Beint í efni

Þrettánda sagan

Þrettánda sagan
Höfundur
Diane Setterfield
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Þrettánda sagan er fyrsta skáldsaga höfundarins, Diane Setterfield, sem er menntuð í frönskum bókmenntum og hefur starfað sem háskólakennari, bæði í Bretlandi og í Frakklandi þar sem hún bjó um tíma. Sagan er alveg ný, gefin út á ensku fyrr á þessu ári og birtist hér íslenskum lesendum í ágætri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur.

Sagan hefst á því að Margaret, sem vinnur í fornbókaverslun föður síns en hefur auk þess skrifað ævisögur, eða réttara sagt ritgerðir um ævi óþekktra karla og kvenna, fær bréf frá Vidu Winter, einum vinsælasta rithöfundi Bretlands. Vida vill fá Margaret til sín til að skrifa ævisögu sína, en líf hennar er sveipað hulu leyndardóma og hún hefur í gegnum tíðina sagt fjölmiðlum ótal sögur um ævi sína. Ævi Vidu reynist síðan ekki síðri en sögurnar sem hún hefur sagt, en hún segir Margaret sögu fjölskyldu sinnar, byrjar á sögu afa síns og ömmu og endar á sinni eigin sögu og því hvernig hún verður sú sem hún er, rithöfundurinn Vida Winter. Sögurnar heyrum við svo með orðum Margaretar sem segir frá í fyrstu persónu.

Þrettánda sagan er SAGA, í henni er að finna allt sem dramatískar skáldsögur 19. aldar hafa uppá að bjóða, ættaróðal, fjölskylduleyndarmál, forboðnar ástir, bruna og draugagang svo fátt eitt sé nefnt. Söguhetjurnar, Margaret og Vida hafa báðar dálæti á 19. aldar skáldsögum, sérstaklega sögum Brontë systra, Jane Eyre og Wuthering Heights og margt vísar leynt og ljóst til þessara sagna.

Frásögnin er skemmtilega gamaldags, strax á fyrstu síðu er tónninn sleginn, Margaret fær bréf en hvorki símtal né tölvupóst og ef hún settist ekki einstaka sinnum uppí bíl gæti sagan eins gerst á 19. öld. Það eru engar sagnfræðilegar tilvísanir í bókinni, t.d. ekkert minnst á fyrri eða síðari heimsstyrjöldina og ég held að það sé aldrei hringt í sögupersónurnar né þær í aðra, (reyndar þurfa þær einu sinni að hringja en þá hafði símalínurnar fennt í kaf), ef þær þurfa að fá upplýsingar þá skrifa þær bréf.

Sagan minnti mig óneitanlega á Skugga vindsins eftir Carlos Ruiz Zafón sem kom út á íslensku í fyrra. Kannski var það fyrst og fremst það að Margaret, eins og aðalpersónan í þeirri bók, elst upp í fornbókaverslun hjá föður sínum, en auk þess fjalla þær báðar um samskipti systkina, forboðnar ástir og dularfulla rithöfunda. Dramatískar fjölskyldusögur þar sem hver viðburðurinn rekur annan er tegund skáldverka sem ekki hafa verið mjög áberandi í bókaflóðum undanfarinna ára og því er gaman að bera þessar tvær saman.

Ég verð þó að kvarta yfir einu og það er setning sem gengur í gegnum alla bókina, um að allir eigi sér sögu. Margaret segist ekki eiga neina sögu en Vida segir henni að auðvitað eigi hún sér sögu, „allir eiga sér sögu“. Þetta er klisja sem glymur í eyrum okkar nú sem aldrei fyrr, síðan ég las bókina er ég búin að lesa þetta annars staðar, heyra þetta sagt í kvikmynd og nú er þetta notað til að auglýsa bókatíðindin 2006 sem, eins og Margaret og Vida, eiga sér sögu!

Samkvæmt því sem segir á bókarkápu bitust útgefendur um allan heim um útgáfuréttinn að bókinni og ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf verið full fordóma gagnvart bókum sem auglýstar eru á þennan hátt. Í huganum rifja ég upp allar metsölubækurnar sem ég hef lesið og allar „vonabí“ metsölubækurnar sem ég hef séð og heyrt auglýstar, og líka lesið, og bý mig undir vonbrigðin, alveg frá fyrstu síðu. Vonbrigðin létu hins vegar bíða eftir sér. Sagan hélt mér fanginni frá upphafi til enda og nú langar mig í meira. Kannski er best að byrja á því að rifja upp kynnin af Brontë systrum með því að lesa nýja þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur á Wuthering Heights.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2006