Beint í efni

Týnd

Týnd
Höfundur
Karen Alvtegen
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hún er eftirlýst, en hennar er ekki saknað. Slík eru örlög Sbyllu Forsenström í spennusögu hinnar sænsku Karin Alvtegen, sem fékk Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, árið 2000, en það var fyrsta árið sem Íslendingar tóku þátt í þessari samkeppni. Týnd var vel að verðlaununum komin, afbragðsgóð spennusaga með sálrænu ívafi, en Alvtegen er mjög gefin fyrir slíkt. Það sem kannski heillar mest er að hér er glæpasöguformúlan tekin skemmtilegum tökum; við hittum hvorki fyrir lögreglumenn né blaðamenn. Týnd lýsir að nokkru undirheimum Stokkhólms, en aðalpersónan er heimilislaus ung kona sem er hundelt fyrir fjögur blóðug morð. Sagan lýsir að mestu leyti ævi þessarar konu sem kemur frá auðugu heimili. Uppeldið er strangt og stéttaskipting meðal Svía er máluð sterkum og dökkum dráttum. Sérstaklega er óhugnanlegt hvernig móðirin kemur fram við dótturina, en hún beitir hana stöðugu andlegu ofbeldi. Þegar stúlkan verður ólétt eftir rangan mann er barnið tekið af henni og hún ruglast á geði, enda ekki að undra eftir meðferð móðurinnar, flýr og gerist útlagi úr samfélaginu.

Upphafssenan gefur strax tóninn: þar hittum við Sibyllu í matsal fíns hótels, en þar hefur hún klætt sig upp sem fín dama – í vel með farna drakt fengna hjá Hjálpræðishernum – og fylgist með hinum „útvalda“, velviljuðum manni sem er tilbúinn að koma konu sem tapað hefur veskinu sínu – og hótelbókuninni – til fjárhagslegrar aðstoðar, ef hún er að sama skapi tilbúin til að hlusta á hann og dáðst að honum. Með sitt góða uppeldi á Sibylla auðvelt með að virðast hástéttarkona og kemst upp með svindlið. En svo kárnar gamanið þegar í ljós kemur að hennar „útvaldi“ er útvalinn af öðrum, óþekktum morðingja. Það líf sem Sibylla hafði þó náð að skapa sér hrynur, því hún hafði sést í námunda við fyrsta fórnarlambið, lögreglan ákveður að hún sé morðinginn og leitar ekki frekar að sökudólgi. Hún er jú utangarðskona, heimilislaus, og síðast en ekki síst, veik á geði. Svo það kemur í hennar hlut að leita morðingjans og það gerir hún með hjálp ungs drengs sem sömuleiðis er fremur utanveltu í sínu samfélagi. Inn í textann stingast svo textabrot sem greinilega koma úr hugarheimi morðingjans sem virðist haldinn miklum trúarhita.

Sagan er bæði spennandi og áhugaverð og ekki laus við húmor heldur, þrátt fyrir að hafa alla burði til að vera hin dæmigerða norræna félagsraunsæissaga með þunglyndum undirtónum. Sérstaklega er persóna Sibyllu flott teiknuð, svo og hennar heimur og líf. Með fáum en sterkum senum tekst Alvtegen að gefa innsýn í heim sem flestum er hulinn – eða, sem flestir vilja helst sem minnst af vita. Og þó glæpaplottið sjálft fari ekki almennilega af stað fyrr en í miðri bók kemur það ekki að sök, svo áhugaverð er saga Sibyllu sjálfrar og svo gaman er að fylgjast með brögðum hennar til að lifa af, og þegar kostur er, hafa það ágætt og njóta þess. Enda kemur í ljós að saga hennar og ævi er í raun annar mikilvægur söguþráður.

Með áherslu sinni á sálrænar flækjur persóna sinna sker Alvtegen sig nokkuð frá hinni „hefðbundnu“ norrænu glæpasögu sem einkennist af heilmiklu félagsraunsæi. Þetta á sér sína ástæðu, en þegar Karin Alvtegen var hér á landi í vor á fundi norrænna glæpasagnafélaga (önnur saga hennar var þá tilnefnd til Glerlykilsins) lýsti hún tildrögum þess að hún hóf skrif. Í kjölfar skelfilegs dauða yngri bróður síns átti Alvtegen við þunglyndi að stríða. Hún lýsir því svo að einn morguninn hafi hún vaknað með sögu í höfðinu og áður en hún vissi hafði hún skrifað fyrsta kaflann af spennusögu. Það voru svo þessi skrif sem hjálpuðu henni til að takast á við lífið á ný.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004