Beint í efni

Vampíra

Vampíra
Höfundar
Sirrý Margrét,
 Smári Pálmarsson
Útgefandi
Höfundur
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Myndasögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Unnar Valsson

Ég hef öruggar heimildir fyrir því að skáldsagan sé dauð. Sem og ljóðið. Hvort dauðsföllin tengjast á einhvern hátt veit ég ekki, það fylgdi ekki fréttinni og nú bíð ég bara eftir því að heyra af andláti hennar sömuleiðis. Við sem viljum lesa sögur af pappír þurfum þó ekki að líða skort vegna þess að atorkusamir höfundar og listamenn halda áfram að skaffa okkur myndasögur. Þar er reyndar ekki um jafn margt að velja ár fyrir ár og af borði skáldsagna til dæmis. Myndasögusenan er lítil miðað við ýmislegt annað en hana skortir ekki líf og fjör – þó myndasagan sem hér er til skoðunar fjalli að nafninu til um hina lifandi dauðu snýst saga hennar að einhverju leyti um það að vakna til lífsins.

Vampíra eftir Sirrý Margréti Lárusdóttur og Smára Pálmarsson segir frá nokkrum klukkustundum í lífi unglingsstúlku í Reykjavík. Sagan hefst í blokkaríbúð þar sem Krissa er í heimsókn hjá afa sínum. Afinn er gamall anarkisti og ansi lifaður þó hann sé reyndar ekki gamall að sjá; hann þykist greina sjálfsmyndarkrísu hjá afadóttur sinni og reynir að stappa í hana stálinu, ævin sé rétt að byrja og hún eigi eftir að finna leið til að þóknast sjálfri sér áður en langt um líður. Inntakið í lífsspeki hans er hins vegar það að þegar öllu sé á botninn hvolft séu allir jafn ómerkilegir, og það er ekki að sjá að Krissu sé neitt sérlega létt við þá uppljóstrun.

Sagan sem þá fer á eftir er í stórum dráttum sú að Krissa tekur strætó heim, horfir á sjónvarpið, snapar far á götufyllirí og hittir þar að lokum réttan dreng á réttum tíma – ef svo má að orði komast. Endalokin eru síðan nokkuð yfirgengileg, án þess þó að vera úr lausu lofti gripin. Það væri græðgi að heimta meira á 35 blaðsíðum og raunar engin ástæða til þess. Hvert samtal gefur ýmislegt fleira í skyn en sagt er upphátt og orðlausar heilsíður eða senur koma heilmiklu til skila. Vampíra segir þannig sögu af sálarástandi en hún leyfir okkur ekki að hlera hugsanir aðalpersónunnar, og sýnir í verki að þess háttar undanlátssemi sé óþörf. Samtölin eru knöpp og málið lifandi, enskusletturnar eru einstaka sinnum klunnalegar en samt ekki ótrúverðugar – maður les margt furðulegra í beinum tilvitnunum lakari fréttamiðla. Það litla sem við heyrum af samræðum persónanna sýnir vanþóknun eða afneitun Krissu á hugmyndum annarra um hennar eigið sjálf, hugsanir og tilfinningar. Þessar hugmyndir virðast flestar snúa að því að Krissa sé hrifin af vampírusögum, kannske vegna þess hvernig hún klæðir sig eða kannske bara vegna þess að hún er unglingsstúlka og þær eiga allar að fíla vampírur. Þetta kallast á við ræðu afans í byrjun sögunnar og lítill hluti hennar er reyndar endurtekin í lok bókarinnar, til þess að tengingin fari örugglega ekki fram hjá lesandanum. Þetta þótti mér aðeins of mikið af hinu góða, ekki síst þar sem síðustu myndirnar segja allt sem segja þarf.

Teikningarnar eru ekki allar fullkomnar en manni finnst varla ástæða til þess að hnýta í einhver smáatriði þegar myndmálið miðlar sögunni svo fullkomlega og skapar svo áþreifanlega stemningu. Bókin kallar fram tilfinningar reiði, leiðinda og máttleysis án þess að grípa til orða, t.a.m. með uppstillingu á biðröð í strætó eða með dauða samræðunnar í drasli hlöðnu herbergi Krissu. Gleðistundirnar eru færri en ekki síður grípandi, eins og sjá má í dæminu af vinafundinum niðri í Fossvogi, hér fyrir neðan. Líkt og orðnotkunin er litamengi bókarinnar dempað: Að fyrstu síðunni undanskilinni sér ekki til sólar og veröldin birtist okkur í gráum og brúnum tónum. Enda er það þeim mun áhrifaríkara þegar varir Krissu blossa skyndilega upp í rauðu undir lok bókarinnar, í kjölfar þess að hún tekur ákvörðun.

Vampíra er ekki fyrsta samvinnuverkefni þeirra Sirrýar og Smára; fyrir tveimur árum gaf Ókeibæ út myndskreyttu barnabókina (?) Askur og prinsessan, sem fann eflaust sína lesendur en hefði alveg mátt fara víðar. Hana mætti kalla feminíska and-prinsessusögu í léttum dúr, með stílhreinum, ýktum manga-fígúrum og rækilegri sundrun á frásagnarformi og staðalímyndum ævintýrisins. Það má finna einhver manga-áhrif í Vampíru en hún er að nánast öllu leyti mun jarðbundnari en Askur og prinsessan og kannske tómt mál að bera þær saman. Greinilegasti þráðurinn sem gengur í gegnum báðar bækurnar er uppbrot á staðalímyndum, sem báðar vinna skemmtilega með. Vampíra er öllu hógværari saga að því leyti að hún ætlar sér ekki að brjóta upp öll viðmið og leggur miklu meiri áherslu á að lýsa lifandi veruleika. Þar sem hún ætlar sér hins vegar að koma á óvart landar hún högginu listilega vel.

Björn Unnar Valsson, desember 2012