Jump to content
íslenska

Dauði trúðsins (Death of a clown)

Dauði trúðsins (Death of a clown)
Author
Árni Þórarinsson
Publisher
JPV-útgáfa
Place
Reykjavík
Year
2007
Category
Novels

um bókina

Ganga draugar ljósum logum á björtum sumarnóttum um gamalt, yfirgefið hús á Akureyri? Þar er eitthvað á seyði og í gúrkutíð er allt hey í harðindum fyrir Einar blaðamann á Síðdegisblaðinu. Sumarhátíðin „Allt í einni" er að hefjast um verslunarmannahelgina og þúsundir gesta streyma til höfuðstaðar Norðurlands til að skemmta sér. Um leið kvisast út að stjörnur frá Hollywood séu komnar í bæinn fyrir tökur á erótískri spennumynd. Þá er gúrkutíðin úti.
   Áður en Einar og Ólafur Gísli Kristjánsson yfirlögregluþjónn vita af hrannast verkefnin upp.
   Í Dauða trúðsins glímir Einar blaðamaður við ráðgátu sem leiðir hann í senn á refilstigu íslensks samtíma og að reimleikum í eigin ranni. Hér togast á leiftrandi húmor og djúp alvara í hörkuspennandi sögu um lífsháskann í mannlegum samskiptum.

úr bókinni

Frammi í kaffikrók geng ég um og þamba kaffi og get ekki hætt að hugsa um átökin í hirðinni, stöðu kóngsins og streituna um krónprinsinn. Djöfulsinsandskotans.
   Jóa gýtur að mér augum annað slagið þar sem hún hamast á tölvunni. Að lokum gefst hún upp og spyr hvað sé að. Mig dauðlangar að segja henni allt af létta en hvorki má það né get. Segist vera að reyna að ná mér niður eftir spennufallið í helgarlok.
   Hirðfíflið að verða krónprins?
   Sjittur allra sjitta.
   En svo staldra ég við þá tilhugsun að Hannes er eldri en tvævetur í svona ströggli. Ekki má afskrifa gamla refinn. Enginn er slóttugri þegar á reynir. Því hef ég kynnst persónulega oftar en einu sinni, bæði til góðs og ills. Afl fjármagnsins er eitt, hugvit annað. Það getur farið saman en þarf ekki að gera það.
   Ég sest aftur inn í skáp, skrifa nokkra rútínupunga og sendi suður. Svo stend ég á fætur, tékka á því hvort óreiðan sé ekki örugglega næg á skrifborðinu mínu til að ég geti mætt til starfa á morgun, kveð Jóu og labba út í hlýindin.
   Sólin hefur dregið sig í hlé um stundarsakir og safnar kröftum bak við skýjabakka. Sama virðist gilda um íbúa Akureyrar. Fáir eru á ferli á Ráðhústorginu fyrir utan slæðing af erlendum túristum sem ævinlega þekkjast á skærlitum regnslám og öðrum yfirhöfnum þótt engin sé úrkoman, logn og hlýtt miðað við hnattstöðu. Þeir hafa lesið að menn skuli vera við öllu búnir á Íslandi og eru það.
   Aldrei þessu vant eru fleiri en eitt borð laus fyrir utan Café Amor. Ég panta mér munkakaffi hjá þjóni sem á leið hjá og kem þá auga á ungan mann í svörtum jakkafötum og niðursokkinn í lestur Morgunfrétta.
   ,,Ágúst Örn."
   Hann hrekkur við.
   ,,Má ég tylla mér hérna hjá þér?"
   Við höfum varla talast við, nema um það nauðsynlegasta, frá því að sprengjan sprakk í Stóra ljósmyndamálinu. Ég hef orðið var við ofurlítinn sprota af samviskubiti ota sér upp á yfirborð hugans. Auðvitað var þetta skítt fyrir strákinn. Auðvitað hefði ég átt að ræða við hann áður en ég skrifaði undir valdaafsalið. En ég er jafn sannfærður og áður um að það var rétt að skrifa undir. Síðdegisblaðið er eini fjölmiðillinn með viðtöl og myndir um Hot Ice. Aðrir miðlar sögðu frá Hollywood-gestunum en þeir höfðu lítið sem ekkert í höndunum.
   Eftir á að hyggja voru vanstilling Ágústs Arnar og reiði þrátt fyrir allt til marks um ákveðinn metnað og stolt.
   Ég segi honum það.
   Hann kinkar kolli, en segir ekki neitt.

(s. 76-77)

More from this author

Ein herz so kalt

Read more

Dauði trúðsins (Death of a clown)

Read more

Glæpurinn: ástarsaga (The Crime: A Love Story)

Read more

Natten har tusind öjne

Read more

Die verschwundenen Augen: Kriminalroman aus Reykjavík

Read more

Dagurinn í gær (Yesterday)

Read more

Nóttin hefur þúsund augu (The Night Has a Thousand Eyes)

Read more

Hvíta kanínan (The White Rabbit)

Read more