Beint í efni

Ellefu mínútur

Ellefu mínútur
Höfundur
Paulo Coelho
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Brasilísk stúlka elst upp í litlu þorpi en lætur sig dreyma um fjarlægar og meira spennandi slóðir, frægð og fé. Hún fer út í hinn stóra heim við fyrsta tækifæri sem býðst, fyrst til Rio en ákveður síðan að freista gæfunnar í Sviss. Þar dregur ýmislegt á daga hennar og fer svo að lokum að hún hittir fyrir menntaðan heimsmann, verður ástfangin – og svo er best að segja ekki meira. Þetta hljómar allt mjög kunnuglega, gæti verið efni í hvaða ástarsögu sem er, eða ævintýri, eða rómantískri Hollívúddkvikmynd. Ramminn um sögu Coelho er semsagt ákaflega einfalt ævintýri sem fylgir formúlunni sem slíkt. Enda hefst hún á orðunum "einu sinni var …" og sögumaðurinn er mjög meðvitaður um þetta form sögu sinnar.

Coelho notar síðan þennan ramma til að fjalla um söguefni sem hann segir að hafi leitað á huga hans lengi, áður en hann fann leið til að koma því á bók. Bókin fjallar um kynlíf, en titillinn vísar til þeirra ellefu mínútna sem það tekur (skv. athugunum söguhetjunnar) að hafa samfarir, þ.e. að svala líkamlegri kynferðisþörf. María, söguhetja bókarinnar, gerist vændikona í Genf en hún hefur ung gefist upp á ástinni, eftir (furðu) fá misheppnuð ástarsambönd og áralangar hugleiðingar um eðli ástarinnar og þá ekki síður karlmanna. Hún kemst að þeirri niðurstöðu þegar hún er vart komin af unglingsaldri að ástin sé ekkert fyrir sig og vænlegra sé að einbeita sér að eigin frama með því að reyna að leggja heiminn að fótum sér. Hún smíðar sér drauma um að verða fræg úti í heimi, koma síðan heim uppfull af frægðarsögum og uppskera aðdáun og öfund fólksins í heimabænum og eignast búgarð fyrir sig og foreldra sína. Coelho byggir söguna að hluta á viðtölum við konu sem stundaði vændi, en honum barst líka í hendur handrit að bók annarrar vændiskonu þar sem hún lýsir reynslu sinni. Það er þó ekki vændið sem slíkt, eða heimur vændiskvenna, sem er þungamiðja sögunnar, heldur fyrrnefnd stúdía á kynlífi og þá ekki síst leitin að því sem Coelho kallar sjálfur "heilagleika kynlífsins." En þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni, eða þar stóð sagan öllu heldur í mér.

Öll umfjöllunin um vændið og reynslu Maríu af því er einkennilega átakalaus, jafnvel þegar hún tekur þátt í sadómasókísku kynlífi með einum viðskiptavininum og fær fullnægingu þvert gegn eigin vilja og veit ekki alveg hvort þetta er hrein og tær reynsla eða niðurlæging. Reynsla hennar af vændinu, þótt annars ófullnægjandi sé kynferðislega, hefur dálítið "happy hooker" yfirbragð sem er afar ótrúverðugt, og mér fannst erfitt að horfa framhjá því, jafnvel þótt fyrrnefndur ævintýrarammi sé um verkið og vændið "eigi" ekki að vera til umfjöllunar sem slíkt, heldur hin spiritúalíska eða andlega leit sem Coelho er hugleikin í verkum sínum. Nú má auðvitað segja að ég sé að biðja um einhverja aðra sögu en þá sem ég er með í höndunum og geti þá bara lesið bækur eins og Þegar vonin ein er eftir eftir Jeanne Cordelier (Iðunn, 1979) sem er sönn saga vændiskonu og ekki mjög fögur lýsing. En eftir stendur að ef höfundurinn velur frásögninni þennan farveg, verður hann hluti sögunnar og maður væntir þess að tekist sé á við hann.

En svo ég fari nú að takast á við þessa sögu eins og hún er, þá er það sem sagt heilagleiki kynlífsins sem leitin beinist að. Nafn stúlkunnar, María, vísar meðal annars til þess að hún er bæði syndug en líka á einhvern hátt hrein og saklaus og verður ekki flekkuð þótt stundum láti nærri. Það má svo segja að hún hitti fyrir frelsara sinn í unga síðhærða listmálaranum og heimshornaflakkaranum sem ekki kann lengur að njóta kynlífs, en um leið verður hún líka frelsari hans og þau lærimeistarar hvors annars. Hann lætur hana meðal annars ganga berfætta á grjóti þar til fætur hennar eru blóðrisa en samband þeirra einkennist framan af nokkuð af meinlætahegðun og því að reyna að skapa einhvers konar tæra þrá með afneitun. Þráin beinist ekki síst að því að verða eitt í gegnum kynlífið, ná að yfirstíga þessar ellefu mínútur og öðlast hinn fullkomna samruna.

María er mikill hugsuður og textinn, sem er ýmist þriðju persónu frásögn söguhöfundar eða dagbókarkaflar hennar, er heimspekilegur og íhugull og það eru þessar vangaveltur, sem stundum eru í eins konar spakmælaformi, sem bera söguna uppi – vangaveltur um ástina, kynlífið, ástina í kynlífinu, ástleysið í kynlífinu, kynlífið í ástinni, þrá, fullnægingar og fullnægingarleysi, einsemd og samveru, eðli gjafarinnar og svo mætti áfram telja. Textinn er fallegur, beinskeyttur og stundum ljóðrænn í þýðingu Guðbergs Bergssonar sem einnig ritar stuttan eftirmála um Coelho sem mér þykir alltaf fengur að með þýddum verkum. Sagan er, þrátt fyrir vankantana, skemmtileg aflestrar og heldur manni vel við efnið, en hvort María finnur hamingjuna í ástinni og kynlífinu og allt fari vel að lokum, verður ekki gefið upp hér, sé það þá gert í sögunni.

Kristín Viðarsdóttir, nóvember 2004