Æviágrip
Auður Ava Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1958. Hún var lektor í listfræði við Háskóla Íslands 2003-2018. Hún hefur einnig kennt listfræði og listasögu við Leiklistarskóla Íslands og var um tíma forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands. Auður hefur sett upp myndlistarsýningar og fjallað um myndlist og listasögulegt efni í ýmsum fjölmiðlum.
Fyrsta skáldverk Auðar var skáldsagan Upphækkuð jörð sem kom út hjá Máli og menningu árið 1998. Síðan hefur hún skrifað bæði skáldsögur, leikrit og ljóð.
Auður hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar. Rigning í nóvember hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2004. Skáldsagan Afleggjarinn er margverðlaunuð bók, meðal annars hlaut hún Menningarverðlaun DV í bókmenntum 2008, Fjöruverðlaunin sama ár og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2009. Sagan vakti mikla athygli í Frakklandi þegar hún kom þar út í þýðingu Catherine Eyjólfsson sem Rosa Candida árið 2010, og einnig var franska þýðingin verðlaunuð í Quebec í Kanada vorið 2011. Auður hlaut bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana fyrir skáldsöguna Ör 2016 sem og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018. Hún hefur jafnframt tvívegis verið tilnefnd til þeirra; fyrst fyrir skáldsöguna Undantekningin: (de arte poetica) og svo Ungfrú Ísland 2018 en fyrir þá bók hlaut hún Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki skáldsagna.
Haustið 2019 hlaut Auður frönsku Médici-verðlaunin fyrir Ungfrú Ísland í flokki erlendra bóka. Bókin kom út í Frakklandi það haust í þýðingu Erics Boury, sem Miss Islande. Verðlaunin eru veitt bæði frönskum og þýddum skáldsögum.
Um höfund
Gróður jarðar
Í Afleggjara (2007) Auðar Övu Ólafsdóttur er barn getið í gróðurhúsi. Þetta er þriðja skáldsaga Auðar, en í þeirri fyrstu, Upphækkaðri jörð (1998), er barn getið í rabbarbarabeði. Í Afleggjaranum er greinilegt að barnið er tákn gróður jarðar, eða gróður jarðar tákn barnsins, en allar þrjár skáldsögur Auðar fjalla um börn og samskipti þeirra við forráðamenn sína, sem eru þó ekki endilega foreldrar þeirra. Samskipti við gróður jarðar og börn er því eitt af leiðarstefjum sagnanna, og reyndar fjalla þær allar um samskipti og tjáningu yfirleitt. Í Upphækkaðri jörð á stúlkan Ágústína nokkuð erfitt með að tjá sig á þann hátt sem hentar kennurum hennar, í Rigningu í nóvember (2004), annarri skáldsögu Auðar, ferðast kona um með heyrnarlaust barn og í Afleggjaranum sest söguhetjan Arnljótur að í litlu þorpi og þarf að læra að tala næstum útdautt tungumál. Í þorpinu kynnist hann svo munki sem er tungumálaséní.
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að Auður Ava Ólafsdóttir fjalli um samskipti og tjáningu í skáldverkum sínum, en hún er starfandi listfræðingur. Þó er myndlist ekki endilega áberandi stef í skáldsögunum, heldur birtist bakgrunnur Auðar frekar í því hvernig hún nálgast viðfangsefni sín og fjallar um sameiginlegar spurningar sem liggja að baki allri listsköpun, spurningar sem lúta einmitt að því hvað tjáning getur verið fjölbreytt - og erfið - og hvernig samskipti við annað fólk og umhverfi lúta iðulega sínum eigin reglum, en fara ekki endilega einhverjar fyrirfram ruddar brautir.
Fyrir utan skáldsögurnar þrjár hefur Auður sent frá sér eina ljóðabók, Sálminn um glimmer (2010). Bókin inniheldur í raun eitt langt ljóð sem lýsir einskonar ferðalagi eða eiginlega því að leggjast út að hætti útilegumanna, en ljóðmælandi er í síðari hluta bókarinnar stödd í helli með félaga sínum:
góðir íslendingar nær og fjær
ég og elskhugi minn njótum hælis í helli
þetta er tveggja herbergja hellir
með frostrósaþili
skammt frá dánu
hamratrölli
Ljóðmálið einkennist af einhverskonar þulustíl, með tilheyrandi tilvísunum til allra átta, reyndar svo að það er stundum dálítið erfitt að átta sig á hvert skáldkonan er að fara. Að einhverju leyti er hér verið að takast á við menningararfinn, þjóðsögurnar og bókmenntirnar eins og birtist vel í þessum kafla:
ég ber það kannski ekki utan á mér
með sanseraðan himin á augnlokum
til hátíðabrigða
hversu djúpt rætur mínar liggja
í beinfrosnum kirkjugarði
norðan heiða
kemur upp úr moldarkófinu
að formóðir mín
var annáluð gleðikona
(islendingabok.is)
sem sigldi til eyjunnar
yfir hyldýpishaf
á síðustu duggu brimarkaupmanna
um brimhvíta sogöldu tímans
og giftist berdreymum presti
sem greip um
fálmandi hönd uppúr
gruggugri straumkviku
madelaine stóð löngum stundum í fjöruborðinu og
talaði erlenda tungu við fiska sem rak andaða á land því
mikill var máttur orða hennar
saman áttu þau úlfhéðinn hagmæltan son sem
þýddi nokkrar sonnettur eftir lousie labé
Hraðinn er mikill og minnir að einhverju leyti á hugarflæði módernismans, þar sem hugurinn rásar frjáls um og ýmis og ólíkleg hugrenningatengsl myndast.
Innan listfræðinnar (og reyndar sjónmenningarfræða einnig) er mikið fjallað um þá mótsögn sem felst í því að fjalla um myndir eða sjónræna upplifun í orðum. (Hér verður ekki farið út í flókna umræðu um að myndlist takmarkast alls ekki við myndrænt eða sjónrænt form). Það að skapa verk í myndrænu formi felur í sér, allavega að hluta til, að þar sé á ferðinni tjáning, tilfinning eða upplifun sem ekki er hægt að fanga með orðum. Hvernig á þá að vera hægt að leggja mat á verkið, lýsa því og greina það í rituðu eða töluðu máli? Að hluta til hefur þessi umræða síðan farið út í ýmiskonar kenningar og leiki með tengsl orða og mynda sem hafa verið ákaflega frjósamar og mikilvægar innan bæði fræðanna og myndlistarinnar sjálfrar (sbr. að myndlist er ekki takmörkuð við myndir). Sjálf hefur Auður skrifað um þetta í grein sem nefnist „Ef ég væri mynd hvernig myndirðu þá orða mig? Samband myndmáls og tungumáls í ljósi túlkunaraðferða listfræðinnar“, í Ritinu 1/2005. Í þessari umræðu er áhersla lögð á hvernig áhrif orð hafa á myndir - og hvort þau hafa áhrif. Þetta hefur síðan verið tengt lengra í greiningu á því hvernig allt umhverfi, sjálft safnið eða galleríið, merkingar (‘án titils’ er t.d. titill verks og segir sitt um það, alveg eins og hvert annað formlegra heiti) og sýningarskrár móta upplifun sýningargesta. Allt felur þetta í sér einskonar hæfni í því sem hefur verið kallað myndlæsi, en þjálfun í slíku hefur lengst af ekki fengið álíka vægi og læsi og skilningur á rit- eða talmáli.
Það sem gerir skáldsögur Auðar sérlega áhugaverðar er að í þeim má sjá nálgun á viðfangsefni þessarar umræðu úr annarri átt. Úr þeim má lesa einskonar könnun á því hvernig myndlistin - og listfræðin - hefur áhrif á og grípur inní hið ritaða mál, skáldlegt mál. Hér kemur augljóslega aftur inn fyrrnefnd áhersla á samskipti og tjáningu, auk þess sem myndauðgi texta Auðar ýtir enn undir tilfinninguna fyrir samspili þessara tveggja listgreina. Það er auðvelt að sjá bækur Auðar fyrir sér sem myndlýst verk, sérstaklega kallar Afleggjarinn næstum á að vera endurútgefin sem myndabók. Þannig skapa verk Auðar tilfinningu fyrir frjálsu flæði milli myndlistar, listfræða og ritmáls og bjóða uppá öflugt mótvægi við það viðhorf innan myndlistar að umritun myndlistar í ritmál feli í sér átök og afmarkanir.
„að breyta myndum í orð“
Upphækkuð jörð minnir dálítið á ævintýri, en þótt sviðsetning sögunnar sé vissulega kunnugleg, íslenskt sjávarþorp undir fjalli, þá er hún jafnframt dálítið fantastísk, því eyjan sem þorpið er á virðist öllu minni en eyjan Ísland. Ennfremur er tíminn næsta framandlegur, þrátt fyrir að margt sé nútímalegt þá er yfir allri sögunni einhverskonar tilfinning tímaleysis sem minnir á þá óljósu fortíð sem finna má í ævintýrum. Í þessu þorpi býr unglingsstúlkan Ágústína sem hefur alist upp hjá móðursystur sinni Nínu, því mamma hennar er vísindakona og ferðast víða um heiminn að eltast við farfugla. Hún sendir dótturinni þó reglulega bréf frá framandi slóðum sem auka enn á ævintýrablæ sögunnar. Ágústína er fötluð, fætur hennar eru gagnlitlir og hún ferðast um á hækjum. Handleggirnir eru þó öflugir og hendurnar sömuleiðis, með þeim gróðursetur hún matjurtir, blóm og tré í garðinum sínum, spilar á óbó, skýtur fugla, syndir og rær. Draumur hennar er að klífa fjallið sem gnæfir yfir þorpinu og bókinni lýkur á þeirri ferð.
Hvort sem um er að kenna hennar fjarlæga og erlenda föður eða einhverju öðru, er Ágústína nokkuð ólík samferðafólki sínu í bænum. Skynjun hennar er sérstæð og þetta kemur henni í vandræði hjá kennaranum sem segir við fósturmóðurina Nínu: „Það verður að segjast eins og er að Ágústína nálgast þau verkefni sem skólinn leggur fyrir hana oft og tíðum á afar undarlegan hátt. Byrjar á jöðrunum, ef svo má segja og fer þaðan út í óskylda útúrdúra og gleymir sér. Guð má vita hvernig hún hugsar og ályktar. Hugsun hennar virðist liggja í margar áttir samtímis.“ Nína svarar: „Hún er kannski svolítið draumlynd stundum, hún Ágústína mín“ (78). Fyrr í sögunni er lýsing á því hvernig stúlkan upplifir umhverfi sitt:
Hún fékk snemma tilfinningu fyrir sérstöðu sinni í veröldinni. Ekki bara vegna fótanna heldur vegna myndanna sem hrúgast stjórnlaust upp í huganum, eða gerðu það þar til hún fór að aga þær og læra að breyta myndum í orð og byggja úr heilu turnana. Þannig breytast myndafjöll í orðafjöll í mörgum lögum. Neðsta lagið hefur flest orð, annars hrynur turninn. Það er eins með neðsta lagið í orðafjöllunum og neðri lögin á tertunum hjá Nínu, það þarf að hlaða meira í þau, fylla af niðursoðnum ávöxtum og súkkulaðibitum og setja mestan rjóma. (22)
Hér kemur greinilega fram hvernig orð ummyndast í myndir og öfugt, auk þess sem fjallað er um ólíkar leiðir til upplifunar. En það eru ekki bara orðin heldur einnig tölur sem fá sérstæða meðferð hjá Ágústínu:
Samband hennar við tölur er ekki normalt. [...] Ef hún setur tölur á blað þá staflar hún þeim og snýr á ýmsa kanta og býr til alls kyns fléttumynstur. Nokkurs konar þrívíddartalnamynstur með bakhliðum og skuggum, líkt og reikistjörnur úti í geimnum sem hún síðan nálgast úr ýmsum áttum. Hún virðist ekki skilja að tölur og útreikningar eiga sér aðeins framhlið. (79-80)
Enn lætur Nína sér athugasemdir kennarans í léttu rúmi liggja og yfirhöfuð er lítið gert úr praktískum erfiðleikum í sögunni, þrátt fyrir að ljóst sé að þær frænkur búa við fremur þröngan kost í hripleku húsi. Ævintýrið bægir burt slíkum raunsæisbitum sem þó fljóta um í nákvæmum lýsingum á heimilishaldi, sultugerð og sláturtöku.
Uppskriftir
Lítil uppskriftabók fylgir með Rigningu í nóvember, en þar kemur matargerð nokkuð við sögu. Bókin fjallar um konu sem er nýskilin við mann sinn. Hún ákveður að stokka upp líf sitt, setur elskhugann í bið og ákveður að fara í ferð. Óvæntir vinningar í happadrætti og lottó hjálpa þar til og eftir skrautlega fléttu atburða sem hefjast með því að kasólétt vinkona hennar dettur í hálku er söguhetja vor skyndilega lögð af stað út á land, um hávetur, með heyrnarlausan son vinkonunnar í aftursæti bílsins. Saman lenda þau í ýmsum ævintýrum á leiðinni, en veigamesti hluti sögunnar er ferðasaga. Sú ferð er farin í rigningu, einsog titill sögunnar gefur til kynna og Ísland birtist því hulið grárri rigningarþoku sem gerir lítið til að ýta undir þá ímynd glæsilegrar náttúru sem lengst af tengist sögum af ferðum um landið, ekki síst í íslenskum kvikmyndum: „Um leið og rignir dofna útlínur heimsins, í stað sjóndeildarhrings loðin kennileiti. Í rauninni er allt landið meira og minna auðn þegar komið er út fyrir gatnakerfi borgarinnar, svartar sandbreiður, svört hraun, svart haf ekki langt undan og svartur himinninn yfir.“ (102) Viðsnúningur af þessu tagi er dæmi um það hvernig Auður nálgast kunnugleg viðfangsefni íslensks skáldskapar á ferskan hátt. Í Afleggjaranum er síðan að finna erlent stef við þessa nálgun, en þar keyrir Arnljótur um Suður-Evrópu og gegnum skóga sem virðast endalausir: „litrófið frá grænu til græns“ (71).
Auður notar grámann til að spila á stef íslenskrar þjóðtrúar eins og þegar drengurinn þarf að pissa á miðri heiði og ökukonan ákveður að létta á sér líka en vill leita uppi skjól í þokunni. Hún leiðir drenginn í átt að vörðu sem nálgast þó lítið og skyndilega eru þau stödd í miðri refaveiði: „Menn í grænum skæruliðasamfestingum spretta upp úr mosanum með haglabyssur á lofti, eina skepnan sem drepur sína líka, standa og miða á okkur byssunum, umkringja mig og drenginn.“ (107) Svo leggja þeir niður vopn og reynast hinir vinalegustu og skipta um sprungið dekk á bílnum. Seinna fær hún aðstoð frá öðrum manni sem einnig sprettur skyndilega fram úr þokunni, sá segist í fyrstu vera álfur, en reynist mennskur, auk þess sem hann kann táknmál og getur því átt samskipti við drenginn.
Samskipti við karlmenn eru fyrirferðamikil í sögunni en þó er aðaláherslan á samband konunnar við heyrnarlausan son vinkonunnar, Tuma. Hann talar táknmál en reynist einnig bæði læs og skrifandi, fjögurra ára gamall. Í fyrstu reynist auðvelt að skilja barnið, til dæmis í búðum, en þar bendir hann á það sem hann langar í og konan hlýðir. Tjáskiptin inni í bílnum eru hinsvegar flóknari:
Það er ekki til neins að brýna raustina fram í, hann heyrir ekki í mér, í hvert sinn sem við þurfum að tala saman gef ég stefnuljós út í vegakantinn, stöðva bílinn og sný mér við í sætinu til að hann geti horft á hljóðar varir mínar hreyfast og mynda orð, munninn opnast og lokast. (104)
Þannig er lýst samskiptum og misskilningi í stuttum áhrifaríkum innskotum:
Hann ætlar að tala lágt þegar hann er kominn ofan í pokann, langar til að hvísla í trúnaði, en röddin er hol og hljómmikil, þótt hann leggi sig allan fram. Lófi hans er líka of lítill til að bera öll heimsins skilaboð í orðum. Hins vegar er ég með þrjár bækur í bílnum til að læra að skilja heyrnarlaust barn. Ég þarf bara að finna mér hentugan tíma til að lesa þær. (118)
Það er eðlilegt að konan líti á samskiptavanda þeirra sem eitthvað sem hægt er að lesa sér til um og læra, því hún er tungumálaséní og starfar sem yfirlesari og þýðandi á ellefu tungumál. Í þessu tilfelli er þó ljóst að bækur bjarga litlu og tjáningin er eitthvað sem þarf að læra smátt og smátt um leið og hún tengist drengnum betur.
„mállaus í moldinni“
Samskipti barns og fullorðins eru enn viðfangsefni í Afleggjaranum, en þar þarf ungur faðir skyndilega að kynnast dóttur sinni, sem hann hafði getið alveg óvart í gróðurhúsi. Arnljótur hefur erft áhuga á gróðri og ræktun frá móður sinni og þarsem hann veit ekki vel hvað hann vill gera með líf sitt ákveður hann að bjóða sig fram til að vinna í frægum rósagarði frá miðöldum. Til að komast þangað leggur hann í langa ferð yfir Suður-Evrópu sem hefst á því að hann fær botnlangakast og er skorinn upp. Með í ferð eru afleggjarar af sérstöku rósaafbrigði, áttblaðarós í óvenjulegum fjólurauðum lit. Rósagarðurinn er staðsettur í munkaklaustri í litlu þorpi og þar kynnist Arnljótur munkinum Tómasi sem talar nítján tungumál vel og þónokkur önnur ver. En svo fær ungi maðurinn óvænt símtal, barnsmóðir hans er í vandræðum vegna ritgerðaskrifa og þarf að fá að koma barninu fyrir hjá föður sínum. Síðasti hluti sögunnar lýsir því svo hvernig hann kynnist dótturinni, Flóru Sól, og móður hennar, Önnu. Þessi óvenjulega fjölskyldusamsetning endurspeglar þær óvenjulegu fjölskyldur sem einkenna allar sögurnar. Í Upphækkaðri jörð þekkir Ágústína ekki föður sinn, ekki frekar en móðir hennar, og elst upp hjá móðursystur. Í lokin fær hún frétt um að móðir hennar hafi eignast son með öðrum manni í fjarlægu landi. Í Rigningu í nóvember kemur drengurinn Tumi að einhverju leyti í staðinn fyrir dreng sem sögukonan eignast á unglingsaldri og gefur í fóstur, í lok sögunnar ákveður hún að taka Tuma með sér í enn frekari ferðalög. Tumi þekkir ekki föður sinn og móðir hans er enda búin að eignast tvíbura með nýjum manni og þarf að sinna þeim - en þó ekki manninum. Í Afleggjaranum hefur móðir Arnljóts farist í bílslysi og hann býr með föður sínum. Tvíburabróðir hans er þroskaheftur og býr á sambýli, þeir bræður eru eins ólíkir og hægt er. Þannig teiknast upp litríkt mynstur óvenjulegra vensla, ekki ólíkt og ýmiskonar plöntur þrífast saman í vel hirtum garði.
Afleggjarinn er þéttasta skáldsaga Auðar Ólafsdóttur. Fyrri bækurnar tvær einkennast nokkuð af því að vilja teygja sig í of margar áttir, en í Afleggjaranum er öllu haldið til haga. Það er freistandi að taka líkingu úr sögunni af garðrækt en „fyrsta vikan fer í að hreinsa illgresið og klippa mér leið í gegnum þéttriðin rósalimgerði“ (140). Seinna er sögumaður „stöðugt að uppgötva nýjar tegundir faldar í óræktinni, rósatré, runnarósir, klifur- og vafningsrósir, dvergrósir og villirósir, stór stök blóm á löngum greinum eða blómaklasa, mismunandi sköpulag, ilmur og litur“ (141). Á sama hátt sogast lesandi inn í þetta gróskumikla verk sem einnig þjónar því hlutverki að tengja hinar sögurnar saman. Eins og fyrr segir er sameiginlegur þráður í umfjöllun um samskipti, almennt og milli fullorðins og barns, en þessi samskipti tengjast meðal annars hugmyndum um fötlun og sérstöðu, sem einnig kemur fram í hinum óvenjulegu fjölskyldusamsetningum sem teiknast upp í verkunum. Í Afleggjaranum þéttist einnig sá ‘yfirnáttúrulegi’ þráður sem finna má í hinum verkunum. Ágústína er trúuð og vonast til að guð geri á henni kraftaverk og þrátt fyrir að trúin sé ekki eins nálæg í Rigningu í nóvember þá kaupir sögukonan litla kirkju sem hún límir á mælaborðið. Hinsvegar er þar að finna annarskonar hugmynd um æðri öfl, í upphafi sögunnar fer konan til spákonu sem spáir fyrir um helstu atburði sögunnar, að hætti drauma í Íslendingasögum. Draumur kemur einnig fyrir í Afleggjaranum, en þar er trúin augljóslega mikilvægur þáttur, þó ekki væri nema vegna þess að rósagarðurinn er hluti af klaustri. Að auki koma myndskreytingar í einni kirkju þorpsins mjög við sögu, en á málverki af Maríu með Jésúbarnið finnur Arnljótur sláandi líkindi með dóttur sinni.
Hér kemur myndlistin einnig inn og tengist trúnni náið. Myndlistin er ekki, frekar en gróðurinn, hlutlaus aðili, hún er virk og lifandi eins og kemur í ljós þegar líður á söguna. Myndlist er líka tengd minningum og ímyndunarafli, eins og í lýsingunni á slysstaðnum þarsem móðir Arnljóts fórst:
Ég tek mér tíma áður en ég nálgast mömmu inni í bílnum á hvolfi í hraunbollanum. Ég gef mér virkilega tíma til að gaumgæfa náttúruna, hringsóla lengi yfir staðnum, eins og kvikmyndatökumaður að taka loftmynd úr krana, áður en ég kem að mömmu sjálfri, aðalleikonunni sem allt snýst um. Það er sjöundi ágúst og ég ákveð að það hafi haustað snemma. Þess vegna sé ég mikið rautt og logagyllt í náttúrunni, ég sé fyrir mér eintóm tilbrigði við rautt á vettvangi slyssins: rústrautt berjalyngið, blóðrauðan himininn, fjólurauð laufin á nokkrum hríslum í nágrenninu, gylltan mosann. Sjálf var mamma í vínrauðri hnepptri peysu og storkið blóðið sást ekki fyrr en pabbi skolaði peysuna í baðkarinu heima. Með því að dvelja við aukaatriðin í sviðsmyndinni, eins og maður grandskoðar fyrst bakgrunn málverksins, áður en maður kemur að sjálfu myndefninu, þá slæ ég dauðastund mömmu á frest [...]. (21)
Sjálfur var Arnljótur alls ekki á staðnum og því er myndin sem hann dregur upp hans eigið sköpunarverk eins og kemur fram í því hvernig hann ‘ákveður’ að það hafi haustað snemma. Hér birtist einnig vel hvernig Auður notar gróður og gróðurlíkingar markvisst í gegnum alla söguna, allt frá þessari sviðsetningu dauðans í upphafi ferðarinnar til hins græna litrófs leiðarinnar í gegnum Suður-Evrópu sem endar í rósagarðinum fræga, en þar þarf að huga að litasamsetningum. Gróðurinn er tjáning sem vex og grær þvert á mál og málleysi, en gróður og ræktun eru einnig þau meðöl sem Ágústína notar til að tjá sig og ná taki á lífi sínu. Þessar hugmyndir um ræktun skapa sögunum jarðtengingu jafnframt því að taka á sig ýmiskonar myndir upphafningar, sviðsetningar, tilfinninga og, síðast en ekki síst, uppvaxtar.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2011
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Aðalsteinsdóttir: „Þögn og skriftir á Hótel Silence. Ör og hin endurtekna þjáning í verkum Auðar Övu“
Andvari, 2017, 142. árg., s. 157-165.
Jón Yngvi Jóhannsson: „Loðir heimurinn saman á táknum? Um Afleggjarann og Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 79. árg., 1. tbl. 2018, s. 20-33.
Mica Allen: „No Ordinary Journey“ Viðtal
Iceland Review, 2010; 48 (2), s. 36-38.
Kristín Ómarsdóttir: „Sjötíu þúsund hugsanir: viðtal við Auði Övu Ólafsdóttur“
Tímarit Máls og menningar, 76. árg., 4. tbl. 2015, s 4-17.
Um einstök verk
Afleggjarinn
Björn Þór Vilhjálmsson: „Líkamar, rósir, dauði“
Tímarit Máls og menningar, 69. árg., 4. tbl. 2008, s. 101-107
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 4. árg., 2. tbl. 2009, s 170-178
Rigning í nóvember
Eiríkur Örn Norðdahl: „Eins og risastór brjóst“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 116-117
Kristín Viðarsdóttir: „Eins og þráður spunninn af konu“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Svartur hundur prestsins
Auður Aðalsteinsdóttir: „Sannleikanum er ekki treystandi“ (viðtal)
Spássían 2011, 2. árg., haust, bls. 4-5.
Þorgeir Tryggvason: „Arfur absúrdsins“ (leikdómur)
Spássían 2012, 3. árg., vor, bls. 36-7.
Undantekningin: (de arte poetica)
Ásta Gísladóttir: „Á mörkum merkingarleysu“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 16.
Vera Knútsdóttir: „Um skáldskaparlistina í Undantekningunni“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þröstur Helgason: „Hvað binzt við nafn?“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2014, 75. árg., 1. tbl. bls. 138-42.
Ungfrú ísland
Már Másson Maack: „Skáld eru kvenkyns“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Upphækkuð jörð
Berglind Steinsdóttir: „Að eiga sér markmið“
Tímarit Máls og menningar, 60. árg., 2. tbl. 1999, s. 144-146
Ör
Már Másson Maack: „Að græða sár - Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2019 - Médici-verðlaunin: Ungfrú Ísland (flokkur erlendra bóka)
2018 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Ör
2018 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Ungfrú Ísland fyrir bestu skáldsöguna
2016 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ör
2016 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Ör. Sem besta skáldsagan
2011 - Prix des libraires du Québec: Rosa Candida (Afleggjarinn í franskri þýðingu Catherine Eyjólfsson). Í flokknum þýðingar (Roman hors Québec)
2010 - Prix de Page (Frakkland): Rosa Candida
2008 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Afleggjarinn
2008 - Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Afleggjarinn
2004 - Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar: Rigning í nóvember
Tilnefningar
2020 - Dýralíf
2019 - Fjöruverðlaunin: Ungfrú Ísland
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ungfrú Ísland
2018 – Premio Strega (Ítalía): Ör
2012 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Undantekningin (de arte poetica)
2012 - Grímuverðlaunin - Leikskáld ársins: Svartur hundur prestsins
2010 - Lire Magazine (Frakkland): Rosa Candida
2010 - Prix du Roman FNAC (Frakkland): Rosa Candida
2010 - Prix Fémina (Frakkland): Rosa Candida
2009 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Afleggjarinn
2005 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Rigning í nóvember
Eden
Lesa meiraMálvísindakona, sérfræðingur í fámennistungumálum, ákveður að breyta landi þar sem ekkert grær í Edenslund.Dýralíf
Lesa meiraRandai
Lesa meiraFrøken Island
Lesa meiraFröken Island
Lesa meiraMiss Island
Lesa meiraHotel Silencio
Lesa meiraHotel "Silence"
Lesa meiraHotel Silencio
Lesa meira