Beint í efni

Takk fyrir að láta mig vita

Takk fyrir að láta mig vita
Höfundur
Friðgeir Einarsson
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack
Eitt kvöldið horfi ég á sjónvarpsþátt með konunni minni. Hann fjallar um fólk á okkar aldri sem á í stökustu vandræðum með að mæta þeim áskorunum sem verða á vegi þess í lífinu. Þetta er gott fólk, myndarlegt og á falleg börn. En það hefur breyskleika, holdið er veikt og það er aldrei nægur tími til að láta drauma sína rætast. Það vantar alltaf eitthvað upp á. Heimsmyndin getur hrunið þegar minnst varir. Enduruppbyggingin virðist engan enda ætla að taka. Í lok hvers þáttar muna persónurnar þó að hamingjan er hér og nú – öllu heldur þar og þá, þar sem handritshöfundarnir hafa komið henni fyrir og leikararnir blása í hana lífi með uppdiktaðri hreinskilni.

Þá heyrum við skyndilega gelt – ekki frá skjánum, það er hérna í íbúðinni. Við ýtum á pásu og göngum á hljóðið.

Inni í herbergi barnsins er bók með dýramyndum og tökkum sem er hægt að ýta á til að heyra hljóðin úr þeim. Það er einhver kerfisvilla í þessu apparati eða ef til vill liggja hinar bækurnar í hillunni þannig upp að dýrabókinni að í kjölfar smávægilegrar breytingar á möndulhalla jarðar þrýstast þær að hundahnappinum og dýrabókin geltir. Eins og draugahundur. Ég hugsa um þetta, tek síðan bókina úr hillunni og loka hana inni í fataskáp. Við höldum áfram að horfa á þáttinn þar sem frá var horfið.

Næstu vikur heyrum við af og til hálfkæft gelt og hugsum um hræringar undir jarðskorpunni. Þegar við köllum á milli herbergja eitthvað um staka sokka, leggur draugahundurinn skyndilega orð í belg.

(Takk fyrir að láta mig vita, bls. 21-22)

Smásagnasafnið Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson hefur að geyma þrettán smásögur. Það er vandasamt verk að fjalla um smásagnasafn á heildstæðan máta, sérstaklega þegar umrætt safn inniheldur mjög fjölbreyttar sögur, bæði hvað varðar sjónarhorn og efnisval. Þrátt fyrir að sögurnar séu margbreytilegar á yfirborðinu má engu að síður finna ákveðna stemningu sem sameinar sögurnar og umlykur verkið í heild sinni. Stemningin er ljúfsár þar sem Friðgeir dregur fram litlu atriðin í hversdagslífinu sem eru ósköp ómerkileg á yfirborðinu en reynast merkingarþrungin þegar kastljósinu er beint að þeim. Eftir lestur verksins er það angurværðin í sögunum sem stendur upp úr, smávægilega hryggðin sem sáldrað er yfir lífið í örlitlum skömmtum. Hryggðin sem við eigum að harka af okkur og ekki láta á okkur fá.

„Mjólkin sem ég kaupi“ er með þeim sögum þar sem þessi tilfinning er einna mest áberandi en þar má sjá litlu angistirnar birtast í hugleiðingum sögumanns um „smondays“. Fyrirbærið er samruni sunnudaga og mánudaga þar sem ekkert verður úr frídeginum vegna þess að kvíðinn fyrir nýrri vinnuviku étur upp fríið. Sögumaðurinn finnur upp á íslensku þýðingunni „smánudagar“ sem bæta við lítilleika og smán við merkingu orðsins. Það að geta ekki notið sunnudags fyrir sjálfum sér og eigin hversdagslega kvíða ætti að vera léttvægt vandamál en er að öllum líkindum eitthvað sem hefur hrjáð flesta. Í sömu sögu má sjá fulltrúa sjónarhornsins sem býr innra með flestum, að maður verði að harka af sér léttvægu angistina sem verður á vegi manns dags daglega:

Ég segi geðlækninum mínum að mér finnist tíminn líða án þess að skilja neitt sérstakt eftir sig, ég líð bara áfram á tímaásnum í átt að dauðanum eins og lest á rosalega hægri ferð í gegnum þokkalega snyrtilegt úthverfi. Ég sting upp á að skrifa meira niður, það gæti verið „þerapjútískt“ og hjálpað mér að skilja hvað er að gerast, skilja lífið eða allavega gera eitthvað úr því. Læknirinn segir mér að það sé ofmetið að skrifa, það borgi sig ekki að velta sér upp úr hlutunum og ofgreina þá. Hann stingur upp á því að ég fari að stunda gönguferðir á morgnana eða fari með skóflu upp í sveit eða á einhvern annan stað þar sem hægt er að grafa holu. Það sé svo heilsueflandi að vinna.

(Takk fyrir að láta mig vita, bls. 24-25)

Læknirinn er ekki hrifinn af því að ofgreina vandamál en það er okkur mönnunum eðlislægt. Við gefum öllu merkingu: við gerum gæludýrum okkar upp tilfinningar, við gefum dauðum hlutum tilfinningalegt vægi og við túlkum ýmsar merkingar út frá tóni fólks og því sem það segir ekki. Allt þetta gerum við sama hvort merkingin sé í raun og veru til staðar eða ekki. Það er oft þessi tilbúna merking í hlutunum sem leiða að hryggðinni í dagsins amstri. Þetta sést meðal annars í því hvernig börnin sem koma fyrir í sögunum eru oft ónæm fyrir því hvernig fullorðna fólkið skynjar heiminn.  

Í sögunum „Neðansjávar“ og „Einhyrningur“ sjá börnin ekki hvaða merkingu fullorðna fólkið er búið að leggja í hversdagslega hluti – eins og leikfang eða fisk í fiskabúri – og börnin virka kaldlynd og ónærgætin frá sjónarhorni hinna fullorðnu. Skilningsleysi barnanna varpar ljósi á að það eru einstaklingar sem varpa sínum eigin tilfinningum á smáatriðin; eðlislægir eiginleikar hlutanna ráða ekki för. Friðgeir er laginn við að grípa þessi smáatriði og afhjúpa hvaða merkingu persónur sagnanna hafa lagt í þær og upplýsir lesandann þannig um tilfinningar persónunnar. Þetta er mjög vönduð nálgun og gefur lesandnum rými til að setja sig í spor persónunnar.

Þrátt fyrir að ég hafi byrjað á að taka fyrir angurværðina sem sameinar sögurnar er stemningin í verkinu langt frá því að vera þrúgandi, enda angurværðin aðeins einn af mörgum þáttum verksins. „Rökstuðningur við ástandsmat“ er til að mynda skondin saga sögð frá sjónarhorni sögumanns sem vinnur sem brunafulltrúi. Tónn sögumanns er skemmtilega þurr og öll skynjun hans er hlægilega ferköntuð þar sem hann getur ekki sett sig í aðstæður meðalmannsins sem sér ekki heiminn út frá brunareglugerðum. Fleiri skoplegar aðstæður má finna í öðrum sögum Friðgeirs eins og postulínssölubás gamallar konu á Arnold Schwarzenegger-safni, sérkennileg „svett“-samkoma með sjamani á íslenskum bóndabæ og innsýn í snobbað fyrirtækjaumhverfi þar sem söngvari (sem minnir óneitanlega mikið á Geir Ólafs) leysir af „hádegishugleiðsluna“. Innan um angurværðina má því finna aðra þræði og léttari stef.

Að mínu mati er Takk fyrir að láta mig vita afar jarðbundin nálgun á aðstæður og uppákomur sem geta valdið okkur hugarangri. Friðgeir heldur aftur af sér í umfjöllun um dramatísk málefni og vinnur þess í stað með smáatriðin til að hreyfa við lesendum. Þetta kemur greinilega fram í sögunni „Einhyrningur“ þar sem sagt er frá tveimur feðgum. Faðirinn fær þær fréttir að hann eigi aðeins fjóra mánuði eftir ólifaða. Það eru ótal leiðir til að lýsa því hvernig dauði föður hefur áhrif á son en takmörkuð lengd smásögunnar setur því ákveðnar skorður. Nálgun Friðgeirs er lipur og hnitmiðuð þar sem hann dregur saman fjölþætta tilfinningar í leikfangi og miðlar þannig upplifuninni í gegnum smáatriði. Á heildina litið er Takk fyrir að láta mig vita vel skrifað smásagnasafn með fjölbreyttum sögum sem eiga það samt sem áður flestar sameiginlegt að vinna vel með léttvægu hryggðina sem við tökumst á við dags daglega í bland við lágstemmda kímni.

Már Másson Maack, desember 2016