Beint í efni

Þokan

Þokan
Höfundur
Þorgrímur Þráinsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Ég efast um að ég hafi lesið meiri texta eftir nokkurn mann annan en Þorgrím Þráinsson í barnæsku minni. Ekki bara var ég sammála flestum jafnöldrum mínum um það að Tár, bros og takkaskór væri líklega besta bók í heimi, Þorgrímur ritstýrði nefnilega líka og skrifaði mestallt efni í Íþróttablaðið, uppáhaldsblað okkar bræðranna sem foreldrar okkar voru svo góðir að leyfa okkur að vera áskrifendur að. Þau blöð lúslas maður samviskusamlega frá upphafi til enda, síendurtekið þangað til að þau voru við það að detta í sundur. Maður kunni því næstum því vel við Þorgrím Þráinsson, ekki meira en það þó. Allir hans kostir náðu nefnilega ekki alveg að vega upp á móti hans stóru synd í augum ungra Vesturbæinga. Hann var jú auðvitað bölvaður Valsari.

Síðan eru liðin einhver tuttugu ár og Þorgrímur hefur haldið áfram að skrifa vinsælar skáldsögur, sér í lagi fyrir unglinga. Sjálfur heltist ég úr hans lest strax eftir Tár, bros og takkaskó. Við tóku kynslóðir barna og unglinga sem á eftir mér hafa komið og ef marka má vinsældir og viðurkenningar verka Þorgríms gegnum tíðina, þá má draga þá ályktun að enn höfði Þorgrímur sterkt til lesendahóps síns.

Þokan, nýjasta unglingasaga Þorgríms, boðar endurnýjun kynna minna við rithöfundinn Þorgrím Þráinsson. Í henni er sagt frá Jóel, menntaskólabusa á Akureyri, sem fer í ævintýraferð ásamt vinum sínum út á Snæfellsnes. Hann og Hildigunnur vinkona hans hafa haft veður af því að þar gætu leynst risar, líkir bláu verunum úr hinni vinsælu kvikmynd Avatar. Þetta tengist ýmsum öðrum dulspekilegum kenningum um það hvað er á sveimi á nesinu og þar koma egypskir konungar, horfinn menningaheimur Atlantis og fleira spennandi við sögu. Við þetta bætast svo myrkraöfl sem mætt eru á staðinn til að kanna þessa dularfullu hluti og nýta þá sér til framdráttar.

Bókin er kynnt sem sjálfstætt framhald síðustu bókar Þorgríms, Núll núll 9, sem kom út í fyrra. Ég mæli engu að síður með því að fólk lesi fyrri bókina fyrst, því ýmislegt í nýju sögunni gerir ráð fyrir því að lesandinn þekki til atburða og persóna þeirrar fyrri.

Það vantar ekki spennu og dramatík í þessa bók Þorgríms. Höfundinn skortir sannarlega ekki metnað í uppbyggingu frásagnar sinnar, hann blandar saman í stefjum úr Avatar-myndinni, ýmsum þekktum kenningum sem stundum eru kenndar við dulspeki eða nýaldarfræði, hálfkveðnum vísum úr fornaldarsögu mannkyns, þáttum úr Íslandssögunni og eiginleikum íslenskrar náttúru.

Það er alltaf dálítið skemmtilegt þegar listamenn leyfa sér slíkt hugmyndaflug, sérstaklega þegar þeir bregða á leik með njótendum verkanna á þann veg að það megi ímynda sér að eitthvað áður óþekkt og hulið úr fortíðinni varpi ljósi á allt það sem á eftir kemur. Þekktasta dæmið um slíkt í bókmenntum síðustu ára er vafalaust Da Vinci lykillinn eftir Dan Brown þar sem leikurinn snýst um arfleið Krists. Annað dæmi, þó ekki jafn æðiskennt, er nýleg skáldsaga Helga Ingólfssonar, Þegar kóngur kom.

Þeir sem leggja upp í slíkan leik verða að bjóða upp á heildstætt og gott „plott“. Það má auðvitað vera víðs fjarri öllum raunveruleika en það verður þó að vera samfella í því og sannfæringarkraftur. Menn verða yfirleitt að vera tilbúnir í talsvert grúsk og nördaskap til þess að skila slíkri lokaniðurstöðu. Svona tilbúningur verður nefnilega að vera alveg skotheldur á alla kanta.

Því miður finnst mér vanta upp á það í Þokunni. Þorgrímur fellur, að nokkru leyti, í þá gryfju að ætla sér að koma mörgum tengingum að án þess að leggja fram nógu sannfærandi og samfellda röksemdafærslu fyrir sínum hugmyndaheimi. Hann byggir upp mikla flækju í sögunni, undirbyggir hana þó ekki nógu vel og gengur fyrir vikið illa að leysa úr öllum hnútunum sem hann er búinn að hnýta. Dæmi um það eru sjálfir risavöxnu Avatar-mennirnir á Snæfellsnesi. Maður var farinn að hlakka verulega til að sjá hvernig höfundi tækist að spinna þá saman við sögulegan fróðleik og náttúrufyrirbæri frá staðnum en þegar til kemur er sjálf innkoma risanna fremur takmörkuð og virkar hálfþvinguð innan frásagnarinnar.

Þorgrími tekst hins vegar ágætlega að byggja upp dramatíska frásögn, sérstaklega þegar að fjör færist í leikinn, en á þó til að lýsa viðburðum og sálarástandi persóna full ítarlega og eins dragast mörg samtöl í bókinni of mikið á langinn. Samtalið í bílnum á leiðinni á Snæfellsnes hefði til dæmis mátt skera niður.

Þrátt fyrir þessa ágalla efast ég ekki um mörg ungmenni muni skemmta sér vel við lestur þessarar bókar. Það breytir því þó ekki að maður er skilinn eftir með þá tilfinningu að Þorgrímur geti mun betur en hann sýnir í þessari bók.

Sigurður Ólafsson, desember 2010.