Beint í efni

Svo fögur bein

Svo fögur bein
Höfundur
Alice Sebold
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ung stúlka, rétt kynþroska, er á leiðinni heim. Hún hittir nágranna sinn sem býður henni að skoða jarðhús sem hann hefur byggt. Stúlkan er forvitin og gegn betri vitund fer hún með manninum í jarðhúsið. En að sjálfsögðu reynist hann krókódílamaður, nauðgar stúlkunni og drepur hana, limar sundur líkið og sökkvir því í kviksyndi. Einu ummerkin um þessa atburði eru blóðug mold og olnbogi sem dottið hafði úr líkpokanum.

Þetta er sláandi byrjun á skáldsögu og tryggir að lesandinn skilur ekki við hana ólesna, þrátt fyrir að leiðin að endinum sé á stundum dálítið löng og þæfin. Svo fögur bein eftir Alice Sebold er í grundvallaratriðum fjölskyldusaga, en einnig mætti kalla hana þroskasögu stúlku. Það er stúlkan sjálf, Súsý, sem segir söguna, en hún er í sínu eigin himnaríki þaðan sem hún fylgist með fjölskyldu sinni og morðingja, auk vina og skólafélaga. Eins og oft vill verða við áföll af þessu tagi kemur upp sundrung í fjölskyldunni, foreldrarnir missa tengslin sín á milli og yngri systirin byrgir sorgina inni og þarf að bera byrði þess sem eftir lifir. Móðirin tekur upp tilgangslaust ástarsamband við lögreglumann sem rannsakar morðið meðan faðirinn verður sannfærður um hver morðinginn er, en fær engan til að trúa sér. Inn í söguna blandast svo saga tveggja skólasystkina Súsý, en annað þeirra er strákur af indverskum uppruna sem hún er skotin í, hitt er stúlka sem hafði fundið fyrir nálægð Súsý, þegar sál hennar, enn nokkuð ringluð, flaug til himna. Og að sjálfsögðu þræðir sig svo í gegnum alla söguna einskonar spennusöguþráður sem gengur út á morðingjann og hvort upp um hann muni komast, og er úrvinnslan úr þeim þræði kannski það áhugaverðasta við söguna.

Skáldsagan er á stundum bráðskemmtileg og vissulega er það góð hugmynd að nálgast fjölskylduna og fjöldamorðingjasöguna á þann hátt að segja hana af himnum. Helsta vandamálið er að sá hluti, himnaförin, er ekki nægilega sterkur til að bera söguna uppi og spila á kraftmikinn hátt við hina afskaplega hefðbundnu fjölskyldusögu sem tekur yfir stærstan hluta skáldsögunnar. Fyrir þá sem hafa lesið skáldsögu Kristínar Ómarsdóttur, Elskan mín, ég dey verður þessi himnaríkishluti sérlega dauflegur, en í þeirri skáldsögu birtist ein sú alskemmtilegasta sýn á handanheima sem ég hef lesið.

Í heildina séð finnst mér því hin fögru bein vera dálítið bragðlítil, þó vissulega sé hún ágætis afþreyingarlestur á gráum vetrardögum.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003