Beint í efni

Ungar sorgir

Ungar sorgir
Höfundur
Danilo Kiš
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ég man ekki hvað það er langt síðan tímaritið Bjartur og frú Emilía hætti að koma út, en það var eftirminnileg útgáfa margra hluta vegna. Ritið var vettvangur fyrir ný íslensk skrif, en þó var kannski merkasta hlutverk þess að kynna Íslendingum hina og þessa höfunda, sem þrátt fyrir að hafa öðlast nafn í hinum stóra heimi bókmenntanna hafa kannski ekki endilega aflað sér nægilegrar frægðar til að fljóta upp að ströndum Íslands. Að einhverju leyti tók Neon-bókaflokkurinn við þessu kynningarhlutverki, en þó er munurinn sá að þar fá öllu þekktari höfundar inni, auk þess sem áherslan er frekar á nýrri verk.

Útgáfa Bjarts á Ungum sorgum hins serbíska Danilo Kiš minnir mig hinsvegar dálítið á það góða starf sem var unnið fyrrnefndu tímariti, að því leyti að hér er á ferðinni höfundur sem hefur hlotið heilmikla viðurkenningu, án þess þó að njóta mikillar frægðar, og svo er bókin nokkuð við aldur að auki, án þess þó að geta beint talist ‘klassísk’ innan bókmenntakanónunnar.

Ungar sorgir er einskonar smásagnasafn sem lýsir brotum úr ævi ungs drengs sem elst upp í litlu þorpi á stríðsárunum. Sögurnar lýsa atburðum úr lífi hans, til dæmis þegar hann óvænt trúlofast skólasystur sinni eftir fálmkennda kossa í heyi, og þegar hann týnir Appelsínu, fallegustu kú þorpsins, og býr til heilan álfakastala í huganum þegar hann leitar hennar. Einnig finnur lesandinn fyrir vaxandi fátækt og skelfingu, og svo auðvitað sorginni, en faðirinn, sem er geðsjúkur, er sendur í fangabúðir ásamt með systkinum og frændfólki. Eiginkonan og börnin sleppa þótt faðirinn sé gyðingur.

Þannig er bygging verksins mjög mikilvæg, í fyrstu gætu sögurnar fullt eins verið fyrir börn (enda er undirtitill ensku þýðingarinnar: fyrir börn og viðkvæma), tónninn er léttur og leikandi þrátt fyrir undirliggjandi trega, en eftir því sem á líður verður slátturinn þyngri og síðustu sögurnar eru dramatískari og að sama skapi myrkari. Frásögnin er sterkt tema, en drengurinn hefur ánægju af því að skrifa og segja sögur, og nær sá þráður ákveðnum hápunkti í bréfunum sem fjalla um samband drengsins og hundsins. Eins og allt annað er þetta fimlega og fumlaust unnið inní verkið, en stíllinn í heild sinni er átakalaus og tilgerðarlaus og nær sérlega vel að fanga hugarheim hins barnslega án þess þó að falla í einhverjar upphafðar klisjur eða væmni. Hér kemur einnig til falleg þýðing, sem skilar vel hinum blúsaða og grátbroslega tónskala sagnanna.

Í eftirmála þýðanda og aftan á bókinni er lögð áhersla á að sögurnar séu minningarbrot höfundar, þrátt fyrir að sögumaður beri annað nafn. Vissulega er ágætt að fá upplýsingar um höfundinn og það að hann hafi upplifað álíka hluti og sagt er frá í bókinni. Þó get ég ekki annað en efast um mikilvægi þess að leggja slíka ofuráherslu á þetta atriði, því það er jú eftir alltsaman skáldskapurinn sem skipir máli hér, það að geta fært slíkar minningar í form sem spilar á svo fjölbreyttan tilfinningaskala og raun ber vitni. Hér eru engin ummerki sensasjónar né ofurhástemmds drama, engin sjálfsvorkunn eða sjálfsupphafning. Ungar sorgir er úthugsað skáldverk, allt frá formi minningarbrotanna og valinu á þeim, til uppbyggingar og stíganda og síendurtekinna tema frásagnar, lyktar og hljóðmyndar sem gera lesturinn að lifandi upplifun.

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2007