Beint í efni

Stormfuglar

Stormfuglar
Höfundur
Einar Kárason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Nú er best að taka það strax fram að ég er afar sjóveik. Að auki er mér meinilla við kulda og vosbúð og hryllir við hráblautri útivist af hverskyns tagi. Þvert á þetta – eða kannski vegna þess? – hef ég sérlega mikinn áhuga á bókum um sjó og siglingar, ekki síst ef mikil hætta er á ferðum. Ekki er ég síður spennt fyrir sögum af heimskautasvæðum og öllu því sem snýr að frosti og ís.

Það var því með allmikilli eftirvæntingu sem ég las nýja skáldsögu Einars Kárasonar, Stormfugla, sem fjallar um hrakningar í köldum sjó. Og í stuttu máli sagt varð ég ekki fyrir vonbrigðum.

Einar Kárason er þekktur fyrir sagnamennsku sína, lýsingar á skrautlegum karakterum, hressilegum húmor og vinnu með sagnaarfinn. Bækur hans eru iðulega nokkuð stórkarlalegar – bókstaflega, því þar fara iðulega fremst í flokki nokkuð glannalegir gaurar eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir ræðir í grein sinni hér á bókmenntavefnum 

Stormfuglar er að mörgu leyti rökrétt framhald að þessu höfundarverki – sjómenn eru einmitt karlar í krapinu af því tagi sem Einar hefur fjallað um (fyrsta skáldsaga hans, Þetta eru asnar Guðjón (1981), kemur meðal annars inn á sjómennsku) og svo byggir hann verkið á sögulegri fyrirmynd, sjóskaða frá árinu 1959. Þetta tekur hann strax fram í upphafi sögunnar : „Í febrúar 1959 lentu nokkrir íslenskir togarar í fárviðri á Nýfundnalandsmiðum. Það sem þar gerðist er kveikjan að þessari sögu, en frásögn og persónusköpun lúta eingöngu lögmálum skáldskapar.“ Þetta síðasta er reyndar nokkuð sem á við mikinn hluta höfundarverks Einars, en hann hefur ítrekað lent í deilum tengdum markalínum skáldskapar og fyrirmynda. Hinsvegar er alltaf ljóst að þegar frásögn er færð í form felur það ævinlega í sér að lögmál skáldskaparins er þátttakandi, í mismiklum mæli.

Og að mörgu leyti eru Stormfuglar einnig frábrugðnir höfundarverki Einars. Sagan er stutt, nóvella, og þó sagnamennskan njóti sín þá einkennist frásögnin af meiri aga en í mörgum fyrri verka sem gerir það að verkum að textinn er þéttari og safaríkari.

Söguþráðurinn er einfaldur : Togarinn Máfur RE 335 er á veiðum undan Nýfundnalandi á svæði sem kennt er við máfategund og nefnt Ritubanki. Eftir að hafa fyllt skipið af karfa er stefnan tekin á land en þá skellur á ofsaveður. Skipið fyllist af ís, en veðurskilyrðin eru þau að sjórinn frýs um leið og hann gengur yfir eins og veðurfræðingurinn lýsir hér. Til þess að haldast á floti þarf að brjóta ísinn, en það er skiljanlega ekki einfalt mál undir þessum kringumstæðum.

Bókin hefst á lýsingum á klakaböndunum sem eru „eins og risavaxinn kristalsskúlptúr sem bylgjast og bungast í allskyns formum, eins og listrænn handverksmaður hafi mótað eftir sínum fegurðarsmekk, ten tekur í rauninni form af lögun skipsins og þó fyrst og fremst því sem er fast við skrokkinn; vindurnar stóru fyrir framan stjórnpallinn mynda stórgerðar ávalar línur, minna kannski á lítið fjall eða skíðabrekkur, járnstoðirnar upp úr dekkinu fyrir fiskikörin gætu leitt hugann að skýjakljúfunum í Ameríku, rekkverkið yfir borðstokkum er orðið að hlöðnum garðvegg“ (7) og svona heldur lýsingin áfram og rennur yfir í hegðun jökla sem gleypa heilu flugvélarnar. Áhöfnin berst við þessi „síþykknandi jökulfjöll“ (8), en það er ekki einfalt mál því þótt hægt sé að brjóta ísinn af „þá tók við annað vandamál, þessi ísflikki tóku nú að renna með skruðningum um þilfarið og eins gott að verða ekki fyrir þeim; sjómenn vita að stakir jakar á reki geta verið öllum öðrum ís skeinuhættari, það var einn slíkur sem grandaði [...] sjálfu glæsiskipinu Titanic með eitthvað tvöþúsund manns hér fyrir tæpri hálfri öld“ (12).

Frásögnin fylgir aðallega tveimur persónum, unga hásetanum Lárusi – nafna skipsins, „allir máfar heita Lárus eitthvað“ (59) – og bátsmanninum, sem er harðjaxl mikill en ljúfur inn við beinið og ljóðskáld. Einar teiknar firnavel upp lýsandi mynd af lífinu um borð og þó aðeins sé farið aftur í tíma til að skapa bakgrunn fyrir persónur og fjalla um sjómennskuna almennt og karfaveiði sérstaklega (það rifjaðist upp fyrir mér hvað helv. karfinn gat verið varasamur með sína gadda) þá er höfuðáherslan á ógnaröfl náttúrunnar og skipið í kjafti fárviðrisins.

Hér er auðvitað á ferðinni epískt viðfangsefni sem epískar bækur hafa verið skrifaðar um. Einmitt þessvegna er svo áhrifamikið að færa þetta í form nóvellunnar. Fókusinn verður skarpari og sjálft formið skapar tilfinningu fyrir þeirri einangrun og samheldni sem sagan lýsir, þar sem allir vinna sem einn og allt gengur út á að halda skipinu á floti, halda lífi og komast af. Þó dramað sé mikið er húmorinn ekki fjarri, höfundur laumar að launfyndnum athugasemdum eins og þegar raddstyrk hins annars hægláta skipsstjóra er lýst : „þegar það hafi verið mörg skip á veiðum á heimamiðum eins og Halanum þar sem oft var skip við skip og kallinn hefði hrópað fyrirmæli út um brúargluggann um að setja ætti út trollið hafi það umsvifalaust verið látið fara samtímis á tuttugu öðrum togurum“ (61). Annað dæmi um kaldranalegan húmor er þegar móðir Lárusar er að kveðja son sinn, en hún „er kvíðin“ eftir „slæmar draumfarir“ (30). En „hvað vissi hún svosem um sjómennsku eða hættur á hafi; aldrei hafði móðirin stundað þá atvinnu, þótt hún hefði reyndar misst föður sinn og líka bróður og afa á sjó. Að stunda sjó á Íslandi var eins og hermennska á stríðstímum“ (35).

Þrátt fyrir að sagan sé knöpp og nær Einar einnig að teikna upp víðtæka mynd af samfélaginu á sjó : Loftskeytum milli skipa sem vita hvort af öðru og spjalla sín á milli, tilfinningin fyrir nærveru og samhug sem skapast á úthafi, þrátt fyrir alla samkeppni. Einnig er vísað til sjóslysa og þá sérstaklega frægasta skipsskaða allra tíma, Titanic-slysið fyrrnefnt, en Lárus veltir því fyrir sér hvort hann muni ná að sjá flak þess þar sem hann sekkur með Máfinum : „þetta var sami sjórinn [...] og meðan hann stóð við stýrið var hann eins og í öðrum heimi, hann var ekki alveg viss um lengur á hvaða skipi hann var, en fann að á hverri stundu myndi hann fara á hafsbotninn þar sem flakið af farþegaskipin fræga lá, hann fengi að sjá það, kannski fyrstur manna, rétt áður en kaldur sjórinn myndi kæfa hann“ (111).

Eins og tilvitnanirnar hér að ofan sýna er þetta magnaður texti og vinnan með tungumál er kraftmikil, allt frá því hvernig höfundur lýsir og útskýrir helstu orð og fyrirbæri yfir í það hvernig hann notar markvisst orðatiltæki sem komin eru úr sjómannamáli, eins og til dæmis að ‚sjá blikur á lofti‘.

Það er alltaf gaman þegar þekktir og vinsælir höfundar taka sig til og ‚róa á önnur mið‘, og þessi saga er svo sannarlega fagnaðarefni, bæði fyrir aðdáendur skáldsins og þá sem eru með henni að kynnast því í fyrsta sinn.

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2018