Beint í efni

Þriðji ísbjörninn

Þriðji ísbjörninn
Höfundur
Þorgrímur Þráinsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það hefur löngum verið hlutverk bókmennta að fjalla um samtímann eða endurspegla hann á einhvern hátt. Þannig hafa íslenskar bókmenntir undanfarinna ára komið inn á hið svokallaða góðæri (sem reyndar aðeins fáir upplifðu að einhverju ráði), efling íslensku glæpasögunnar hefur verið tengdur auknum glæpum og umfjöllun um umhverfisvernd hefur sömuleiðis verið áberandi.

En stundum er veruleikinn brjálaðari en nokkur skáldskapur og þá eru höfundar í vanda staddir. Hvaða skáldsaga - önnur en fantasía - hefði til dæmis þorað að fjalla um tvo ísbirni sem gengu á (ís)land með fárra daga millibili að vorlagi? Á sama tíma og jarðskjálftar hristu heilan landshluta dögum saman og hollývúdd-stjarna gekk á sokkaleistunum um kaffistofu borgarstafsmanna, spilaði á píanó og ræddi um te. Það er þó ekki hægt að láta veruleikann komast upp með annað eins og því verða rithöfundar að grípa til sinna ráða. Eða það hefur Þorgrímur Þráinsson kannski hugsað með sér þegar hann skrifaði barnasöguna Þriðji ísbjörninn.

Sagan er í sjálfu sér ekkert sérstaklega merkileg og dálítið of sykursæt - en það er eiginlega allt í lagi, því hún ætlar sér greinilega ekki að verða bók bókanna, heldur bara skemmtileg og dálítið léttúðug saga sem krakkar geta skemmt sér yfir að setja í samhengi við ísbjarnarfárið í ár. Hér er sagt frá hinni fullkomnu fjölskyldu, pabbinn og mamman eru enn ástfangin (kannski því pabbinn kann að gera konuna sína hamingjusama?) og eiga fjögur börn, einn ungling og einn unga, og tvö einhverstaðar þar á milli. Mamman er grænmetisæta og náttúruverndarsinni og pabbinn hefur tilhneigingu til að keyra of hratt. Og svo eiga þau auðvitað hjólhýsi. Unglingurinn Karen (sem heitir sama nafni og stelpurnar tvær sem sáu birnina fyrst) er að fara að eiga afmæli og þegar fréttist af öllum ísbjörnunum þá óskar hún sér eins slíks í afmælisgjöf.

Svo heppilega vill til að foreldrarnir eru á leið norður í land (með hjólhýsið) að skipuleggja ættarmót og þar hitta yngri börnin þrjú (Karen er að sjálfsögðu heima, ekki fer hún að flækjast í einhverja hallærislega ferð um landið) ísbjörn - þriðja ísbjörninn. Hér er best að láta staðar numið - sagan er stutt, hæfilega fyrirsjáanleg, enn á þeim forsendum að taka sig ekki of alvarlega, og einmitt þessvegna er hún fyndin og skemmtileg og virkar vel sem dulítil fjölskylduskemmtun.

Að lokum, og jafnvel síðast en allsekki síst, ber að nefna hlut mynda í bókinni, en um þær sér Halla Sólveig Þorgeirsdóttir af sinni vel þekktu snilli. Kápumyndin gefur strax tóninn og myndirnar inní bókinni eiga ríkan þátt í að skapa sögunni þann léttúðuga búning sem gerir hana vel heppnaða. Litlu bjarnarsporin sem marka þáttaskil í köflum eru ekki ofnotuð og teikna vel upp þá hárfínu línu íróníu, krúttleika og ógnar sem bókin dansar á.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008