Beint í efni

Vetrardrottningin

Vetrardrottningin
Höfundur
Boris Akúnin
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Árni Bergmann hefur nú í áratugi fært Íslendingum frábærar þýðingar sínar á rússneskum skáldskap, allt frá þekktum heimsbókmenntum til minna þekktra og yngri höfunda. Nú síðast hefur hann tekið að sér að bjóða uppá bækur vinsæls glæpasagnahöfundar, Boris Akúnin, en sá mun hafa slegið hraustlega í gegn í heimalandi sínu og sækir nú fast inn á aðra markaði. Þriðja bókin kom út nú nýlega, Vetrardrottningin, en áður hafa Ríkisráðið og Krýningarhátíðin glatt hjörtu glæpasagnaunnenda – og fleiri, en ágæti þessara bóka kemur meðal annar fram í því að þær ættu að höfða jafnt til unnenda sögulegra skáldsagna sem og heimsbókmennta.

Vetrardrottningin ber undirtitilinn Fyrsta mál Fandorin og eins og sá titill ber með sér fjallar sagan um Fandorin ungan og gefur okkur innsýn í hans líf og bakgrunn. Hér er Fandorin reynslulítill ritari og þó yfirmanni hans sé hlýtt til stráksins hefur hann ekki mikla trú á honum. Það á þó eftir að breytast því þegar lögreglunni fara að berast fréttir af allfurðulegu sjálfsmorði og sjálfsmorðstilraun fer Fandorin að hnýsast í málið og áður en af veit er hann búinn að afhjúpa einhverskonar samsæri – en hverskonar? Eru þetta samtök níhílista með byltingu að markmiði, eða bara öfundaræði ungs ástfangins manns? Eða kannski eitthvað allt annað? Svo heldur Fandorin en honum gengur ekki vel að sannfæra yfirmenn sína.

Sagan gerist á áttunda áratug nítjándu aldar og sem fyrr er það ekki síst hinn gífurlegi sögulegi farangur sem eykur mjög á ánægjuna af lestrinum. Þetta er tímabilið fyrir byltingu, tími keisara og aðalsfólks, glæsimennsku og glamúrs, en við lesendur vitum hvað vofir yfir og hver framtíð þessa samfélags verður. Það hefur verið sagt um popptónlist tuttugustu (og tuttugustuogfyrstu) aldar að tungumál hennar sé í senn alþjóðlegt og staðbundið. Sama má segja um glæpasöguna, en form hennar er alþjóðlegt, jafnframt því að hver höfundur ljær henni sinn stíl, sem oftar en ekki tengist þjóðerni hans. Þannig eru sögur Akúnin bæði ákaflega rússneskar, jafnframt því að bera með sér auðkenni annarra þekktra glæpasagna; hér bregður fyrir háskakvendi í stíl harðsoðinna reyfara og hinn ungi Fandorin verður fyrir lífsreynslu sem minnir um margt á fortíð enska ofurnjósnarans James Bond.

Að lokum langar mig aftur að minnast á hlut þýðandans, Árna Bergmanns, en eins og lesendur eiga að venjast frá honum er þýðingin afar vel unnin, kjarnyrt og fimleg, lífleg og algerlega í takt við það sem að ofan er sagt um alþjóðleika og sérstöðu: lesandi nýtur bæði þess að lesa skemmtilega glæpasögu og skáldsögu með rússnesku bragði.

Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2004