Beint í efni

Þrjár hendur

Þrjár hendur
Höfundur
Óskar Árni Óskarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hún er afskaplega hógvær, bókin sem Óskar Árni Óskarsson sendir frá sér þetta árið. Að mörgu leyti minnir hún á fyrstu ljóðabækur hans, hér er safnað saman kyrrlátum myndum sem ramba á mörkum ljóðs og smáprósa, án yfirskrifta.

Hönnun bókarinnar ber þetta með sér, en þar birtist fuglager á flugi yfir rjómahvíta kápu. Eitt ljóðið hljómar svo:

Fiðrildi og norðurljós
eru viðburðir
las ég einhvers staðar
man samt ekki hvar
en það er dagsatt

Á sama hátt eru ljóðin viðburðir, þó almennt séð fyndi ég meira fyrir fínlegu flökti fiðrildavængja en eldhafi norðurljósanna. En það hefur líka alltaf verið stíll Óskars, að kynna hið kyrrláta og hversdagslega á þann hátt að í því kviknar óvænt líf.

Dauðinn og einmanaleikinn eru nokkuð ríkjandi, en lesandi fær stundum á tilfinninguna að vera staddur í draugabæ. Í stofu sem enn ilmar af tóbaksreyk er konfektkassi „fullur af minningargreinum“. Ofan á honum er hárbursti svo lesandi áttar sig á því að hin látna sé kona, sem þó dó ekki af reykingum, eins og fram kemur í lokalínunum. Næsta ljóð lýsir því að barnabarn setur „rauðan sendiferðabíl“ í kistu ömmunnar. Í jarðarför eru allir svartklæddir „nema indverska stúlkan“ og í annarri íbúð (eða er það kannski sú sama?) hefur ekki verið „rifið af dagatalinu lengi“. Bakvið hús í næsta ljóði „er afgirtur trjágarður / sem tíminn hefur gleymt“. Meira að segja skáldskapurinn er fulltrúi dauðans, því fyrir ofan skrifborð er ljósmynd af „Highgate kirkjugarðinum í London“ og minnir á „að hvert orð sem ég skrifa / dregur mig hægt og hægt nær endalokunum.“ Ekki hjálpar að í öðru ljóði safna kóngulóarvefir ryki og á eldhúsborðinu liggur lyfseðill „sem aldrei var leystur út“.

Þó er þessi draugabær fullur af fólki, eins og kemur fram í fyrsta ljóðinu, en þar situr harmonikkuleikari við Laugaveginn og „veltir því fyrir sér / af hverju fólkinu liggi svona mikið á / í ekki stærri borg“.

Annað einkennandi þema er fortíðarstemningin, sem reyndar er kunnuglegt stef úr verkum Óskars Árna. Hún birtist til dæmis í ljóðinu um bílstjóra gömlu amerísku drossíunnar sem „hefur fullkomna stjórn á tímanum“, spilar millistríðsáradjass með rúðuna opna og slær sígarettuöskunni út um gluggann. Í öðru ljóði ákveður ljóðmælandi að taka ekki til á háaloftinu, því „það er nauðsynlegt / að hafa óreiðuna á sínum stað“. Hann gramsar þó í gömlum pappírum og „rekst á kvittun / fyrir viðgerð á útvarpstæki“. Skipt hefur verið um lampa, „lampa sem lýsti upp löngu / horfin vetrarkvöld“.

En svo eru líka allskonar smámyndir sem ýmist finnast í borgarlífinu eða í hugskoti skáldsins: Austurlandabúi stígur út úr leigubíl, „með appelsínugulan túrban á höfði / berfættur á ilskóm og heldur á kjölturakka“. Ljóðmælanda finnst engin glóra í þessu, enda snjóar. Skræpóttur spörfugl sest á svalahandrið og blístrar „lag frá / blómahlíðum Hawaii“, en það er greinilegt merki þess að „flugáætlanir / eru smám saman að raskast“. Og „Fjólublár / Mikki mús“ svífur yfir miðbænum á sautjánda júní.

Ljóðið sem kannski lýsir bókinni þó allrabest hljómar svona:

Maður er víst alla ævina
að reyna að finna sjálfan sig
en bestu stundirnar eru hugsanlega þær
þegar maður týnir sjálfum sér
það er nokkuð liðið á maímánuð
og ég sit á bekk úti á Granda
búinn að týna mér í ljóðabók
og langar ekkert
að koma í leitirnar

úlfhildur dagsdóttir, 2010