Beint í efni

Við sem erum blind og nafnlaus

Við sem erum blind og nafnlaus
Höfundur
Alda Björk Valdimarsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í myndlistarumræðu er vinsælt að nota orðið ‚ljóðrænt‘ þegar lýsa á listaverkum. Orðasambandið ‚ljóðræn abstraktlist‘ hefur verið notað yfir tegund óhlutbundinnar listar, en einnig má sjá vísað til ævintýralegrar listar sem ljóðrænnar, fínleg efnisnotkun getur verið ljóðræn, svo og beiting lita og ákall eftir (viðkvæmnislegum) hughrifum. Þegar spurt er um hvað listamenn meini með þessu er fátt um svör – í sýningarskrá um Nínu Tryggvadóttur er vitnað í Svavar Guðnason sem talar um fullkomna samvinnu hugar og handar, eitthvað sem sprettur fram umhugsunarlaust.

Vissulega er þetta falleg og rómantísk sýn á hið ljóðræna, enda kallar ljóðið iðulega fram tilfinningu fyrir streymi, átakalausu flæði sem finnur sér sína eigin farvegi. Án þess að ætla að ræða frekar þessa myndlistarlegu sýn á hugtakið þá er ljóst að hún tilheyrir frekar hefðbundnum hugmyndum um ljóðið, hugmyndum sem einmitt koma úr rómantíkinni. Þó ljóðið virðist oft og tíðum órætt og sjálfsprottið í leik sínum með myndir og tilfinningar, þá er ljóst að þar liggur alltaf vinna á bakvið. Ljóðið er handverk sem þarf að sinna og spinna. Þó fyrstu drættirnir geti flætt fram á auðveldan hátt þá þarf að hlú að þeim, tálga til, fínpússa, þétta vefinn – eða losa um þræði.

Í ljósi þessa er myndmál sundsins afar viðeigandi. Sund virkar einmitt eins og átakalaust flæði, saumlaus samþáttun hugar og líkama, en er að sjálfsögðu lært; tamin og öguð hegðun. Sundið er myndmál sem stingur sér reglulega niður í ljóðum Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, í bókinni Við sem erum blind og nafnlaus. Í fyrsta kaflanum, „Farvegir táknanna“ er ljóð sem nefnist „Þögn er dauði“. Þar kemur fram að sundið er leið til að skapa sér sitt eigið rými. Ljóðmælandi tímir ekki að láta tal annarra trufla sig:

Í sundi
svara ég ekki
þegar á mig er yrt
því ég er upptekin
við að sveifla örmunum
í takt við hjartsláttinn

Það þarf því ekki að koma á óvart að þeir tala minna „sem synda mikið“, en jafnframt er bent á að samræður þjóna því hlutverki að sanna tilvist þeirra sem taka þátt í þeim: „Þögn er dauði / farvegur táknanna líf.“

Í öðrum kafla bókarinnar, „Íslensk tregaljóð“, minnist ljóðmælandi móður sinnar. Þar tekur sundið á sig praktískari mynd, þær mæðgurnar fara saman í sund og daginn sem móðirin deyr fara feðginin í sund:

Ég tek sundtökin
því þetta er venjulegur dagur
að öllu öðru leyti.

Þriðji kafli bókarinnar nefnist „Og ástin“ og í samnefndu ljóði er lýst ástarsambandi í svipmyndum sem ferðast aftur á bak:

sé mig
eignast barn
giftast
móðir þín látin

Seinna situr hún í fjörunni:

anda að mér
hafrótinu
fer úr fötunum
sting mér til sunds

og ástin.

Fimmti og síðasti kafli bókarinnar nefnist „Via dolorosa“ og þar rís „Afródíta hin nýja“ upp úr djúpinu, „einu sinni enn.“

Sundið gegnir margvíslegu hlutverki eftir því hvert viðfangsefni ljóðanna er, en er ævinlega tengt tilfinningum, eins og títt er um vatnsmyndmál. Fyrsta dæmið, sem er úr fyrsta ljóði bókarinnar, setur tóninn: þar er sundið samtímis líf og dauði, þögn og tjáning. Í tregaljóðunum er það enn margþættarara, sem sönnun hversdagsleikans, mótvægi sorgar en jafnframt staðfesting hennar: ljóðmælandi bókstaflega syndir í sorg sinni, tjáning sundtakanna tekur þarna á sig enn sterkari mynd. Ástarljóðið birtir líka hefðbundna mynd ástarinnar sem straums tilfinninga sem myndhverfast í vatni, það að stinga sér til sunds jafnast á við að gefast tilfinningunum á vald. Og sorgin á sér líka stað þar. Loks er sundið myndmál konunnar, ástargyðjunnar sem rís „einu sinni enn“ upp úr djúpinu. Þetta er konan sem lætur ekkert buga sig og hefur fullt vald á aðstæðum.

Í því ljóði, „Afródíta hin nýja“, má finna sérlega vel spunninn leik með goðsagnir, en þar hafnar ljóðmælandi því að bera sál sína fyrir allra augum. Eins og í mörgum ljóðanna er áherslan á að finna sér sinn eigin stað og tjáningu, utan alfaraleiða. Samt hefur hún ýmislegt að segja, en vill gera það á sinn hátt. Hún er því ekki Óðinn:

Líkami minn hangir ekki
bundinn um ökklann í trénu
þegar þið farið hjá.

Óðinn hékk öfugur úr Yggdrasli níu nætur í leit að visku. Ljóðmælandi vor hefur aðrar leiðir:

Miðill
kveiktu á véfréttinni

Þegar hún mælir
horfðu þá á sólina hníga til viðar

og sjá

ég mun rísa úr djúpinu
einu sinni enn.

Hún er véfrétt og vatnagyðja sem unir sér best í hafrótinu, þar sem sundtökin eru hennar leið til samskipta og þess að ná tökum á tilverunni.

Ljóðrænan er því afar fjölskrúðug í ljóðum Öldu Bjarkar og ljóðin bera þess merki að vera þaulunninn vefnaður tákna og mynda. Fyrstu ljóðin fjalla einmitt um tjáskipti og leiðir til að fást við þau:

Á meðan hún talar

Úr hverju er tungumálið?

Er það gert úr holóttu konunni
sem stendur alltaf á bak við hurð
eða er það gert úr ótta?

Á meðan hún talar
viðheldur hún blekkingunni
um að hún sé heil.

Munnurinn tælir hjartað.

Orðin laðast að henni
eins og skortur.

Hér eru tjáskipti einskonar grimmd og aftur kemur sundið upp í hugann, að þessu sinni sem leið burt, eða tilraun til að halda sér á floti.

Samskipti eru einnig viðfangsefni tregaljóðanna, en þar er ljóðmælandi í samtali við móður sína, minningar sínar um hana og tilraunir til að spegla sig í henni. En minningarnar eru hálar og fjarlægðin flækir málin: „Þokan milli okkar / verður þéttari eftir því / sem dóttir mín eldist.“ Aðgát skal höfð við upprifjanir því „Hugmyndirnar eru alltaf hættulegastar / áður en þær eru orðaðar / því það er þá sem þær móta þig“ segir í ljóðinu „Minningar“.

Það er svo í ástinni sem samskiptin hætta að vera fjarlæg og einkennast af nánd:

Ljósleiðari

Ef þú sæir
strenginn sem
leiðir okkur saman,
myndir þú skilja
að ég er þar sem þú ferð
því sama ljósið
lýsir vegi þínum og mínum

Hér birtist líka dæmi um það hvernig hversdagurinn á sér stað (sbr. „venjulegur dagur“), en hann kemur hvað helst við sögu í fjórða kafla bókarinnar, „Minnisblöð óþekktu húsfreyjunnar“ sem gæti fullt eins heitið ‚minnisblöð óþekku húsfreyjunnar‘, því hann hefst á því að húsfreyjan er ósátt við eldhúsið sitt og vill umstafla því. Hún nennir heldur ekki að svara í símann og borðar í staðinn grillaðan fífil. Húsmóðurlífið er ekki einfalt og í einu ljóðanna má sjá bregða fyrir andblæ ýmissa skáldkvenna sem fjallað hafa um samskipti hjóna og stöðu kvenna:

Við sem erum blind og nafnlaus

Konan fékk rödd karlmannsins
lánaða stutta stund.

Hún tók við nafni hans
eins og brauðmola.

Hún drakk vatn
úr lófa hans.

Hún sá auga sitt
í enni hans,

sjálfa sig án nafns og orða.

Þetta ljóð minnir dálítið á sögur Svövu Jakobsdóttur um giftingar og gjafir, en einnig má nefna bók Sigurbjargar Þrastardóttur, Brúðir.

Þessi ljóð um óþekk(t)u húsmóðurina minna áþreifanlega á hvað ljóðið er alltaf margrætt, rétt eins og samhæfing hugar og líkama er marglaga ferli í sundi. Alda Björk minnir vandlega á þetta í lokaljóði kaflans sem nefnist „Fyrir svefninn“. Þar slekkur ljóðmælandi á kertum, fær sér vínglas og lokar dyrum til að búa sig undir svefninn. Einar dyr standa þó opnar en skellast í lás meðan hún sefur:

Þá hrökk ég upp
við andlitið í rökkrinu.

Konuna með tvíræða brosið
sem stígur fram
þegar búið er að slökkva
öll ljósin nema eitt.

Þarna er hún komin, skáldkonan sem telur tungumálið vera innantómt en kann svo vel að smíða kjörgripi úr orðum.

úlfhildur dagsdóttir, október 2015