Beint í efni

Unglingar / Stofumyrkur

Unglingar / Stofumyrkur
Höfundur
Arngunnur Árnadóttir
Útgefandi
Meðgönguljóð
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Ljóð
Unglingar / Stofumyrkur
Höfundur
Bergrún Anna Hallsteinsdóttir
Útgefandi
Meðgönguljóð
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Á síðasta ári hóf útgáfu sína röð stuttra ljóðabóka undir merkjum Meðgönguljóða. Yfirskriftin vísar ekki í barnsburð (endilega) heldur frekar það að bækurnar eru litlar um sig og þær er auðvelt að grípa með sér. Í raun má segja að þessi hugmynd um að ganga með bók á sér birtist einmitt í nokkrum ljóðum þriðju bókarinnar í seríunni, Unglingum eftir Arngunni Árnadóttur. Í „Strætó II“ er sagt frá stúlku í strætó: „Yfirleitt var hún með stílabók í höndunum, ýmist brúna eða ljósbláa, sem hún las í eða skrifaði.“ Í „Strætó III“ gleymir stúlkan bókinni í sætinu og ljóðmælandi les óvart aðeins úr henni. Bókinni er svo skilað í fjórða og síðasta strætóljóðinu: „Ég hafði handleikið bókina mörgum sinnum og fundið að síðurnar voru þéttskrifaðar og eflaust fullar af leyndarmálum.“ Ljóðaröðin felur í sér fallegar myndir af strætóferðum um borgina og gefur til kynna allskonar dularfulla atburði hversdagsleikans.

Fyrstu tvær bækurnar voru Þungir forsetar eftir Valgerði Þóroddsdóttur og Kára Tulinius, en þau eru jafnframt aðalaðstandendur útgáfunnar, og Herra Hjúkket eftir Ástu Fanney Sigurðardóttur, en hún var annar sigurvegara Ljóðaslamms Borgarbókasafnsins árið 2009 – þar sem Valgerður hefur reyndar einnig komist á verðlaunapall.

Þungir forsetar er samstarfsverkefni í anda framúrstefnuskrifa, en aftast í henni birtist Yfirlýsing sem lýsir ferlinu við skrif bókarinnar. Út úr þessu koma – eðlilega – tilraunakennd ljóð sem eru kannski nokkuð rysjótt en líka skemmtileg og á stundum afar vel heppnuð. Herra Hjúkket er sömuleiðis nokkuð tilraunakennd og einkennist af hröðu flæði einskonar fantasíu, í bland við myndir höfundar. Líkt og með forsetana þá er margt þarna skemmtilegt og annað ekki eins vel heppnað. Allt er þetta við hæfi, einmitt svona á vettvangur fyrir nýsköpun að vera, bækurnar eru stuttar, í fallegu broti og bandi og þarna gefst tækifæri til að fá dálitla innsýn í það hvað er um að ske í orðlistum.

Á þessu ári hafa komið út þrjár nýjar ljóðabækur: Unglingar eftir Arngunni Árnadóttur og Stofumyrkur eftir Bergrúnu Önnu Hallsteinsdóttur, auk ljóðasafnsins Ljóð í leiðinni, sem Meðgönguljóð gáfu út í upphafi Lestrarhátíðar en ekki verður fjallað um hér.

Stofumyrkur er að mörgu leyti hefðbundnasta bókin í flokknum, tónninn er dálítið upphafinn og dramatískur, í anda ungæðislegra ljóða. Eitt ljóðið heitir einmitt „Ungar sálir“ og hefst svo:

Við erum sköpuð af
hvítu ljósi í kvöld,
brosum út í algleymi,
enn og aftur endurfædd
á föstudegi.

Þó myndmálið sé ekki átakanlega frumlegt er samt einhver glampi í bókinni sem brýst annað slagið fram, ýmist í skemmtilegum ljóðlínum og myndum, eins og í ljóðinu „Án titils“ þegar ljóðmælandi finnur „samkennd með sjónum“, eða í nokkuð vel heppnuðum ljóðum eins og „09:38“, en þar er fjallað um tímann:

Í augnablikinu sitjum við milli skýja. Samansafn stunda í
morgunþögninni er okkar til að neyta. (Sápukúluna okkar
rekur). Vetrartré svipt sumarbúningi heilsa okkur í hljóði,
með augun lokuð og fingur upp til himna. Heitir bollar af ein-
hverju drukknir hægt við gluggann, þar sem ekki einusinni
vindurinn blístrar hjá. Hver þekkir tímann á svona morgni?
Hann er konungur einskis hér. Steypt af stóli, kórónan í en-
durvinnslutunnunni. Í þessari morgunkyrrð er hann hvers-
dagslegur. Margþættur. Ósýnilegur. Magnaður. Ekkert.

Ljóðið fangar vel þessa tilfinningu fyrir morgunstemningu þegar tíminn virðist standa kyrr og tilveran er í biðstöðu, veruleikinn ekki alveg hreinu. Dálítið upphafin byrjun fær fætur í hversdagsleika rjúkandi heitra morgundrykkja og endurvinnslutunnunnar.

Bók Arngunnar Árnadóttur, Unglingar, er skyldari bók Ástu Fanneyjar og einkennist af einhverskonar ævintýralegum hversdagsleika. Flest ljóðin eru prósaljóð og fjögur þeirra mynda röð, „Strætó I-IV“, en eins og áður hefur komið fram er þar sagt frá stúlku í strætó og stílabók, í lokaljóðinu kemur skýring á titli bókarinnar. Unglingar er að mínu mati öflugasta ljóðabókin í þessum hópi, tökin eru öruggari og áreynslulausari og minna um upphafið ljóðmál. Sem dæmi um hversdagsævintýri má nefna ljóðið „Kastalinn“, en það hljóðar svo:

Ein okkar bjó í kastala í miðbænum sem hún hafði erft eftir afa
sinn. Þar stóðu húsgögnin óhreyfð, ástvinir á myndum sátu settlegir
á sínum stað og biðu heimkomu afans þó ekki væri von á honum
aftur. Skífusíminn var enn í sambandi, nóturnar á píanóinu opnar á
eftirlætislagi. Vindurinn ýfði upp gráar öldur á kastalasíkinu meðan
gamla viðarútvarpið flutti tregafulla danstónlist. Við drukkum rauðvín
úr glösum sem urðu brothættari með hverju árinu og dönsuðum á
minningunum sem lágu rykfallnar á gólfteppinu.

Enn er ort um tímann, en það áhugaverða gerist er að hann líður áfram. Það sem í fyrstu virðist ætla að vera ljóð um tíma sem staðið hefur í stað breytist í ljóð um tíma sem heldur áfram að líða – jafnframt því að standa í stað; glösin verða brothættari með hverju árinu og áfram er dansað á rykföllnum minningum. Textinn er afar myndrænn og myndlíkingarnar hljóðlátar en jafnframt lifandi.

Næsta ljóð, „Þriðji janúar“, segir svo frá hópi ungmenna (sama hópi og drekkur úr brothættum glösum og dansar á rykföllnum minningum?) sem einnig eru á ferð um miðbæinn, þau fara í halarófu gegnum kirkjugarðinn og rúlla niður brekku og enda í bakgarði húss þar sem þau viðhafa hávaða og reykja. Að lokum hlaupa þau yfir Tjarnarsvellið og detta. Einkenni þessa ljóðs er kuldinn sem smýgur allsstaðar í gegn, þau troða „snjóinn á spariskóm“ og sjá ekki stjörnurnar fyrir götuljósum, en það er allt í lagi því þau vilja „hvort sem er ekkert sjá í þessu ískalda roki.“

Afi, tíminn, kuldi og rok koma aftur við sögu í lokaljóði bókarinnar, „Afi“, en þar rifjar ljóðmælandi upp heimsókn til afa sem þá bjó í húsi á tanga við sjóinn. Börnin sofa á flatsæng í bókaherberginu en húsið er ekki vel þétt og vindurinn blæs í gegnum það og lífgar það við: Veggirnir anda „og harmoníumið inni í stofu byrjaði að spila af sjálfsdáðum“:

Við fórum berfættar fram og settumst á rauðan flauelssófann andspænis
litla orgelinu. Beinar í baki horfðum við á fótstigið fara silalega upp
og niður og nóturnar á lyklaborðinu rísa og hníga við Land míns
föður, landið mitt, en afi svaf sem fastast og hraut hástöfum á meðan
veggirnir andvörpuðu þungan.

Líkt og í ljóðinu um kastalann öðlast myndmálið sjálfstætt líf og hversdagurinn breytist í ævintýri, þegar hljóðin í vindinum mynda ekki aðeins hljómkviðu í gisnu húsinu heldur tekur harmoníumið sig til og spilar með.

Í þessu býr máttur ljóðsins, að lífga við hugmyndir, orð og myndir, fá okkur til að fylgja þeim eftir þar til við byrjum að spila með af sjálfsdáðum.

úlfhildur dagsdóttir, desember 2013