Beint í efni

Vince Vaughn í skýjunum og Hjartað er jójó

Vince Vaughn í skýjunum og Hjartað er jójó
Höfundur
Halldór Armand Ásgeirsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Unnar Valsson

Eitt skipti í síðasta mánuði fór ég suður fyrir Mjódd inn á Reykjanesbraut og nýtti þá tækifærið til að sjá hvað væri í bíó. Framan á bíóhúsinu í Álfabakka héngu þrjú eða fjögur skilti nógu stór til að sjást úr bílum á ferð, öll nema eitt þeirra sýndu eitthvað annað en leikarann Vince Vaughn, en eitt þeirra sýndi ekkert annað en leikarann Vince Vaughn. Auglýsingin var fyrir kvikmyndina Delivery Man, sem er endurgerð á kanadísku kvikmyndinni Starbuck. Ég hef hvoruga myndina séð en samkvæmt IMDB gæti Starbuck verið mér að skapi ef ég hafði áður gaman af Midnight in Paris, Silver Linings Playbook og/eða Crazy Stupid Love; Delivery Man gæti aftur á móti höfðað til mín ef mér líkaði kvikmyndirnar 2Guns, The Hunger Games: Catching Fire og/eða Here Comes the Boom. Einhverra hluta vegna finnst mér mikilvægt að benda á þetta.

Þessi auglýsing fyrir Delivery Man, sem hékk utan á Álfabakkanum, sýnir semsagt brjóstmynd af leikaranum Vince Vaughn og ekkert annað – nema kannske titil myndarinnar. Hann er íklæddur gráum bol og frárenndri hettupeysu. Hrekklaus, meinlaus og fáskiptinn. Hann horfir í myndavélina hálfbrosandi og passívur, hálftómur til augnanna og með hálfreistar axlir – ekki til að segja að „hann hafi ekki hugmynd“ heldur til að spyrja „hvers vegna ertu að horfa á mig?“ Hálfundrandi. Hálf, hálf, hálf. Þetta er Vince Vaughn: Sendillinn, hann sendist hingað með þessa bandarísku endurgerð og ég horfi á hann vegna þess að ég kannast við andlitið; hann er þarna uppi vegna þess að ég þekki hann í sjón en ekki öfugt.

Vince Vaughn í skýjunum og Hjartað er jójó eftir Halldór Armand Ásgeirsson eru tvær sirka sjötíu blaðsíðna nóvellur sem koma saman út á einni bók. Þær fjalla báðar um fólk sem verður fyrir einskonar vitrun og opinberar sig í fjölmiðlum með mismunandi afleiðingum. Fyrri sagan segir af Söru, hún er menntaskólanemi sem vinnur yfir sumar sem baðvörður í Laugardalslaug. Einn daginn situr hún í turninum og horfir yfir svæðið þegar það kemur til stympinga við sundlaugarbakkann. Augu allra sundlaugargestanna beinast að mönnunum tveimur sem eiga hlut að máli en á meðan verður Söru litið til himins, þar sem skýin renna saman til að mynda andlit leikarans Vince Vaughn. Hún grípur símann sinn og tekur skýjamyndunina upp á myndband, sem hún hleður seinna upp á YouTube í hálfgerðri rælni og skýrir „Vince Vaughn in the sky“.

Myndbandið verður gífurlega vinsælt. Fyrst hefur blaðamaður samband við Söru fyrir smælki um það sem gaman er í fréttum, síðan dægurmálaþáttur í sjónvarpi og svo koll af kolli þar til hún er bókuð í viðtal í bandarískum útvarpsþætti ásamt Vince Vaughn sjálfum – sem er hress og kátur með þetta, enda að auglýsa nýja kvikmynd – og Sara fer á vissan hátt að sjá eftir því að hafa birt myndbandið.

Sagan fer vel að lokum miðað við allt og allt, og getur varla annað miðað við léttleikann og birtuna í frásögninni. Vinsældir myndbandsins vinda upp á sig og sú atburðarás heldur bæði Söru og lesandanum við efnið en á meðan líða vinnudagarnir hjá í blárri móðu, eins og framtíðarminningar sem renna einfaldlega saman í mjúka stemningu. Samtölin milli Söru og Ragga, samstarfsmanns hennar, lifna við á síðunum án þess að búa yfir nokkru dramatísku inntaki, þau eru trúverðug, glaðleg og dillandi eins og dagarnir sem sagan lýsir.

Ég lýsi skýjamynduninni sem vitrun enda snýst sagan um áhrifamátt þess sem Sara sér á himninum, auk þess sem atburðurinn sker söguna í tvennt: Hún hefst í nútíð og lýsir þannig skýjamynduninni um leið og hún gerist, en kúplar síðan niður í fortíð þegar Sara kemur heim sama kvöld. Það verður þarna rof sem sýna að þó allt sé við það sama sé það breytt.

Það er því erfitt annað en að reyna að lesa í merkingu vitrunarinnar, eins og Sara og Raggi reyna eftir því sem lengra líður. Í fyrstu spyr Raggi hvers vegna Söru hafi ekki getað birst einhver almennilegri leikari á borð við Forest Whitaker eða Frances McDormand, og afgreiðir alltsaman með þeim orðum að „fólk [elski] ekkert meira en svona rugl sem það skilur ekkert í.“ Seinna hefur hann hins vegar á orði að Guð birtist fólki á hinn og þennan veg í Biblíunni, og það jafnvel „án þess að segja eitthvað sérstakt.“ Um leið reiðist Sara þeim sem draga heilindi myndbandsins í efa og kalla það jafnvel fölsun: „Ég á þetta myndband. Ég sá þetta, tók þetta upp. […] Ég sá þetta ein. Af hverju getur ekki verið að mér einni hafi verið ætlað að sjá þetta gerast?“ Hún fer með öðrum orðum að sjá eftir því að hafa deilt þessari vitrun með veröldinni, sem kann síðan ekki að meta hana.

Að baki þessu liggur sú spurning hvort atburðurinn hefði verið henni meira virði hefði hún haldið honum leyndum, eða hvort virði hans aukist með fjölda áhorfenda og þau Sara og Raggi þarfnist þess nú fyrst að ráða Merkingu hans, með stóru emmi, þegar hann er á allra vitorði. Er það andlitið og ótvíræður eigandi þess sem skiptir máli eða vitrunin sem slík? Það er að segja: er andlag andlitsmyndarinnar Vince Vaughn sjálfur eða sú staðreynd að það þekkja það allir? Og skiptir þá máli hvort það birtist á himninum eða á auglýsingu utan á kvikmyndahúsi?

Það kemur ekkert beint svar við þessu í sögunni en spurningarnar spila inn í stærra þema sem snýr að því að kalla hluti og fólk réttum nöfnum, að taka fyrir tvíræðni og að orða það sem ætla mætti að ekki þyrfti að orða. Sögumaður er ekkert að flýta sér að því að nefna staði og persónur eiginnöfnum og þannig er Raggi „hann“ lengi vel og bróðir Söru líka, foreldrar hennar einfaldlega „þau“; í vinnunni fabúlera Sara og Raggi um persónur og einkalíf sundlaugargesta og samstarfsmanna, út frá því einu að fylgjast með þeim út á við; Sara og vinkonur hennar skemmta sér á kvöldin við það að skrifa ofurnákvæmar Wikipediu-greinar um hversdagslega hluti; og snemma í sögunni veltir Sara því fyrir sér hvort hún móti orðin eða orðin hana:

Þegar skrúfað hefur verið fyrir sturturnar ganga baðverðirnir skipulega um með sköfur og kústa og minna gesti á að þeir þurfi að hafa yfirgefið „staðinn“ innan fimmtán mínútna. Upphaflega fannst Söru sérkennilegt að taka svona til orða en hún efast ekki um stjórnspeki fasta-baðvarða sem þróast hefur í áranna rás. Þetta orð, staður. Líklega er það notað viljandi til að útiloka en-bíddu-svör frá gestum sem vilja leita réttar síns, konum sem standa ennþá naktar níu mínútur yfir og bera á sig líkamskrem, vilja spjalla í makindum á meðan þær hafa sig til og eru ekki á hraðferð, þefa uppi túlkunarmöguleika á fyrirmælum baðvarða. Til að stýra fjölda verða ávörp og fyrirmæli annaðhvort að vera algjörlega ótvíræð eða fullkomlega óræð, ekkert þar á milli. Sara hefur uppgötvað að eitt orð til eða frá getur breytt verulega þeim hughrifum sem við verðum fyrir án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Manni finnst eins og hugsun sé mótuð í tungumál en hún er smám saman að skilja að því er öfugt farið, að hugsunin er steinninn, tungumálið er hamarinn. (15-16)

Þetta virðist allt svo til þess fallið að fanga tákn- og metaþyrsta lesendur að maður staldrar við og lítur í kring um sig. Eins sú staðreynd að það er (vinns) von sem birtist í skýjunum fyrir augliti meyjarinnar og blæs lífi í tilveru hennar um stund. Vince Vaughn í skýjunum stingur þessu öllu undir hjá lesandanum án þess að gera ráð fyrir fastri túlkun, og nálgast huga lesandans með leikandi orðfæri og öruggri frásögn líkt og breiðlenda skýjaborg á himni frekar en klöpp sem sleggjan lemur.

Nú fer sólin að rísa og ég ætla því að láta örfá orð nægja um seinni söguna í bókinni. Hjartað er jójó er, eins og áður segir, á svipuðu róli en á dekkri slóðum. Saman hafa sögurnar ýmislegt að segja um frægð og það hvernig fólk nálgast hana en í þessum sögum birtast fjölmiðlar og auglýsingamennska sem einhverskonar behemot sem skríður áfram af eigin þunga og fylgir sínum eigin lögmálum. Í  Vince Vaughn í skýjunum leikur Sara eftir reglum þessa fyrirbæris og verður ekki sýnilega meint af en sögumaður og aðalpersóna Hjartað er jójó, lottókynnirinn Þórir Thorarensen, reynir hinsvegar að standa gegn sjónvarpinu og Íslenskri getspá, og gerast sinn eigin herra. Sagan er frekar endasleppt en þó sögð með nokkrum tilþrifum og líður þess sennilega að koma í kjölfar Vince Vaughn í skýjunum. Þótt þær séu alls ótengdar á yfirborðinu (að því ég fæ séð) er samt erfitt að hugsa sér að slíta þær í sundur, og ég vona að þessi tví-saga fari sem víðast.

Björn Unnar Valsson, desember 2013