Beint í efni

Hrapandi jörð: Skáldsaga um Tyrkjaránið

Hrapandi jörð: Skáldsaga um Tyrkjaránið
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Almenna bókafélagið
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:



Miskunnarlaust Tyrkjaránið, ferðin suður í Barbaríið og nýtt líf í framandi heimi er meginviðfangsefni þessarar áhrifamiklu skáldsögu. Fylgst er með afdrifum nokkurra sögupersóna sem kippt er út úr íslensku brauðstriti og kastað inn í óvissu, myrkur og þjáningar. Þegar suður í Barbaríið er komið fer hins vegar að birta til í lífi margra þeirra og dragast nokkrar persónurnar inn í undarlega atburðarás þar sem að baki liggja stórpólitísk átök við sunnanvert Miðjarðarhaf.



Hrapandi jörð er söguleg skáldsaga eins og þær gerast bestar og má glöggt sjá að mikil heimildavinna liggur að baki verkinu, enda hefur höfundurinn, Úlfar Þormóðsson, margsinnis dvalist í Norður-Afríku við rannsóknir.



Úr Hrapandi jörð:



Jón Ásbjarnarson var fluttur óbundinn upp í bæinn, farið með hann í kastala og skipað í kerlaug. Meðan hann þó sér tóku verðir leppana sem hann hafði verið í, handléku, fýldu grön og gerðu grín með þá áður en þeir fleygðu þeim afsíðis. Að loknu baðinu voru honum fengin ný klæði sem voru hvít skyrta og víðar, samlitar brækur, einnig svartur lindi og var honum kennt að vefja hann um sig og festa. Loks var hann færður í skó með leðurþvengjum sem hnýttir voru yfir ristina. Undir þeim var þykkur sóli úr nautshúð. Þegar hann var kominn í skóna kunni hann naumast að ganga; komst þó áfallalaust þangað sem flíkur hans lágu, fann boldangið og setti inn á sig. Verðirnir létu það afskiptalaust.



Þessu næst var Jón færður í annan sal sem var opinn upp úr. Þar voru tveir menn í lökum, lágu á bekkjum og sváfu. Framan við þá var stórt matarfat hlaðið og bentu verðirnir honum á að fá sér að eta. Hann hafði litla lyst en teygði sig þó eftir fíkju. Þá var hann sleginn á handarbakið og sagði sá sem sló:



,,Ódráttur geturðu verið!“



Jóni varð allmikið um en hélt þó fíkjunni. Mennirnir settust samtímis fram á og voru þá báðir glaðvakandi. Þeir mældu hver annan út góða stund allir þrír. Loks sagði sá sem slegið hafði:



,,Fari í helvíti ef þetta er ekki eftirmynd af Ólafi Þorbjarnarsyni úr Grindavík.“



Þá mælti hinn sem á bekknum sat:



,,Náðarfullur drottinn fyrirgefi þínum þverbrotna huga og miskunni sig yfir þig fyrir að taka svona til orða, drengur.“



Jón Ásbjarnarson sagði:



,,Fari ég þá í logana líka ef þetta eru ekki bræðurnir Jón og Helgi sem mér eru í barnsminni, ættaðir frá Járngerðar stöðum í þeirri sömu sveit og Ólafur Þorbjarnarson býr.“



Helgi mælti:



,,Ertu þá Þorbjörn Ólafsson eða förum við báðir fjandans til?“



Jón svaraði:



,,Ég var hann en fyrir margháttaða duttlunga guðs og manna er ég nú Jón Ásbjarnarson.“



Eftir það sögðu þeir ekkert langa stund og horfðust á þar til Efri Jón neri augun, sló saman fingrum, laut höfði og sönglaði:



,,Ég þakka þér með þögninni, þú sem dásemdarverkin gerir, því ég á ekki eitt einasta orð!“



Síðan tóku þeir til matar síns.



(s. 219-220)


Fleira eftir sama höfund

Sódóma - Gómorra

Lesa meira

Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann

Lesa meira

Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli

Lesa meira

Þrjár sólir svartar

Lesa meira

Syngjandi fiskur

Lesa meira

Á fullu tungli

Lesa meira

Rauð mold: Skáldsaga um Íslendinga í Barbaríu

Lesa meira

Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar

Lesa meira

Átt þú heima hér?

Lesa meira