Beint í efni

Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli

Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Skuggsjá
Staður
Reykjavík
Ár
1974
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:



Það, sem einum leyfist er hneykslanlegt í fari annars og almenningsálitið er óvægið, þegar það fellir sinn dóm. Tökum sem dæmi opinberan embættismann. Hvaða rétt hefur hann til að lifa lífinu á þann veg, sem honum sjálfum bezt líkar? Má hann drekka sig fullan? Leyfist honum að bjarga verðmætum frá tortímingu, ef þau eru í annarra umsjá? Má hann af einlægni segja hug sinn allan? Leyfist honum að eiga sér hjákonu? - Ýmsir munu segja að auðvitað megi maðurinn allt þetta. En samt sem áður er hann ekki frjáls og óháður öðrum og má ekki láta þetta eftir sér, því þá kemur almenningsálitið til skjalanna, hann er stimplaður sem fyllibytta og óhæfur til opinberra starfa, hann er talinn þjófur, á hann er litið sem gífuryrtan ofstækismann og bent er á hann sem hórkarl. Þetta yrði dómur almenningsálitsins, þess hæstaréttar, sem er öllum æðri og áhrifameiri. En þrátt fyrir allt ráða menn sjálfir á hvern hátt hvernig þeir verja lífi sínu, og það eru til menn, sem breyta að eigin geðþótta, án tillits til hins þunga dóms almenningsálitsins, - og séra Páll var einn þeirrar gerðar. Því fór sem fór.



Úr Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli:



Það er hægt að segja satt án þess að segja allan sannleikann. Auðvitað sagði ég biskupnum ekki allan sannleikann. Ykkur ætla ég hins vegar að segja allan sannleikann.



Mig minnir að ég hafi áður sagt ykkur frá því hver var ógæfa mín, og reyndar okkar Signýjar beggja. Það var kynkuldi okkar. Það var þessi kuldi sem varð til þess að hjónaband okkar varð óhamingjusamt.



Það var allur sannleikurinn sem ég sagði biskupnum um það hvernig mitt fyrsta hórdómsbrot bar að. Við það þarf því ekki neinu að bæta hér. Ég ætla þó að segja ykkur hver hún var þessi kona. Var, segi ég. Hún er dáin. Dó aðeins hálfu ári eftir okkar fyrsta fund, og það varð til að auka á óhamingjuna í hjónabandi mínu, því þegar hún var dáin þurfti ég annarrar með af ástæðum sem ég segi ykkur frá hér á eftir.



Hún hét Unnur. Meira þurfið þið ekki að vita þar um. Hún hafði tinnusvart hár og dimm augu sem ýmist voru svört þegar þau tindruðu, eða brún þegar hún var rórri.



Fyrsta samband okkar Unnar á kynlífssviðinu opnaði mér nýjan heim. Heim sem ég hafði ekki áður þekkt, svo frábrugðinn þeim heimi sem ég hafði lifað í og lifði í að hluta.



Svo lítilfjörlegt sem það má virðast var þessi nýi heimur eingöngu sá að hafa samræði við konu sem vildi og þurfti að hafa samræði. Þvílík upplifun. Að hafa í fangi sér mannveru, sem naut þess sem ég gerði. Ég, sem ekki gat vakið eiginkonu mína. Ég, sem aldrei hafði fundið manneskju þurfa mín við líkamlega og andlega í senn, hafði fundið konu sem sannarlega þarfnaðist mín; konu sem ég þarfnaðist ekki síður; konu sem kunni þá list að gera tvö að einu, en þó hvort fyrir sig og sjálft.



(s. 42-43)


Fleira eftir sama höfund

Sódóma - Gómorra

Lesa meira

Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann

Lesa meira

Þrjár sólir svartar

Lesa meira

Syngjandi fiskur

Lesa meira

Á fullu tungli

Lesa meira

Hrapandi jörð: Skáldsaga um Tyrkjaránið

Lesa meira

Rauð mold: Skáldsaga um Íslendinga í Barbaríu

Lesa meira

Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar

Lesa meira

Átt þú heima hér?

Lesa meira