Beint í efni

Stundarfró

Stundarfró
Höfundur
Orri Harðarson
Útgefandi
Sögur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Stundarfró er fyrsta skáldsaga Orra Harðarsonar. Hann hefur áður sent frá sér bókina Alkasamfélagið (2008) og einnig unnið við þýðingar, tónlistargagnrýni, lagasmíðar og upptökustjórn. Margt til lista lagt sem sé.

Atburðir í þessari sögu teljast kannski ekki stórvægilegir utan frá séð eða á alþjóðlegan mælikvarða en skipta miklu máli í lífi venjulegs fólks. Músík kemur hér mikið við sögu. Það er vitnað í dægurlagatexta og sagt frá hvaða lög hljóma úr útvarpstækjum eða eru leikin af hljómplötum. Það er lögð áhersla á músíkumhverfi persónanna. Öðru umhverfi er líka gerð greinagóð skil, hvort sem það er Akureyri, Reykjavík eða Kaupmannahöfn.

Sagan hefst fyrir norðan. Þar hittir lesandinn fyrir Dísu, Aðalsteinu ömmu hennar og Arinbjörn, skáldið að sunnan, en þau þrjú teljast aðalpersónur bókarinnar. Dísa og Arinbjörn eiga ástarfund í húsi „ömmu Steinu“ sem hefur þær afleiðingar að líf fæðist. Dísa verður ástfangin af skáldinu og gerir sér ferð til Reykjavíkur að hafa upp á honum þegar ljóst þykir að hann muni ekki hafa samband að fyrra bragði. Reyndar hafði skáldið skilið eftir miða með upplýsingum um sig en amma Steina smeygt honum úr augnfæri Dísu. Þeirrri gömlu líst nefnilega lítt á kappann, áttar sig strax á því að þar fer fremur vonlaus fyllibytta. Þessi ákvörðun ömmunnar hefur auðvitað sín áhrif á ástalíf dótturdótturinnar.

Reykjavíkurferð Dísu fer ekki eins og hún hafði vonast til en hún lærir að sætta sig við orðinn hlut. Hún endurvekur kynni við nágranna sinn, bílaáhugamanninn Agnar Má, sem kallaður er Kletturinn enda hinn áreiðanlegasti piltur. Hann gengur afkvæminu Þórgný í föðurstað, að minnsta kosti um stundarbil. Arinbjörn lifir á frægð sem hann hlaut fyrir sína fyrstu, og hingað til einu, ljóðabók en hefur ekki getað komið stafkrók á blað síðan. Hann lifir á snöpum frá útgefanda sínum og íhlaupakennslu. Örlög hans ráðast í Borginni við sundin eins og örlög fleiri ungra íslenskra skálda á fyrri tíð.

Þetta er afskaplega lipurlega rituð bók, sannkallaður skemmtilestur. Það er gott flæði í textanum. Ein hugmynd tengist annarri á átakalausan hátt og ný sjónarhorn verða til. Sem dæmi um lipran stíl má tilfæra hér lýsingu höfundar á Dísu:

Hún var óörugg og tilvistarkreppt alþýðustúlka. Kláraði rétt skólaskylduna. Virtist dæmd til að pakka vondu [sic] súkkulaði í verksmiðjunni á daginn. Og dreyma það svo á nóttunni. Amma hennar taldi stundum kindur. En á leið sinni í draumalandið taldi Dísa bara Lindubuff. Vitaskuld þráði hún eitthvað annað og meira. En menntavegurinn heillaði ekki þó að hann lægi bókstaflega í næsta nágrenni. Hann var ámóta fyrirsjáanlegur og súkkulaðið á færibandinu. Hún fékk þó allavega greitt fyrir að standa vaktina við það.

Og alls staðar er þessi músík að þvælast (fyrir). Í kafla þar sem Arinbjörn og félagi hans, Árni Ingi, ræðast við meðan Dísa bíður í öðru herbergi verður Leonard Cohen eiginlega þriðji maður í samtali þar sem sífellt er vitnað í texta hans meðan platan spilast á fóninum. Í síðasta hluta bókar er Arinbjörn kominn til Danmerkur á flótta undan skuldum og vesöld í boði meðleigjanda síns, Lene. Vonast Lene til að faðir hennar heilaskurðlæknirinn Mogens Fauerholdt geti rétt fyllibyttuna við. Lýsingin á tilraun læknisins til að afvatna tilvonandi tengdason er kostuleg og endar í algeru klúðri. Í samskiptum Arinbjarnar og læknisins tekur Bob Dylan þátt sem þriðji maður. Það eru ekki bara fyrrnefnd söngvaskáld sem koma við sögu heldur líka saxófónleikarinn og jazzskáldið John Coltrane og íslensk dægurlög af ýmsum toga.

Sagan gerist árið 1989, fyrir tíma snjallsíma og ýmissa tækja annarra, sem og samfélagsmiðla. Ýmsir staðir koma við sögu sem við minnumst frá þeim tíma, helst vertshús og auðvitað áfengisverslanirnar við Lindargötu og Snorrabraut sem báðar eru Arinbirni ofarlega í huga. Þessi tímasetning virkar mjög eðlileg.

Eins og áður sagði er stíllinn lipur og leikandi. Hann er þó kannski á köflum dálítið uppskrúfaður og allt að því gamaldags. Arinbjörn er til að mynda ætíð mjög hátíðlegur í tali og vandar afar vel mál sitt. Aðrir gera það einnig þótt í minna mæli sé. Þetta er ekki slæmt en gerir það að verkum að textinn verður meira í ætt við Guðrúnu frá Lundi (þótt hún hefði vart notað orð á borð við exklúsívur og núrótískur) og bækur frá því um miðja síðustu öld fremur en splunkunýja skáldsögu ungs höfundar. Ekki minnkar þessi tilfinning við allnokkra kaffidrykkju í eldhúskróknum hjá ömmu Steinu. Reyndar er þar fleira drukkið en kaffi og þegar að Arinbirni kemur er drukkið flest það sem flýtur, sérstaklega ef það inniheldur alkóhól. Reyndar var skrýtið að sjá að fyllibyttan sú skyldi láta sér nægja Grøn áður en hann hélt til Striks. Menn af hans tagi brúka nefnilega fremur Elefanta eða eitthvert því um líkt öl en láta alla jafna það græna eiga sig. En að vísu ætlaði skáldið að standa í framkvæmdum í þetta skiptið. Raunar eru allar lýsingar á ölvunarástandi skáldsins sem og timburmönnum og fráhvörfum mjög sannferðugar. Það liggur við að maður kyngi með skáldinu þegar afréttararnir renna sína leið.

Svo koma öll kurl til grafar í bókarlok eins og lög gera ráð fyrir og virðist þá bláendinn dálítið í ætt við sápuóperur. En höfundi fyrirgefst því að hann er búinn að skemmta manni svo vel á leiðinni.

Ingvi Þór Kormáksson, október 2014