Beint í efni

það sem ég hefði átt að segja næst - þráhyggjusögur

það sem ég hefði átt að segja næst - þráhyggjusögur
Höfundur
Ingunn Snædal
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hún lætur ekki mikið yfir sér, ljóðabók Ingunnar Snædal, þó hún beri þennan ógnarlagna titil: það sem ég hefði átt að segja næst – þráhyggjusögur. Við fyrsta lestur fannst mér bókin helst til daufleg og ekki eins brakandi fersk og ég hef átt að venjast frá þessari skáldkonu. En svona er ljóðið, lúmskt og útundir sig, við annan lestur greip bókin mig föstum tökum og ég dróst inn í þennan heim þráhyggju og landsbyggðalífs.

Ljóðunum má nefnilega í megindráttum skipta upp í þessa tvo flokka, þráhyggju (ástar og sjálfsmyndar) og landsbyggðalíf. Þráhyggjuhlutinn snýr að ástarsorginni sem kortlögð var svo dásamlega í komin til að vera, nóttin (2009), og er að einhverju leyti einskonar framhald af þeim pælingum, en nú með nokkuð öðrum hætti. Hér erum við komin á annan stað sem tilheyrir frekar söknuði og úrvinnslu (þó þráhyggjan sé vissulega til staðar), en gæti líka verið hreinn uppspuni eins og kemur fram í ljóðinu „ást mín til þín“ snemma í bókinni. Þar er því lýst hvernig ástin er garnahreinsandi, heilsuspillandi, niðurrífandi og þar fram eftir götunum, en svo renna á lesanda tvær grímur því í ljós kemur að:

ást mín til þín
er samt næstum örugglega ímyndun
spennufíkils með of lítið við að vera
ást mín til þín
er ekki til og
þetta ljóð því uppspuni einn

Hvað á lesandi að halda hér? Eru öll ástar-þráhyggjuljóðin bara bull, skáldskapur einn? Og hvað annað ættu þau svosem að vera? Hér er leikið á afskaplega skemmtilegan hátt með skáldskapinn og þó aðallega ljóðið og þá löngu og ströngu rómantísku ástar/ástarsorgar/drama-hefð sem fylgir því. Svo hrannast ástarsorgar-og-saknaðar-ljóðin upp:

mynd af stofu
hér
hugsa ég um þig

er dæmi um hljóðlátt augnablik, en svo koma líka hefðbundnari hádramatísk móment eins og í „(og bein)“, en þar sér ljóðmælandi fyrir sér hvernig bein hennar verða grafin upp, „afmynduð af / sársaukanum ssem ég hef / valdið mér / út af þér“ og tónlaus rödd hennar „talar gegnum aldirnar“ og allt endar þetta með því að „haustgolan man ekki neitt um mig“ því „hún hefur fundið sér aðra elskendur / fyrir löngu“. Nútímatækni leikur líka sitt hlutverk en síminn og smáskilaboðin koma víða við sögu, eins og í „las ekki smáa letrið“, en þar klikka leiðbeiningarnar illa, því ekkert gaf til kynna að síminn sendi „glötuð, væmin og ojbara / örvæntingarfull skilaboð / á fáránlegum tímum?“

Húmorinn er aldrei langt undan en eitt af því sem gerir ljóð Ingunnar svo heillandi er jafnvægið sem hún heldur á milli sjálfsháðs, sársauka og hreinnar fegurðar.

Það sem er nýstárlegt í þráhyggjusögunum er að nú beinist kastljósið í meira mæli að landsbyggðinni og þar er sko ekki að finna neina hefðbundna sveitarómantík. Frá óskiljanlegum orðaforða Jökuldalsbúa ferðumst við eftir þjóðveginum og komum að sveitabæ: „sveitin er ekki vörumerki / sauðirnir ykkar / þaðan af síður er garður foreldra minna / útiklósett fyrir ferðalanga / úr borginni“, „eða viljið þið frekar að / ég komi og kúki í garðinn ykkar / í smáíbúðahverfinu“. Þetta fannst mér fyndið og lýsandi fyrir landsbyggðarómantíkina. Enn frekari ádeila á hana birtist svo í næstsíðasta ljóðinu, „útálandi“:

landsbyggðin er víst sexí
pant ég fá
lélegt netsamband
soðin bjúgu
tímaritið múlaþing
götótt föðurland
gæsaskít á árbakka
malarvegi
vera áskrifandi að framkvæmdafréttum vegagerðarinnar
horfa á úrill fjöll útum eldhúsgluggann
hlusta á skruðninga í útvarpinu
ætli hann rífi ekki af sér í dag

Þetta er kostuleg upptalning sem sveiflast á milli klisja um landsbyggðina og einhverskonar þurrlegs veruleika og endar svo í tilfinningu fyrir sambandi við náttúruna, fjöllin eru úrill (væntanlega í takt við ljóðmælanda) og veðrið er hinn stöðugi mælikvarði tilverunnar.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2011