Beint í efni

Stríðsmenn Salamis

Stríðsmenn Salamis
Höfundur
Javier Cercas
Útgefandi
Bjartur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Stríðsmenn Salamis er ein af þeim bókum sem ég gæti auðveldlega skrifað tvo gersamlega andstæða ritdóma um. Annar dómurinn myndi fjalla um það hvað sagan er gott dæmi um skemmtilegar pælingar með form skáldsögu og mörkin milli hennar og ævisögu og sjálfsævisögu, en bókin fjallar um rithöfund sem skrifar sögu um annan rithöfund og er í leiðinni að skrifa einskonar ‘sjálfsævisögu’. Ég myndi benda á hvað slíkar pælingar hafa verið vinsælar á undanförnum árum og ég myndi hafna því viðhorfi sem segir að þessi eilífa sjálfsumfjöllun í formi bendi til kreppu skáldsögunnar og segja að hér sé einmitt á ferðinni gott dæmi um það hvernig skáldskapurinn finni sér alltaf farveg. Í hinum dóminum myndi ég vitna í Eirík Guðmundsson sem einu sinni gagnrýndi bókmenntafræðinga sem hrifust um of að formi og sinntu ekki innihaldinu nægilega. Og ég myndi taka þessa bók sem gott dæmi um réttmæti þessarar gagnrýni, að það væri auðvelt að heillast af því formi sem höfundur velur sér og líta framhjá því að innihaldið, viðfangsefnið er óttalega eitthvað óspennandi og klisjukennt: leitin að (stríðs)hetjunni.

Hvorugur þessa ritdóma ætti fyllilega rétt á sér, því hér ætti strax að vera ljóst að það er ekki hægt að skilja að viðfangsefni og form, innihald og umgjörð í verki á borð við Stríðsmenn Salamis. Eins og áður sagði lýsir sagan því hvernig uppgjafa-rithöfundur heyrir sögu úr spænsku borgarastyrjöldinni og skrifar um hana grein. En sagan festist í honum og áður en veit er hann farinn að grafast fyrir um frekari málsatvik. Sagan er á þá leið að þegar taka á helsta hugmyndafræðing fasistahreyfingarinnar, rithöfundinn Sánches Mazas af lífi, tekst honum að flýja og fela sig, en finnst af lýðveldishermanni sem þyrmir lífi hans. Fyrsti hluti sögunnar segir frá sögunni, sá næsti er ævisaga Sánches - með ívafi - og lokahluti skáldsögunnar snýst síðan um að leita uppi hermanninn miskunnsama. Og það var þar sem mér fannst þetta allt húrra niðurávið í þreytandi hetjudýrkun, sem á einhvern hátt var í fullkominni andstöðu við það sem áður hafði komið, áhugaverðar pælingar um stríð, pólitík, vináttu, minningar og sögu. Hinsvegar fjallar sagan ekki bara um ævisögu rithöfundar og leitina að hetjunni, heldur líka um það að skrifa svona sögu, um pólitíkst umdeildan mann, sem að auki nýtur ekki pólitískrar samúðar höfundar, og, eins og áður sagði, þá er sá hluti sérlega vel heppnaður.

Hvar liggur jafnvægið í bókmenntamati? Til eru fjölmörg dæmi þess að góðar sögur séu sagðar á óáhugaverðan hátt og þannig svæfðar, einnig eru til dæmi þess að óáhugaverðar sögur lifni í logandi frásögn (stundum finnst mér þetta síðara eiga óþarflega oft við um íslenskar skáldsögur, hæfilega spennandi sögur, en vel sagðar, vantar plott). Það er sjálfsagt undir hverjum gagnrýndanda komið hvar áherslan liggur. Ég hef til dæmis yfirleitt verið frekar kona formsins, hrifist af góðum skrifum og leikjum með form og því ætti þessi saga að höfða til mín. Á hinn bógin var margt sem pirraði mig við innihaldið, samband rithöfundarins við ástkonu sína var týpísk suður-evrópsk klisja og svo gat ég ekki annað en borið stríðssöguna saman við skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Yfir Ebrófljótið, en í þeirri bók er lítið gert af því að leita uppi hetjur og hugnaðist mér slík stríðsumfjöllun mun betur en hetjuupphafningin í Stríðsmönnum Salamis. Og það sem meira er: í skáldsögu Álfrúnar fara saman fallegar formpælingar og flott flétta.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2005