögum. Sjálfssögur eru skáldskapur sem fjalla um skáldskap – þ.e. þær eru skáldskapur sem á einhvern hátt inniheldur viðbrögð við eigin frásögn. Þessi tegund frásagna á rætur að rekja allt til upphafs skáldsagnagerðar. Don Kíkóti eftir Miguel de Cervantes og Tristram Shandy eftir Laurence Stern eru verk sem gjarnan eru nefnd í því samhengi. Á síðari hluta tuttugustu aldar hefur þessi frásagnarháttur gengið í endurnýjun lífdaga hjá höfundum eins og John Barth, John Fowles, Italo Calvino og enn síðar hjá höfundum á borð við Paul Auster, Javier Marías og Javier Cercas svo fáeinir séu nefndir.

Það mætti vel hugsa sér að lýsa skáldsögunni Stefnuljósi með hugtökum sem Hermann hefur sjálfur fjallað um í „Orðabók ríkjandi viðhorfa“ sem birtist í Sjónhverfingum, þ.e. að sagan sé; „margræð“ og „smjúgi undan þröngum skilgreiningum“, „ef svo má að orði komast.“ Í sögunni er sífellt skipt um sjónarhorn, úr fyrstu persónu frásögn Guðjóns í þriðju persónu frásögn sögumanns, þar sem Guðjón er aðalpersóna, yfir í fyrstu persónu frásögn Helenu, í þriðju persónu frásögn sem virðist eiga sér stað í hugskotum Guðjóns, þar sem Helena og Jósef eru sögupersónur, og í þriðju persónu frásögn í verki sem er innan verksins. Lesandinn þarf því að hafa talsvert fyrir því að átta sig á hver talar og hvaða viðhorf birtist í hvert skipti. Innan sögunnar eru auk þess „sjálfstæð“ verk. Þeirra fyrirferðamest er skáldsaga sem Guðjón vinnur að en einnig má finna predikun eftir séra Pétur, fyrrum eiginmann Línu, blaðagrein eftir Jósef og/eða Guðjón og formála að greinasafni Jósefs.

Snemma í sögunni fylgja lesendur Guðjóni eftir á rithöfundaþing til Tékklands. Þar fara hugarórar um framhjáhaldið að kvelja hann, en meðfram því skrifar hann skáldverkið sem minnst var á hér að framan; „glæpasögu sem gerist í framtíðinni, eftir hrun siðmenningarinnar“ (bls. 98) eins og hann lýsir verkinu sjálfur. Þessi framtíðar glæpasaga birtist lesendum Stefnuljóss að því er virðist um leið og Guðjón skrifar hana. Á einhverjum tímapunkti ber þetta verk Guðjóns titilinn Stefnuljós en fær líka titilinn Sjálfsfróun í Portúgal en það er einnig titill bókar sem hefur úrslitaáhrif á verk Guðjóns og hans persónulegu hagi. Framtíðar glæpasagan speglar heildar frásögnina á margan hátt, því ýmislegt sem Guðjón og sögumaður varpa fram raungerist í henni.

Einna athyglisverðustu verkin innan verksins eru myndverk. Öðru fylgir ritgerð, sem er raunar einn besti kafli bókarinnar, en hinu einskonar skýringartexti. Báðar myndirnar fylgja lesandanum í gegnum verkið, en á ólíkan hátt. Annarsvegar er um að ræða málverkið Sigur dauðans eftir flæmska málarann Jan Brueghel (1568-1625). Sigur dauðans hangir, að því er virðist, bæði á vinnustofu Guðjóns og sögumanns. Það fléttast svo saman við textann í heild á margvíslegan hátt og birtist svo sjálft ásamt ritgerð um það undir lok sögunnar. Hin myndin er afar óvenjuleg, svo ekki sé meira sagt. Nefnilega ljósmynd af hjónunum Guðjóni og Helenu! Hvaða áhrif hefur ljósmynd af aðalpersónunum á lestur skáldsögu? Líkt og sögumaður bendir á, þá „eru líklega ýmsar ástæður [fyrir því] að ekki eru oft birtar ljósmyndir af sögupersónum í skáldverkum; ljósmynd, hugsa margir, skemmir ímyndina sem lesandinn hefur gert sér í huganum af sögupersónunni.“ (bls. 28). En ljósmyndin af Guðjóni og Helenu, hvað gerir hún? Skemmir hún ímynd lesandans af sögupersónunni? „Ljósmyndin hefur ekki ígildi tákns heldur veruleika.“ Þarna er eitthvað fólk. Svo ég vitni aftur í Sjónhverfingar Hermanns (bls. 148). Fólkið á myndinni hlýtur að vera til og því vakna endalausar spurningar hjá lesandanum. Hvaða fólk er þetta? Hvernig stendur á því að það birtist sem ígildi skáldsagnapersóna? Veit fólkið af þessu? Eru Guðjón og Helena kannski til í raun og veru? Varla, að minnsta kosti ef litið er til þess sem sögumaður segir um ástæður þess að ljósmyndir af aðalpersónum birtast ekki í skáldsögum allajafna: „Önnur ástæða er að almennt samkomulag ríkir um að persónur í bókum séu ekki til.“ (bls. 28). Allar þessar frásagnabrellur gera það að verkum að lesturinn er nokkuð krefjandi, en um leið skemmtilegur, því lesandinn þarf að átta sig á sjónarhorni textans til að ruglast ekki í ríminu.

Á köflum er sagan líka bráðfyndin, til dæmis þegar snúið er útúr hversdagslegri athöfn í bakaríi en um leið tæpt á heimspekilegu viðfangsefni; sambandi orða og hluta. Stundum fær sagan mann líka til að hlæja að hlutum sem eru alls ekki fyndnir í sjálfu sér eins og þegar Lína tilkynnir Guðjóni um framhjáhald maka þeirra. Guðjón hlustar á hana annars hugar og les aftan á kápu bókarinnar Sjálfsfróun í Portúgal eftir Manuel Biggs, sem síðar á eftir að hafa mikil áhrif á frásögnina:

Biggs nálgast umfjöllunarefni sitt af varfærni og með strangvísindalegum hætti „það er dálítið sem sækir á mig, dálítið sem ég verð að fá að vita vissu mína um,“ greinir hann ýmsar gerðir sjálfsfróunar „þess vegna ákvað ég að tala við þig.“ (Óskaplega held ég að þetta sé uppfræðandi og niðurdrepandi bók) og rekur sögu „sólósins“ í bókmenntum og bendir á leiðir til að yfirvinna skömmina „Sko.“ sem fylgt hefur þessari tegund kynlífs frá örófi alda og hindrað fólk í að kanna líkama sinn án blygðunar og njóta þess margvíslega unaðar sem sjálfsfróun getur verið. Ég held að Jósef maðurinn minn sé að halda framhjá mér með Helenu konunni þinni.“ (bls. 22).

Sagan er líka mjög óþægileg á köflum, einkum þegar Guðjón ímyndar sér kynlífsathafnir Helenu og Jósefs. En hún er fanta vel skrifuð sem er sannarlega ekki vandalaust þegar svo mörgum ólíkum stílum, sjónarhornum og bókmenntategundum er blandað saman í einu verki.

Í frétt sem birtist á heimasíðu bókaforlagsins Bjarts, vegna útgáfu Stefnuljóss, er vitnað í ummæli Braga Ólafssonar, sem mun hafa lesið bókina í handriti. Bragi hefur á tilfinningunni að ef bækur Hermanns vantaði í jólabókaflóðið „myndum við horfa upp á einhverja óútskýranlega eyðu í bókatíðindunum; holu sem hvorki þýddum skáldverkum, ævisögum né sjálfshjálparbókum tækist að fylla upp í.“ Þetta get ég að mestu tekið undir því í báðum skáldverkum Hermanns er ýmislegt á seyði sem hefur ekki verið mjög fyrirferðamikið í íslenskum bókmenntum og raunar furðulega lítið til umræðu. Hér á ég einkum við hinn sjálfsvísandi frásagnarhátt sem, þegar allt kemur til alls, er holdið á beinum þessarar sögu. Þar með er ekki sagt að slíkt sé beinlínis nýlunda í íslenskum bókmenntum, síður en svo. Til dæmis má nefna verk eftir Jón Kalman Stefánsson og Guðberg Bergsson í því samhengi. Í raun og veru er megin söguefni Stefnuljóss ekki sérlega beisið. Saga af rithöfundi sem kemst að því að konan hans heldur framhjá með eiginmanni systur hans, er í það minnsta ekki sérlega spennandi söguefni í mínum huga. Hinn margbreytilegi sjálfsvísandi frásagnarháttur er aftur á móti það sem gerir söguna þess virði að lesa hana, þótt þessi frásagnarháttur sé ekki beinlínis nýr af nálinni.

Ferskleika Stefnuljósa líkir Bragi við þorsk: „umfram allt er karakter hennar nýr og ferskur, alveg eins og þorskurinn sem liggur dauður í sýningarglugga fisksalans.“ Þorskur í sýningarborði fisksala er í flestum tilfellum ferskur, að minnsta kosti hjá öllum almennilegum fisksölum, en um hann flýgur engin fiskisaga, því hann hefur þegar verið veiddur. Hið sama má kannski segja um Stefnuljós, um hana flýgur engin fiskisaga því í sjálfu sér er hún ekki sérlega nýstárleg, miðin þar sem hún er dregin úr hafi eru þekkt. Þorskurinn í sýningarglugga fisksalans er líka dauður þótt skáldsagan Stefnuljós sé það reyndar alls ekki. Það er vissulega ferskleikablær yfir sögunni en hún minnir mig ekki á ferskan (nýveiddan) þorsk á ís. Eigi á annað borð að líkja sögunni við þorsk þætti mér nær að líkja henni við saltfisk, sem er jú líka þorskur (kannski að hann hafi komið á land í Grindavík?). Saltfiskur er í sjálfu sér ekki ferskur, en ferskleikinn getur falist í því hvernig hann er matreiddur. Ekki soðinn með kartöflum og rófustöppu heldur á alþjóðlegan hátt, með sterkum suður-evrópskum einkennum.

Ingi Björn Guðnason, nóvember 2005