Beint í efni

Svavar Pétur & 20. öldin / Fenrisúlfur

Svavar Pétur & 20. öldin / Fenrisúlfur
Höfundur
Haukur Már Helgason
Útgefandi
Nýhil
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Skáldsögur
Svavar Pétur & 20. öldin / Fenrisúlfur
Höfundur
Bjarni Klemenz
Útgefandi
Nýhil
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Skáldsögurnar Svavar Pétur & 20. öldin eftir Hauk Má Helgason og Fenrisúlfur eftir Bjarna Klemenz bera þess báðar merki að vera eftir unga metnaðarfulla rithöfunda. Í raun má segja að slíkar bækur séu sjálfstæð bókmenntategund eða -grein, allavega er auðvelt að rekja í þeim sameiginleg einkenni. Mörg slíkra einkenna birtast í þessum tveimur skáldverkum, þar gætir nokkurs belgings, markmiðið er greinilega að vera ögrandi og nokkuð róttækur, hæfilega grófur en umfram allt svalur. Og nútíminn er viðfangsefnið, yfirleitt sem firrt trunta. Sameiginleg vandamál liggja síðan í úrvinnslu og stíl.

Svavar Pétur & 20. öldin segir frá bankastarfsmanninum Svavari Pétri sem snemma á tuttugustu og fyrstu öldinni er gerður að táknmynd tuttugustu aldar í umfangsmikilli áætlun um að gera Kópavog að einskonar þemagarði þeirrar nýliðnu aldar. Svavar Pétur er dæmigerður félagslega heftur grámóskulegur ekkill og í fyrstu dálítið ringlaður yfir þessum umbreytingum í lífi sínu. En fljótlega nær hann tökum á því að vera ríkur og frægur og eiga sér eftirmynd, gínu, sem sér að mestu leyti um að koma fram í stað hans, leika hlutverk hans. Við sögu koma Ásthildur, ung kona sem starfar við atburðastjórnun og talar fjálglega um að ekkert sé til fyrr en það er búið til, og að það sé hægt að búa hvað sem er til og Jónatan, sonur Svavars sem er krabbameinssjúkur hommi. Einnig kynnumst við aðeins fyrrum eiginkonu Svavars, Unu, og foreldrum hans.

Það fyrsta sem sló mig var að þarna er á ferðinni ansi skondin hugmynd. Hér blandast á nokkuð skemmtilegan hátt fortíðarþráin sem er staðfastur draugur framfarahyggjunnar, og þótt hin póstmóderníska heimspeki sýndarveruleikans sé nokkuð útþynnt, þá er eitthvað við það að gera hvítan, gagnkynhneigðan, miðaldra miðstéttarkarlmann að ‘normi’ eða staðli afskaplega viðeigandi í ljósi kenninga femínista um að slíkur sé einmitt og hafi alltaf verið sá staðall sem önnur kyn, kynþættir og kynhneigðir, og hreinlega samfélagið sjálft, miðast við. Vandamálið er hinsvegar úrvinnslan. Þrátt fyrir ýmsar áhugaverðar vangaveltur nær sagan aldrei alveg flugi og síðari hlutinn rennur eiginlega algerlega út í sandinn í undarlegri blöndu af klisjum (lýsingin á tilhugalífi þeirra Svavars og Unu) og þreytandi endurtekningum (samtölin við gínuna). Eins og áður sagði birtist hér nokkuð útþynnt (og að stofni til misskilin) heimspeki póstmódernismans um hvarf veruleikans í sýndarsamfélagi fjölmiðlunar, sem í sjálfu sér fellur ágætlega að þessum pælingum um fortíðarþrá, en missir hinsvegar marks því hún er útskýrð of vandlega fyrir lesandanum! Besta dæmið um slíka ofskýringu er lýsingin á því hvernig Svavar Pétur uppgötvar að eftirmynd hans er orðin ‘betri’ en hann sjálfur og fer að herma eftir henni. Hér vantaði bara að stinga niður fána með nafni franska fræðimannsins Jean Baudrillard.

Hugmyndin á bakvið Fenrisúlf Bjarna Klemenz er hinsvegar fremur léttvæg, en verkið byggir meira á nokkuð sensational tóntegund neðanjarðarbókmennta og tekst á köflum bara þónokkuð vel upp. Sagan er afarkunnugleg og segir frá tveimur ungmennum, tónlistarmanninum Bergi sem á sér annað sjálf í dulnefni sínu á netinu, Fenrisúlfur, og Védísi, sem á sér ýmsar duldar hliðar, ýmist sem Mata Hari á netinu eða Hel í grímubúningi. Þau spjalla á netinu en eiga síðan stefnumót í raunheimum og þá fer af stað undarleg atburðarás. Inn í málið blandast hnakkinn Bronsmaðurinn og félagar hans og aðalvettvangur sögunnar eru næturklúbburinn Niflheimar. Já hér eru notuð temu úr norrænni goðatrú, allt til að auka á hið dularfulla og myrka sem er höfuðstóll sögunnar, en hér er mikið fjallað um næturlíf. Veruleikinn fer á flökt, þó á annan hátt sé en í sögu Hauks Más; hver er hver og hver eru mörkin á milli sjálfs og hliðarsjálfs?

Allt eru þetta kunnugleg temu neðanjarðarbókmennta og sömuleiðis stíllinn - að mestu leyti, en eitt höfuðvandamál sögunnar er óstöðugur stíll sem flakkar furðulega milli talmáls og upphafins ritmáls. Þrátt fyrir þetta er sagan nokkuð kraftmikil og afar læsileg og nær að fanga einhvern samtímatón. Þó ég gæti ekki annað en hugsað til kvikmyndar Óskars Jónassonar Sódóma Reykjavík (1993) í lýsingum á ofursvölu undirheima- og næturlífi Reykjavíkurborgar tókst Bjarna á köflum að skapa nokkuð sterka stemningu, en tilgerð eins og sú sem er óhjákvæmileg í þessari dulúðugu flétta norrænnar goðafræði og undirheima-næturlífs er að sjálfsögðu bara nauðsynlegur fylgifiskur neðanjarðarbókmennta. Mér varð hugsað til ýmissa uppáhalds verka frá síðustu árum níunda áratugarins eins og Stálnætur Sjóns (1987), Byggingar Jóhamars (1988) og Miðnætursólborgar Jóns Gnarr (1989), en þær fjalla allar um Reykjavíkurborg sem miðstöð ýmissa myrkraverka.

Þessi neðanjarðar-tóntegund fellur afskaplega vel að starfssemi Nýhil í heild, en þar hefur farið fram kröftug útgáfustarfssemi og bara nokkuð vel heppnuð markaðssetning (eða kannski jafnvel atburðastjórnun), sem helst í hendur við einstaklega vel heppnaða hönnun útgáfubóka forlagsins, en þó skömm sé frá að segja er niðurstaða mín hér sú að það besta við þessar tvær bækur sé hvað kápurnar eru flott hannaðar. Og til að milda þetta verð ég að bæta því við að flott hönnun vekur forvitni á innihaldinu.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006