Beint í efni

Um lífsspeki ABBA og Tolteka (eða líf mitt sem Olof Palme)

Um lífsspeki ABBA og Tolteka (eða líf mitt sem Olof Palme)
Höfundur
Adolf Smári
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Um lífsspeki ABBA og Tolteka (eða líf mitt sem Olof Palme) er fyrsta verk höfundarins Adolfs Smára sem er nýlega skriðinn yfir tvítugt. Í fyrstu vakti nafnið Adolf Smári nokkrar grunsemdir í huga mínum því það minnti mig á nafn á sögupersónu í skáldsögu eftir Braga Ólafsson. Langur og dálítið óræður titillinn ýtti enn frekar undir þær grunsemdir og ég hugsaði mér hvort Bragi væri ef til vill farinn að skrifa undir öðru nafni – búinn að skapa sér alter ego svona til að hrista upp í hlutunum.

Væntingar eru furðulegt fyrirbæri. Oft getur verið erfitt að hrista þær af sér eftir að lesturinn er hafinn og maður gerir sér grein fyrir að þær fyrirframgefnu hugmyndir, sem maður hafði um verkið, eru tómt bull. Væntingarnar verða einhvern veginn fyrirferðarmeiri þegar um glænýjan höfund er að ræða og þegar maður veit í raun ekkert um söguna sem bíður lestrar. Bragi sat því á öxlinni langt fram eftir lestri Um lífsspeki ABBA og Tolteka – þrátt fyrir að hann kæmi henni alls ekkert við. Og því mun ég ekki ræða hann meir.

Adolf Smári stígur hér sín fyrstu skref á ritvellinum. Mikið fjör og frásagnargleði einkennir Um lífsspeki ABBA og Tolteka og einhver óbeislaður kraftur leikur um textann. Verkið skiptist í fimm hluta sem allir fylgja söguhetjunni D., sem segir frá sjálfum sér og vinum sínum. Það má ímynda sér að D. standi höfundi nokkuð nærri en Lífsspekin er engu að síður skáldsaga. D. kemur fyrir sem vel lesinn, vel skrifandi og vel máli farinn ungur maður. Hann er greinilega MR-ingur og setti auðvitað upp Shakespeare á sínum tíma með skólafélögum sínum í Herranótt. Hann er nýlega útskrifaður og hefur ekki setið of mörg námskeið í háskóla og virðist laus við sjálfsgagnrýni og -ritskoðun. En að sama skapi er hann dálítið ör, að minnsta kosti mjög skapandi og frjór í hugsun, jafnvel hress. Stundum velti ég því fyrir mér hvort hann hefði fengið sér nokkra tvöfalda espresso áður en hann settist við skriftir, eða jafnvel nokkra Euroshopper orkudrykki áður en hann léti gamminn geysa. Þetta gefur nokkra vísbendingu um þá miklu orku sem stafar frá textanum og er nánast smitandi.

Söguefnið er tilhugalíf söguhetjunnar og vina hans sem hefst í menntaskóla, ástir þeirra og sorgir, draumar og þrár, og hvernig þeir reyna að fóta sig í lífinu eftir menntaskóla, til dæmis með hjálp Eckharts nokkurs Tolle. Sögurnar af tilhugalífsbröltinu eru skemmtilegar og fimlega uppbyggðar, vel stílaðar og oft bráðfyndnar. Það á til dæmis við um söguna af geirfuglsdraumnum sem reynist reyndar vera martröð. Þáverandi kærasta D. segir að sálardýrið hans sé Geirfugl:

Um leið og augnlokin lukust aftur umbreyttist ég í svarthvítan geirfugl á göngu í íslenskri steinfjöru, þegar allt í einu! Tveir danskir líffræðingar birtast skyndilega með kylfur og fara að elta mig! Ég reyni að hlaupa í öruggt skjól á mínum litlu og klunnalegu geirfuglsfitjum en sama hvað ég reyni, þeir nálgast mig með hverju skrefinu, hjartað berst í brjósti mér og ég fyllist ofsahræðslu. Vongóður reyni ég að blaka vængjunum eins hratt og ég get, lyfta mér til flugs og fljúga í faðm stjarnanna en ekkert gerist, fætur mínir yfirgefa aldrei jörðina. (bls. 38)

Frásögnin er þéttofin vísunum í aðra texta, aðallega íslenska og erlenda popplagatexta en einnig í íslenska kanónuhöfunda eins og Þórberg Þórðarson og Sigurð Pálsson, sem reyndar skýtur ítrekað upp kollinum sem einhvers konar skáldfyrirmynd. Það sama má segja um fyrirheitna landið Svíþjóð, fæðingarland ‚diskótragísku‘ hljómsveitarinnar ABBA og Olofs Palme, sem samkvæmt söguhetjunni er einn sá magnaðasti þjóðarleiðtogi sem vestrænn heimur hefur alið. Og þar er komin útskýring á titli verksins; Lífsspeki ABBA (hljómsveitarinnar) og Tolteka (þjóðflokks í Mexíkó) og óskhyggjan um að eiga sér líf eins og Olof Palme. Ef til vill fyrir utan endalokin.

Ástarsögunum er undið saman við vangaveltur um samfélagsmál, til að mynda umfjöllun um gíraffan Maríus og gagnrýni á Vaðlaheiðagöng, sem minntu dálítið á tóninn í Draumalandi Andra Snæs. Stundum verður ‚namedroppið‘ aðeins of mikið og slettur lige i overkanten eins og danskurinn segir. Myndlíkingar sem dragast á langinn gætu pirrað þá sem iðka málfarshreintrúnað, en ég hafði gaman af þeim og fannst þær bera vott um skapandi afstöðu til tungumálsins. Á köflum fannst mér ég stundum vera að lesa leikhússtexta og sá fyrir mér einleik á svörtu sviði þar sem höfundur fór hamförum við túlkun á eigin frásögn. Kæmi ekki á óvart ef Adolf Smári ætti sér einhvers konar leikhúsbakgrunn eða -nám að baki.

Ég hefði gjarnan viljað lesa Lífsspekina þegar ég var sjálf í menntaskóla, eða nýskriðin þaðan, og efast ekki um að lesendur á þeim aldri muni hafa sérstaklega gaman af sögunum af D. og vinum hans. Þá ímynda mér að verkið hafi tengsl við sögur eftir stráka eins og Berg Ebba og Halldór Armand. Hef ekki lesið þá svo ég veit það ekki með vissu, en ég ímynda mér það, og gæti þess vegna fabúlerað eitthvað um ákveðna bókmenntategund eða grein sem hefur orðið til í íslenskri bókmenntasögu á undanförnum árum, þar sem ungir sniðugir strákar skrifa um ástir og samfélagsrýni í íslensku samhengi. Þá er Lífsspekin einum þræði Reykjavíkursaga, kannski klisja að segja að Reykjavík sé einn karakter í sögunni en hún er það nú samt, blessunin. Og þó að það sé gert mjög vel hér þá fer mann að þyrsta í sögur sem gerast í öðrum hverfum Reykjavíkur en í Miðbænum eða Vesturbænum. Er enginn Adolf Smári úr Fossvoginum eða Grafarvogi til dæmis?

Um lífsspeki ABBA og Tolteka (eða líf mitt sem Olof Palme) er afbragðsgóð frumraun og því spennandi að fylgjast með Adolfi Smára, unga höfundinum með Braga Ólafssonarlega nafnið, í framtíðinni. Þá má ég til með að koma því að í lokin að þó að ég sé ekki nema rétt tíu árum eldri en höfundur, vekur verkið með mér trú á „unga“ fólkið, komandi kynslóðir, aldamótabörnin og selfie-kynslóðina. Þetta eru flottir krakkar sem munu erfa heiminn og vonandi snúa honum af braut þröngsýnnar fáfræði, rasisma, kynbundins ofbeldis og umhverfiseyðileggingar. Og það er sérstaklega kærkomin ljóstíra í svartnætti nútímans.

Vera Knútsdóttir, desember 2017