Beint í efni

Steinarnir hrópa

Steinarnir hrópa
Höfundur
Hikaru Okuizumi
Útgefandi
GB útgáfa
Staður
Ár
Flokkur
Steinarnir hrópa
Höfundur
Hitomi Kanehara
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er ekki ólíklegt að vinsældir japanska rithöfundarins Haruki Murakami hafi jákvæð áfhrif á viðtökur annarra japanskra rithöfunda. Þó er ljóst að þær bækur sem ratað hafa á íslenska tungu nýlega, Snákar og eyrnalokkar frá því í fyrra og nú ný þýðing, Steinarnir hrópa, eru allólíkar verkum Murakamis. Japönsk menning blómstrar reyndar á Íslandi í formi manga, japanskra myndasagna, og því ætti að vera gott lag um þessar mundir að koma hefðbundnari japönskum bókmenntum á framfæri.

Snákar og eyrnalokkar var verðlaunabók og sömuleiðis hefur Steinarnir hrópa eftir Hikaru Okuizumi hlotið virt japönsk bókmenntaverðlaun. Sagan er stutt, líkari nóvellu en skáldsögu, og segir frá steinasafnaranum Tsyoshi Manase sem drekkir skelfilegum minningum úr stríðinu í nákvæmt og linnulaus jarðfræðigrúsk. Hann er giftur en sinnir konu sinni lítið vegna áhugamálsins, synirnir eru sömuleiðis nokkuð afskiptir, þar til sá eldri þróar með sér áhuga fyrir áhugamáli föðurins. Í kjölfar einnar steinasöfnunarferðar feðganna hverfur sonurinn hinsvegar og finnst stunginn til bana í helli. Atburðir í helli voru einmitt hápunkturinn á hörmungarreynslu steinasafnarans úr stríðinu og svo virðist sem þarna verði einhver samsláttur.

Líkt og í verkum Murakamis eru mörkin á milli veruleika, minninga og einhvers handan veruleikans ekki skýr í bók Okuizumis. Það kemur þó ekki í veg fyrir að dregnar séu upp skýrar og eftirminnilegar myndir, eins og af reynslu Manase í hellinum á Filippseyjum með örfáum eftirlifandi og deyjandi japönskum hermönnum og svo eru lýsingarnar á steinunum, sögu þeirra, meðferð og vinnslu ótrúlega áhugaverðar og vel unnar. Uppbygging og helstu viðfangsefni verksins eru merki þess að verkið er haganlega smíðað: Andstæðan milli fegurðar steinanna og ljótleika stríðsins, samslátturinn milli hellanna og tengingin sem steinarnir skapa þar á milli, svo og það hvernig steinninn, hið jarðbundna, bindst í samtök með minningum og einhverskonar óráði, allt sýnir þetta sterk tök á forminu og fangar athygli lesandans.

Steinarnir hrópa er þýdd úr ensku, eins og algengt er með japanskan skáldskap sem þýddur er á íslensku. Það er því ekki auðvelt að leggja mat á þýðinguna, þarsem ekki er hægt að bera hana saman við frumtextann. Enska þýðingin hefur hlotið góða dóma og þykir lipur og skýr, en því miður virðist sem að sá lipurleiki hafi ekki alveg náð að skila sér í íslensku þýðingunni, sem er á köflum óþarflega stirð og hefði að ósekju mátt við fleiri yfirlestrum. Hinsvegar er það vel að þýðandi tekur skýrt fram úr hvaða máli er þýtt og hver enski þýðandinn er, en slíkar upplýsingar liggja því miður ekki alltaf á lausu þegar þýtt er úr öðru máli en frummálinu.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007