Beint í efni

Rauð mold: Skáldsaga um Íslendinga í Barbaríu

Rauð mold: Skáldsaga um Íslendinga í Barbaríu
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Almenna bókafélagið
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:



Rauð mold er söguleg skáldsaga, sjálfstætt framhald af Hrapandi jörð sem fjallar um Tyrkjaránið og ferð hinna herleiddu Íslendinga suður. Í Rauðri mold er lýst lífsbaráttu Íslendinganna í þessum nýja veruleika; persónurnar heyja harða baráttu við andsnúin yfirvöld, veita lífi sínu nýjan og ókunnan farveg og kljást við ágenga heimþrá. Og á sama tíma taka Íslendingar þátt í heiftugum átökum í æðstu stjórn hins nýja heimalands. Samhliða meginfrásögn bókarinnar eru raktar ævintýralegar örlagasögur sem fléttast listilega saman við söguþráðinn og mynda sterka heild sem er í senn spennandi, fróðleg og sveipuð suðrænni dulúð.



Úr Rauð mold:



Jóni var óhægt um mál og Guðríður talaði ekki á meðan þau settust og hvorugt þeirra þegar dvergurinn Svarthöfði kom inn með te á bakka og smáar kökur. Þegar hann var farinn sagði hún:



,,Það er gott að vita af því hér, smáfólkinu.“



Jón mælti:



,,Árin hafa farið vel með þig, Guðríður!“



,,Utan það að Sölmundur er farinn og Eyjólfur litli andaður,“ sagði hún og kunni Jón þá ekkert að segja.



Þögðu þau svo drjúga stund þar til Guðríður sagði:



,,Mig langar að skrifa heim!“



Aftur var þögn því enn fann Jón engin orð.



Guðríður mælti:



,,Kannski var það vegna þess að mér var bent hingað að ég fór til Jóns Jónssonar úr Grindavík eins og svo margir sem naumast eru skrifandi en vilja senda orð heim, því heim er það þangað norður og verður alltaf þykir þeim og mér og mörgum. Jón Jónsson skrifaði upphaf að bréfi fyrir mig. Það var prýðilega gert en að mestu með hans lagi þótt þar megi finna orð og orð sem ég lét falla. En þegar að því kom að segja honum fyrir það sem ég ætlaði, þráði og þurfti gat ég ekki talað það frammi fyrir honum og er ekki hans sök sem er hreinlyndur maður og velviljaður eins og þú getur séð af þessari byrjun á bréfi sem hann afhenti mér.“



Guðríður þagnaði og rétti Jóni nær fullskrifaða örk. Bréfið var vel ritað. Samt sem áður sóttist Jóni lesturinn hægt og hafði ekkert til mála að leggja að honum loknum en rétti disk með kökum að Guðríði og bauð henni. Hún afþakkaði og sagði:



,,Maður sem vel mátti vita sagði mér að þú hafir þekkt margt til mín og þagað lengi. Vegna þeirra orða hans er ég hingað komin að biðja þig að draga upp úr mér það sem ég þarf að segja en vil ekki skýra frá, skrá það niður og gera úr því bréf og senda það áleiðis til míns ektamaka eftir þeim leiðum sem þú veist bestar.“



Guðríður þagnaði, dró ytra klæðið saman um brjóstið með fingrum vinstri handar og hélt dúknum þannig á meðan hún teygði sig eftir kökudisknum með hægri hendi, sagði og hafði þá annan róm en áður:



,,Og þægi nú smábrauðið sem losar um málbeinið í mér ef að vanda lætur, hafi hún Yamna mín hnoðað í það eins og mér sýnist og segir hugur um.“



,,Hún á deigið og hefjumst handa,“ sagði Jón þegar hann greindi veðrabrigðin í rödd Guðríðar.



(s. 122-123)


Fleira eftir sama höfund

Sódóma - Gómorra

Lesa meira

Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann

Lesa meira

Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli

Lesa meira

Þrjár sólir svartar

Lesa meira

Syngjandi fiskur

Lesa meira

Á fullu tungli

Lesa meira

Hrapandi jörð: Skáldsaga um Tyrkjaránið

Lesa meira

Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar

Lesa meira

Átt þú heima hér?

Lesa meira