Beint í efni

Sódóma - Gómorra

Sódóma - Gómorra
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1964
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:



Hinn ungi guðfræðingur og svallari, Sigmar, er haldinn beiskju við tilveruna og stundar skemmtanalíf borgarinnar af meiri kostgæfni heldur en guðfræðinámið. Æskuvonbrigði í ástum valda því, að hann hefir konur að leiksoppi, dýrkar gleðilausar ástir. Samt trúir hann á ástina, og verður skyndilega ástfanginn af ungri dularfullri stúlku, sem Védís heitir. Sú stúlka reynist honum hins vegar ofjarl og sagan fær óvæntan endi.



Reykjavík hefur öðlazt stórborgarlíf, þó að saga þess hafi lítið verið skrifuð. Eins og nafnið bendir til fjallar Sódóma og Gómorra um ýmsar hinar óhugnalegri hliðar borgarinnar. En sagan er bæði spennandi og trúverðug í einstökum lýsingum. Hún bregður upp hröðum skýrum myndum af hátterni og tali ungs fólks, sem hefir í bili glatað trú á heiminn og leitar tilgangs í skyndiástum og drykkju, en varðveitir þó nægilegt sakleysi og trúnaðartraust til að öðlast líftrú - eða láta blekkjast.



Sigmar og Védís eru lifandi nútímapersónur, sem vert er að kynnast, og saga þeirra öðrum þræði reifaraleg eins og lífið er einatt sjálft.



Úr Sódóma-Gómorra:



Sigmar gat ómögulega sofnað. Hann sat á rúmstokknum og reykti. Hann var uppgefinn. Það var hann alltaf eftir að þessi kom í heimsókn. Hún var hlaðin furðu mikilli orku, svo mikilli að hann hafði aldrei kynnst öðru eins: Að loknum þrem umferðum varð hún að snúa rassinum í hann til að geta sofnað, annars vildi hún meir.



En hún var líka lagin, skrambi lagin. Hún veitti honum slíkan unað að hann gæti seint slitið sig frá henni að fullu. Þó var hún hreint voðalega heimsk.



Mynd Védísar skaut upp í huga hans.



- Var hann þá ekki meiri maður en þetta? Voru þær breytingar, sem orðið höfðu á honum, ekki djúpstæðari en svo, að hann gæti látið hana nægja? Gæti hann virkilega ekki losað sig úr viðjum fortíðarinnar með hana sér við hlið? Hann varð að sýna meiri einurð, meiri festu og trúmennsku þeirri von að þau yrðu fullkomlega hamingjusöm. Hann hlaut að gera það. Allt yrði svo hreint og fagurt þeirra á milli.



Grár, dökknandi skuggi, færðist yfir hann hið innra, hægt en bítandi. Athafnir kvöldsins birtust honum í nýju ljósi. - Þetta var það - . Hann fylltist viðbjóði á sjálfum sér, ógleðitilfinning greip um sig, djúp fyrirlitning steig úr iðrum vitundarinnar; fyrirlitning á öllu hans lífi. - Svona hafði það verið. Ekkert annað en kynmök. Einn kvenmaður í dag, annar á morgun. Hann hafði haldið að það væri í rauninni hið ljúfasta líf en nú fann hann hvursu ómerkilegt það var. Það lá ekkert á bak við þetta; það skildi aldrei neitt eftir. Fullkomnunin lá ekki í yfirferðinni, heldur í því sem eftir stóð. Og hvað var nú eftir? Ekkert. Ekkert nema viðbjóðurinn á honum sjálfum.



(s. 61-62)


Fleira eftir sama höfund

Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann

Lesa meira

Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli

Lesa meira

Þrjár sólir svartar

Lesa meira

Syngjandi fiskur

Lesa meira

Á fullu tungli

Lesa meira

Hrapandi jörð: Skáldsaga um Tyrkjaránið

Lesa meira

Rauð mold: Skáldsaga um Íslendinga í Barbaríu

Lesa meira

Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar

Lesa meira

Átt þú heima hér?

Lesa meira