Beint í efni

Eplasneplar

Eplasneplar
Höfundur
Þórey Friðbjörnsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Barnabækur


Úr Eplasneplum:

Reykjavík, 8. febrúar

Komdu ævinlega blessaður og sæll, afi minn Bjössi! 

Ja, nú er það svart, maður! Heldurðu ekki að mamma mín og dóttir þín sé ekki bara ólétt! Ég legg nú ekki meira á þig! Hefurðu á ævi þinni vitað aðra eins vitleysu? Ég meina, hún er meira en þrjátíu ára! Enginn í mínum bekk hefur átt ólétta mömmu. Mér finnst þetta hræðilega neyðarlegt, afi.
    Ég veit sko alveg hvernig börn eru búin til, ég er nú ekki alvitlaus neitt. Mamma sagði mér það sjálf þegar ég var eitthvað fjögurra ára og Eyrún var í maganum á henni. Ég var nú svo lítill þá að ég hugsaði ekkert nánar út í það. En nú gegnir öðru máli. Nú vita allir sem sjá hana hvað þau pabbi hafa verið að gera, þegar við vorum sofandi og enginn
sá til. ég skil ekkert í því að ég skyldi ekki vakna! Þá hefði ég getað stoppað þetta af.
    En nú er það of seint. Þetta hlýtur að hafa gerst einhvern tíma þegar pabbi var í landi – ég meina, varla getur það hafa gerst þegar hann var úti á sjó! Mér datt bara aldrei í hug að þau gerðu svona – ég hélt að þau væru orðin allt of gömul til þess. Hvað
ég skammast mín rosalega, afi.
    Þetta uppgötvaðist fyrir tveimur vikum, þegar ég sagði si svona við mömmu, mjög vingjarnlega, hvort hún ætti ekki að borða aðeins minna nammi og meiri gulrætur. Hún horfði á mig steinhissa og skildi ekkert hvað ég var að meina. Ég svitnaði alveg, því einu sinni sagði Geirþrúður, kvikindislega vinkonan hennar mömmu, að það væri alveg
greinilegt að mamma væri öll að hlaupa í spik af því að vera alltaf svona í eldhúsinu. Og þegar hún var farin fór mamma að hágráta og ég ætlaði aldrei að geta huggað hana og svo drakk hún ekkert nema
grænmetisseyði í þrjá daga og harðneitaði að borða svo mikið sem brauðsneið.
    Ég hafði nú enga löngun til að kalla slíkt yfir heimilið aftur og vissi ekkert hvernig ég ætti að gera henni ljóst að hún væri að verða óþarflega feitlagin. Meir að segja buxurnar hans pabba voru orðnar þröngar á hana. Svo ég settist í fangið á henni, sem ég geri auðvitað bara þegar við erum ein heima, tók í höndina á henni og benti henni eins
fallega og ég gat á að með sama áframhaldi þyrfti hún bráðum tvö sæti í strætó. Svo hélt ég niðri í mér andanum, því ég var svo hræddur um að hún færi öll í rusl yfir að ég skyldi segja þetta.
    En nei, nei! Fer ekki mín bara að skellihlæja. Hún hló svo mikið að ég datt úr fanginu á henni og alla leið niður á gólf. Svei mér þá, ég hélt að hún væri orðið eitthvað undarleg. Hugsaði með mér að nú yrði pabbi bara að hætta snarlega á sjónum og vera meira hjá henni, svo hún lenti ekki bara á Kleppi eða eitthvað.
    En smám saman gat hún nú samt hætt að hlæja, varð næstum alvarleg í framan og sagði að hún væri alls ekkert feit, hún ætti bara von á nýju barni. Í sumar myndi ég eignast aðra systur eða kannski bróður. Mér varð svo mikið um, að ég gat ekki stunið upp einu einasta orði – lengi.  „Ertu ekki glaður?“ spurði mamma. 
„Ég get nú ekki sagt það,“ svaraði ég. „Heldurðu að verði ekki gaman að fá pínulítið kríli í húsið,“ sagði mamma og varð öll svona væmin í framan, „og þú verður stóri bróðir og getur passað það úti og ...“ 
„Ég veit nú alveg hvernig svona börn eru búin til,“ sagði ég og horfði á rendurnar í dúknum á eldhúsgólfinu.
    Mamma svaraði ekki alveg strax og þegar ég leit upp sýndist mér hún vera orðin svolítið rauð í framan. Þó hún skammaðist sín nú – að vera að auglýsa svona út úm allt! Hún hefur líklega ekki hugsað út í það hvað fólk myndi hugsa þegar það sæi að hún væri ólétt – næstum því gömul konan!
    „Það var nú gott Breki minn,“ sagði mamma
bara.
    „Já, mér finnst það nú dálítið dónalegt svona,“
sagði ég, ekkert smá sár.
     „Það er ekkert dónalegt við það hvernig hjón búa börnin sín til, Breki. Þegar þeim þykir vænt hvoru um annað, þá er það bara fallegt.“
    „Ég er nú ekki viss um að strákarnir í skólanum verði sammála því,“ sagði ég nú bara.
   Ég sagði náttúrlega engum lifandi manni frá þessu og þegar Konni, vinur minn, sem kemur svo oft til mín, fór að tala um að mamma mín væri orðin svo feit að það væri næstum eins og hún væri ólétt, flýtti ég mér að segja að það væri alveg hræðilegt hvað hún borðaði hryllilega mikið af gotteríi og svo fitnaði hún bara og fitnaði og hún ætti örugglega eftir að verða miklu feitari af þessu ofboðslega áti. Konni var alveg steinhissa á þessu.
    Ég er í miklum vanda staddur, afi Bjössi. Þetta bara má ekki fréttast, því strákarnir myndu stríða mér alveg endalaust. Ég er hættur að bjóða þeim inn til mín og fer heldur til þeirra. Ef mamma ætlar út í búð, flýti ég mér alltaf að bjóðast til að fara fyrir hana og þegar hún fer út í bíl, reyni ég alltaf að ganga fyrir framan hana, svo hún sjáist ekki af götunni. „Vertu ekki alltaf fyrir fótunum á mér, Breki!“ sagði hún um daginn.
    Hún skilur þetta engan veginn, afi. Það er næstum eins og hún sé stolt af þessu – hún situr við sjónvarpið og klappar maganum á sér og stundum talar hún við hann eins og hann væri lifandi. Ég hef nú aldrei séð fólk tala við magann á sér fyrr! Mér finnst þetta hreint ekki heilbrigt.
    Ég meina það, ég er í rusli alveg. Held ég steinhætti þessu tölvubréfi því ég er svo hroðalega fúll. Ég get víst aldrei litið framan í nokkurn mann!

Bless,
Breki

(s. 70-73)

Fleira eftir sama höfund

Ógnir fortíðar

Lesa meira

Kona án fortíðar

Lesa meira

Spegilsónata

Lesa meira

Stelpur í stuði

Lesa meira

Stjörnuhrap

Lesa meira

Vér unglingar

Lesa meira

Aldrei aftur

Lesa meira

Leiksoppur örlaganna

Lesa meira

Ísbarnið

Lesa meira