Beint í efni

Bara Sara

Bara Sara
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Smásögur

Smásaga í safnritinu Draugurinn sem hló. Bókin geymir 15 draugasögur eftir jafnmarga norræna höfunda. Hún er afrakstur norræns samstarfsverkefnis sem hlaut styrk frá Nordisk Kulturfond og kom hún samtímis út á átta tungumálum. Sigurður Karlsson þýddi erlendu sögurnar.

Höfundar sem eiga sögur í safninu, auk Gerðar, eru:
Heddi Böckman, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Atle Hansen, Issát Sámmol Heatta, Ragnar Hovland, Sámal Kristian Jacobsen, Lene Kaaberböl, Sólrún Michelsen, Rauna Paadar-Leivo, Sari Peltoniemi, Juaanna Platou, Dorte Roholte, Ebbe Schön og Ritva Toivola.

Myndlýsingar:
Eva Eriksson, Halldór Baldursson, Trond Bredesen, Liisa Helander, Hilde Kramer, Edward Fuglö, Emil Landgreen, Áslaug Jónsdóttir, Liisa Kallio, Kunuk Platou, Per Jörgesen, Tord Nygren og Salla Savolainen.

Ritnefnd skipuðu Sigþrúður Gunnarsdóttir (Ísland), Lene Therkildsen (Grænlandi), Niels Jákup Thomsen (Færeyjum), Lotte Nyholm (Danmörku), Guri Vesaas (Noregi), Terttu Toivianinen (Finnlandi), Marianne Eriksson (Svíþjóð) og Brita E. Kåven (samíska málsvæðið).

Úr Bara Sara:

Ýlfrið af efri hæðinni færðist í aukana og nú bættist hjartsláttur Söru við. Svona kröftugur hafði hann aldrei verið áður. Hún reyndi að róa sig með því að telja hægt upp að tíu en hún var komin upp í fjörutíu þegar henni fannst hún hafa náð meiri stjórn á sér. Þá tók hún á sig rögg, stóð upp úr sófanum og þreifaði eftir rofanum þar til hún fann hann. Það dugði samt skammt. Rafmagnið var farið. Að minnsta kosti heima hjá henni, ef ekki bara í öllu hverfinu. Sara fikraði sig varlega út að glugganum og dró gluggatjöldin frá. Það var skollinn á kafaldsbylur svo ekki sást húsa á milli. Þetta var einmitt svona veðurhamur sem rífur þakplötur af húsum svo þær þjóta stórhættulegar um bæinn og sneiða niður allt það sem fyrir verður. Sara velti því fyrir sér hvort rafmagnið hefði farið af öllu hverfinu en það sást týra í götuljósin í gegnum kófið svo það var greinilega bara húsið hennar sem hafði myrkvast. Þetta var svo sannarlega ekki í fyrsta sinn og í hvert skipti fór mamma niður í kjallarann þar sem rafmagnstaflan var og sló inn rofunum. Hún gæti auðvitað sagt Söru hvernig hún ætti að fara að. Sara fann símann, valdi númerið á deildinni eins hratt og hún gat og beið síðan. Ekkert gerðist. Síminn var dauður.
- Nei, nei, nei! heyrði Sara sjálfa sig segja og þetta var ekki röddin sem hún var venjulega með, heldur mun hásari og angistarfyllri.
Ískulda lagði í gegnum gólffjalirnar neðan úr kjallaranum og Sara fann gæsahúðina spretta fram. Henni varð litið niður en hún gat ekki svo mikið sem greint á sér tærnar í öllu þessu myrkri. Hún sá aftur á móti svolítið annað sem fékk hana til að hrökkva við. Á milli gólffjalanna glitti í ljós. En bara eitt andartak, svo var það horfið.

(s. 133-134)

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf

Lesa meira

Prinsessan á Bessastöðum

Lesa meira

Ballið á Bessastöðum

Lesa meira

Kirkegården

Lesa meira

Strandir

Lesa meira

Die letzte Nacht des Jahres

Lesa meira
urta

Urta

Urta segir í fáum orðum sögu af harðri lífsbaráttu á hjara veraldar.
Lesa meira