Beint í efni

Superman: Red Son

Superman: Red Son
Höfundur
Mark Millar
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ofurhetjur myndasagnanna hafa löngum verið vinsælar og eru ofurhetjusögurnar sú tegund formsins sem er hvað sýnilegust og almennust. Ofurhetjan er al-amerísk framleiðsla, sprottin upp úr amerísku samfélagi og hugsunarhætti og er erfitt að ímynda sér að hún hefði fæðst annarsstaðar. En fólk ímyndar sér svo margt, og í fyrra kom út bók, Superman: Red Son, sem ímyndaði sér að geimfarið með Súperman hefði brotlent í USSR, en ekki USA, og drengurinn þar af leiðandi alist upp í kommúnískum anda. Þetta er ekki svo lítil hugsun. Margir hafa bent á að Ofurhetjan er einskonar goðsaga bandaríkjamanna og komi þá væntanlega í stað aldagamalla evrópskra goðsagna. Á sama hátt er hetjuímyndin mikilvæg fyrir bandarískt samfélag, knúið áfram af einstaklingshyggju og einstaklingsframtaki. Hetjan, sem hefur sig yfir lög og reglur samfélagsins og setur sín eigin lög, er táknmynd hins ameríska draums – jafnframt því að vera afleiðing þess hvernig hann breytist í martröð, ekki gleyma því að hetjan er að berjast við glæpi og spillingu sem oftar en ekki eru afleiðing einstaklingshyggjunnar. Það að flytja hetju hetjanna, Súperman, úr því samfélagi sem gat hann af sér, og yfir í samfélag þarsem tilvist hans er í raun ómöguleg, er því ekki lítið átak.

Rithöfundurinn Mark Millar er þegar orðin einskonar hetja sjálfur innan myndasöguheimsins. Hann er einn af þeim sem einmitt hefur hleypt nýju lífi í ofurhetjuna, á tímabili sem Warren Ellis vill meina að sé fjórða skeið hetjunnar – gullöldin stendur ca. frá 1938-1945, silfuröldin ca. frá 1954-1970, nýbylgjan er almennt talin hefjast um miðbik níunda áratugarins og fjórða skeiðið hefst á síðari hluta þess tíunda og stendur væntanlega yfir enn. (Athugið að öll þessi ártöl eru með fyrirvara, en þau eru breytileg eftir því hvaða útgáfu myndasögu-sögunnar er miðað við.)

Það sem slær lesanda, vanan ofurhetjusögum, fyrst, þegar bókin er skoðuð, er kápan, sem sýnir okkar kunnuglega hetju, nú í gráum búningi. Í stað rauðu nærbuxanna eru svartar, táknið á breiðu bringunni er hamar og sigð, rautt á svörtum grunni. Skikkjan er enn rauð, sem gerir okkur kleift að bera kennsl á manninn, auk þess sem hinn breiði kjálki er auðþekkjanlegur. Þessi óvenjulega litasamsetning – óvenjuleg fyrir ofurhetjusögur það er – setur síðan mark sitt á alla bókina, en Paul Mounts er ábyrgur fyrir henni, og á mikinn þátt í því að skapa það sérstaka andrúmsloft sem ríkir í bókinni. Teiknararnir Dave Johnson og Kilian Plunkett ná sömuleiðis að halda mikilvægu jafnvægi milli mjög hefðbundinna ofurhetjuteikninga, og hárfínna tilbrigða við þær, en ef teiknistíllinn væri ekki þekkjanlegur sem ofurhetjustíll myndi sagan missa marks.

Sagan sjálf er síðan tiltölulega fyrirsjáanleg, þó vissulega sé margt skemmtilega gert. Súperman er orðinn fullorðin unghetja á tímum Stalíns, sem lítur á hann sem arftaka sinn. Hann auglýsir ofurvald hans og ógnar Bandaríkjunum með því. Þetta veldur öfundsýki meðal fyrrum uppáhalda karlsins. Lex Luthor, sem í gegnum sögu Súpermans er hans helsti óvinur, er hér áfram í sínu hlutverki, nema nú eru þeir ekki óvinir innan Bandaríkjanna, heldur eru þetta alvöru kaldastríðsátök. Lengi vel forðast ofurmennið öll pólitísk afskipti, en að lokum gefur hann eftir og skapar hið fullkomna ríki, besta heim allra heima, hreina útópíu. Allri fátækt er eytt og allir búa við öryggi og stöðugleika – Evrópa sameinast undir hatti Sovjét en Bandaríkin neita að taka þátt og eru grimmur heimur glæpa og ofbeldis (hm.). Nema eins og allir vita er útópían alltaf að einhverju leyti dystópísk: í þessari reglu og ró og stöðugleika og öryggi vantar eitthvað, eins og til dæmis rúm fyrir átök, mótmæli, óreiðu. Og viti menn: það er Batman sem tekur að sér hlutverk vandræðagemsans, alveg eins og hann hefur náttúrulega alltaf átt kyn til. Núnú, svo fara ýmsir atburðir að gerast sem tengjast Lex Luthor og baráttunni milli þeirra félaga, við fáum enn meiri vangaveltur um útópíur og allt endar þetta svo í anda sögu Alan Moore, Supreme, sem einmitt er myndasaga um sögu ofurhetjunnar, með Súperman sem útgangspunkt...

Þrátt fyrir að sjónarhornið sé mjög bandarískt og að höfundur hafi greinilega ekki viljað, getað eða þorað að ganga lengra með þetta ögrandi konsept, þá er engin spurning að Superman: Red Son er áhugaverð og skemmtileg saga, bæði í sjálfu sér og sem stef við ofurhetjuhefð Bandaríkjanna og þróun hennar. Pælingarnar í kringum útópíuna eru sérstaklega skemmtilegar og gott innlegg í bókmenntasögu þessa fyrirbæris.

Úlfhildur Dagsdóttir, febrúar 2004