Beint í efni

Þriðja táknið og Krosstré

Þriðja táknið og Krosstré
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Þriðja táknið og Krosstré
Höfundur
Jón Hallur Stefánsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það hefur mikið verið gert úr glæpasagnafári þessa jólavertíðina og fregnir af flóði glæpaskrifa hafa verið settar fram í nokkrum æsingalegum stíl, jafnvel með undirtóni áhyggja og ótta við að nú muni fara fram illyrmisleg yfirtaka afþreyingarinnar á fagurbókmenntunum. Í grein í Morgunblaðinu nú í haust gerði Jóhann Hjálmarsson skáld glæpasagnaflóðið að umræðuefni sínu og vildi meina að hingað til hefðu gagnrýnendur verið allt of linir við glæpasagnahöfunda og að nú væri kominn tími til að henda silkihönskunum.

Þar sem ég er einn af gagnrýnendum glæpasagna gat ég ekki annað en tekið þetta til mín, en eftir nokkra sjálfsskoðun verð ég að fullyrða að ummæli Jóhanns koma nokkrum árum of seint. Vissulega gætti nokkurrar varúðar og umhyggju gagnvart glæpasögunni fyrstu árin, en undanfarin ár hefur ekki verið nein þörf á því að sýna glæpasögum neina linkind, gæðin hafa einfaldlega verið mikil, svona almennt séð, og ef eitthvað hefur ekki þótt frábært hefur það komið fram í gagnrýni ólíkra rýna. Vissulega eru gagnrýnendur ekki alltaf sammála um gæði glæpasagna frekar en annarra skáldverka, glæpasagan er ekkert einfalt mál að því leyti; þó hér sé á ferðinni formúlukennt afþreyingarform þá þýðir það ekki að mælistikan sé bara ein og að það sé hægt að bara segja af eða á yfir línuna.

Þær glæpasögur sem hér eru til umfjöllunar, Krosstré (Bjartur, 2005) eftir Jón Hall Stefánsson og Þriðja táknið (Veröld, 2005) eftir Yrsu Sigurðardóttur hafa til dæmis hlotið afar lofsamlega dóma gagnrýnenda, en þó get ég ekki sagt að ég hafi hrifist sérstaklega af þeim. Báðar eru sögurnar fyrstu glæpaskáldsögur sinna höfunda, áður hafði Jón Hallur Stefánsson unnið samkeppni um glæpasmásögur en Yrsa Sigurðardóttir hefur gefið út nokkrar hressilegar barnabækur.

Krosstré Jóns Halls er nokkuð flókin saga að því leyti að hana skipa allmargar persónur sem lesandinn kynnist í stuttum, snörpum senum og því minnir skáldsagan dálítið á mósaíkmynd. Arkitekt finnst nær dauða en lífi nærri sumarbústað sínum og rannsókn er sett í gang. Í ljós kemur að hann hefur átt í ástarsambandi við unga stúlku sem ekki næst samband við. Ástæðan fyrir því er sú að sonur arkitektsins finnur stúlkuna látna í hjónarúminu í sumarbústaðnum og fær vin sinn til að hjálpa sér við að fela hana, en hann vill ekki kasta rýrð á orðspor föðurins. Annar arkitekt kemur við sögu, fyrrum félagi fórnarlambsins, auk fyrrverandi kærasta ástkonunnar og svo hittum við tvo lögreglumenn sem rannsaka málið. Síðast en ekki síst ber að nefna hávaxna japanska leynimorðingjann sem greinilega á erindi á Íslandi.

Það er margt vel heppnað í þessu púsluspili og sjálf glæpafléttan er ágætlega unnin, lausnin, eða allavega hluti hennar, kom á óvart. Helsta vandamálið liggur í hinum fjölmörgu persónum bókarinnar sem koma misvel út, sérstaklega eru kvenpersónurnar flatar og persónuleikalausar. Annað sem sló mig eftir lestur bókarinnar var að þar er ekki að finna eina einustu persónu sem hægt er að finna samkennd með, fórnarlamb, aðstandendur og fulltrúar lögreglu eru öll teiknuð nokkuð dökkum dráttum og bjóða ekki uppá mikla samúð. Þetta gerir það að verkum að áhuginn á glæpnum og lausn hans minnkar til muna. Það sem kannski er áhugaverðasta stúdían hjá Jóni Halli er spurningin um röng viðbrögð, sem einnig einkennir verðlaunasmásögu hans, en sú pæling birtist hér í feluleik sonarins með líkið og var sá kafli hvað áhrifamestur.

Yrsa Sigurðardóttir fer þveröfuga leið í sinni sögu, en hún heldur sig við fáar persónur og meðan sögu Jóns Halls mætti kalla sálfræðilega, sýnir Yrsa hreina reyfaratakta. Ungur þýskur nemi finnst látinn í Árnagarði, augun hafa verið fjarlægð úr líkinu. Fjölskyldan fær lögfræðing í málið, en hún álítur að lögreglan sé á rangri leið í rannsókn sinni. Með lögfræðingnum er svo fulltrúi fjölskyldunnar, þýskur fyrrum lögreglumaður. Lögfræðingurinn er fráskilin tveggja barna móðir svo hér er strax komin dulítil ástarsaga inn í plottið, alveg í reyfarastílnum. Í ljós kemur að þýski neminn var allsérstakur í háttum, hann hefur stundað líkamsbreytingar á sjálfum sér með tilheyrandi götunum og ristum í húð sína og að auki er hann sagnfræðinemi með sérstakan áhuga á galdrafárinu og pyntingum. Þetta galdramál blandast svo mjög inní rannsókn málsins og því er bókin full af sögulegum upplýsingum um ýmis málefni tengd galdri, og þar liggur helsti veikleiki verksins. Annarsvegar eru þær upplýsingar sem komið er á framfæri ekki sérlega nýstárlegar og hinsvegar vantar nokkuð uppá fimi við að flétta þeim inn í söguna á sannfærandi hátt. Þetta dregur mjög úr krafti verksins og dulúð.

Aðalpersónan, lögfræðingurinn Þóra, er nokkuð skemmtileg og minnir á margar af kvenhetjum barnabóka höfundar. Hún er þó full viðvaningsleg í viðbrögðum sínum á köflum sem virkar ekki alveg nægilega sannfærandi - þó það geti verið skemmtilegt. Samspil hennar við hinn stífa og pjattaða þjóðverja er þó afar vel heppnað. Vinahópur hins myrta er helst til stereótýpískur, en þegar kemur að kennurum og starfsfólki Árnagarðs dregur Yrsa upp margar skemmtilegar smámyndir. Glæpasögur Jóns Halls og Yrsu eru tvö afar ólík dæmi um nálgunarleiðir á glæpasöguformið og því nokkuð áhugavert að skoða þær saman. Það er ljóst að Krosstré er mun alvarlegra verk en Þriðja táknið, sem er mun reyfarakenndari. Alvarleikinn dregur úr mætti Krosstrés en reyfarastíllinn gefur Þriðja tákninu skemmtilega léttúðugt yfirbragð sem gerir þá sögu öllu skemmtilegri aflestrar. Báðar eru þessar nýju glæpasögur því forvitnilegar um margt, án þess að ná endilega hæstu hæðum glæpasagnahefðarinnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005