Beint í efni

Vetrarvíg / Rakkarapakk / Krassandi samvera

Vetrarvíg / Rakkarapakk / Krassandi samvera
Höfundar
Embla Ýr Bárudóttir,
 Ingólfur Örn Björgvinsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Myndasögur
Vetrarvíg / Rakkarapakk / Krassandi samvera
Höfundar
Jan Pozok,
 Sigrún Edda Björnsdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Myndasögur
Vetrarvíg / Rakkarapakk / Krassandi samvera
Höfundar
Bjarni Hinriksson,
 Dana Jónsson
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Myndasögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það hefur mikið verið talað um að nú sé glæpasöguár mikið í íslenskum bókmenntum og að aldrei hafi jafnmargar glæpasögur verið gefnar út á einu bretti og svo deila menn um hvort þetta sé gleði eða áhyggjuefni. Öllu minna hefur farið fyrir öðru bókmenntaformi/listformi, sem einnig á metár í ár, en nú fyrir jólin komu út heilar fjórar íslenskar myndasögur á vegum þekktra forlaga (og allavega ein utan forlaga). Þetta er stór atburður og í raun mun meiri fregn en glæpa(sögu)málið, því meðan glæpasagan hefur verið nokkuð örugg í sessi undanfarin fjögur ár eða svo, er myndasagan enn afskaplega óstöðugt form, þó vissulega gefi þessi litla sprengja vonir um að henni fari að vaxa fiskur um hrygg og þá helst hvalur. ‘Myndasöguár’ er því ekki síður viðeigandi lýsingarorð fyrir bókaárið.

Þessar fjórar sögur eru Vetrarvíg (Mál og menning, 2005) eftir Emblu Ýr Bárudóttur og Ingólf Örn Björgvinsson, Rakkarapakk: með kveðju frá jólasveinafjölskyldunni (JPV útgáfa, 2005) eftir Jan Pozok og Sigrúnu Eddu, Krassandi samvera (Salka, 2005) eftir Bjarna Hinriksson og Dönu Jónsson og Bjargið okkur eftir Hugleik Dagsson. Um þá síðastnefndu mun ég þó ekki fjalla hér, því höfundur er mér of skyldur, en get þó ekki látið hjá líða að benda á hlut hans í þessum vegsemdarauka myndasögunnar, en óhætt er að ætla að vinsældir myndasagna hans, allt frá fyrstu sjálfsútgáfunni Elskið okkur (2002), hafi haft jákvæð áhrif á aukinn áhuga á forminu. Ári seinna kom Blóðregn, fyrsta Njálu-saga þeirra Emblu Ýrar og Ingólfs Arnar, út hjá Máli og menningu, hlaut góðar viðtökur og stuðlaði sú útgáfa síðan enn frekar að framgöngu myndasögunnar. Reyndar eru þessar tvær sögur skemmtilega ólíkar og standa fyrir gerólíka strauma og stefnur í sögu myndasögunnar, en sögur Hugleiks sverja sig í ætt við neðanjarðarmyndasögur meðan Njálu-sögurnar eru greinilega ætlaðar meginstraumnum, og þannig sýna þessar ólíku myndasögur fjölbreytni og ólíka möguleika formsins.

Vetrarvíg er þriðja Njálu-sagan, en sagnabálkurinn fikrar sig aftur á bak í Njálu: Blóðregn lýsir hefnd Kára, Brennan segir frá brennunni sjálfri og vígi Höskuldar, Vetrarvíg fjallar hinsvegar um þá atburði sem verða til þess að Njáll ættleiðir Höskuld Þráinsson. Þau Embla Ýr og Ingólfur vaxa með hverri bók, hér eru tök þeirra á sögunni orðin öruggari, bæði hvað varðar það að skapa heilsteypta sögu úr þessum bita úr Njálu, og svo er myndræni hlutinn orðinn liðlegri og snarpari. Ef ég ætti að finna eitthvað að myndi ég helst vilja gagnrýna skort á bardögum! sem mér hafa alltaf fundist aðalfúttið við Íslendingasögurnar, en bardagasenurnar fannst mér helst til bragðdaufar. En að öðru leyti rúllar sagan vel og á afargóða spretti í útsjónarsömum lausnum í því að skapa Njálu nýtt líf sem myndasaga.

Jólasveinarnir eignast líka nýtt líf í sögu Jan Pozok og Sigrúnar Eddu, Rakkarapakki, en bókin er sett saman úr stuttum skyssum úr lífi Grýlu, Leppalúða og jólasveinanna, og svo auðvitað kattarskrattans. Stíll Pozok er skemmtilega geggjaður og ýktur og vel við hæfi í þessum furðulega heimi sem jólasveina-þjóðtrúin er, og sögurnar eru margar alveg bráðskondnar. Mesta gamanið hafði ég þó af umræðunni um nýju rauðu ‘tískubúningana’ - sem Leppalúði er látinn sauma eftir uppskrift úr ruslpósti - og svo grét ég úr hlátri yfir dauða ókindarinnar í sjónvarpinu. Samband Grýlu og Leppalúða er líka afarsniðuglega útfært og óhætt að segja að þau séu eftirminnilegustu karakterarnir úr bókinni - hafa reyndar alla tíð skyggt á jólasveinagreyin og þrátt fyrir góða viðleitni þeirra Jan og Sigrúnar Eddu til að lífga uppá kallana, þá eru þeir bara aldrei eins spennó og mamma og pabbi. Annað sniðugt atriði er samfélagið í kring, byggt tröllum og álfum, en þar er einnig góður húmor í gangi.

Góður húmor er svo aðalsmerki Krassandi samveru þeirra Bjarna Hinrikssonar og Dönu Jónsson, en lesendur ættu að kannast við þau úr Mogganum. Í stuttu máli sagt er bókin alveg dásamleg og þau Mímí og Máni njóta sín afar vel í svona stórum skömmtum, mér fannst ég kynnast þeim betur og fékk betri botn í hverja sögu fyrir sig þegar ég las þær allar svona saman. Mímí er skemmtilega hráslagaleg og skörp og ótrúlega þolinmóð við Mána greyið sem er oft dálítið úti að aka: “Hver var óþekki sjómaðurinn” gerði mig næstum hysteríska úr hlátri, en þar eru þau hjúin að ganga framhjá minnisvarða óþekkTa sjómannsins. Í stuttu máli skyldueign á hverju heimili og linnulaus gleðigjafi.

Allt eru þetta ólíkar sögur, bæði að formi og innihaldi. Teikningarnar í Vetrarvígi eru fremur dramatískar, svo og sagan sjálf, án þess þó að vera laus við húmor. Rakkarapakkið og Krassandi samvera eru sögur sem hafa húmor beinlínis að markmiði, gróteska og hressileiki einkennir bæði teiknistíl og inntak Rakkarapakksins, meðan hlýja og launfyndni – sem samt er hægt að hlæja upphátt að! – er einkennismerki þeirra Mímíar og Mána, og endurspeglast í teikningunum sem eru í hrjúfum hreinlínustíl. Rakkarapakkið sver sig í ætt við evrópskar myndasögur sem eru Íslendingum að góðu kunnar, en stíll Bjarna er allólíkur, fíngerðari og með raunsæislegu ljósmyndaívafi, þó einnig sé hann undir evrópskum áhrifum. Þannig gefa þessar þrjár sögur ólíka sýn á myndasöguformið og nýta sér fjölbreytta möguleika þess til tjáningar.

Allir í myndasögubátinn!

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2005