Beint í efni

Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar

Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur


Af bókarkápu:



Í þessari stórbrotnu og vönduðu skáldsögu um ævi Hallgríms Péturssonar er dregin upp ógleymanleg mynd af manninum, skáldinu og prestinum. Í lífi Hallgríms skiptast á stórir sigrar og djúpar sorgir; yfir og alltumkring er andrúmsloft 17. aldar, þrungið galdrafári. Barátta Hallgríms við Guð, ástir hans og Guðríðar, sár dótturmissir og fæðing Passíusálmanna er meðal þess sem fjallað er um á síðum bókarinnar. Hallgrímur er einstök söguleg skáldsaga um einstakan mann sem þjóðin hefur elskað og dáð í aldaraðir.



Úr Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar:



Biskupinn stakk hendi hugsi inn í rauðan skeggflókann, leit undan, klóraði sér varfærnislega og talaði lágt þegar hann sagði:



,,Mig dreymir um að koma á fót prentsmiðju á staðnum og láta setja saman ritverk um fornan norrænan átrúnað, koma upp handritasafni svo hægt sé að rækta þau fræði hér innanlands sem engir eru betur fallnir til að stunda en við og leggja þannig grunn að íslensku menntasetri sem umheimurinn hefur ekki hjá að taka tillit til, fylgjast með og hlusta á.“



,,Hefurðu komist til botns í því hvaðan sálin er sprottin og hvað verður um hana þegar líkaminn leysist í sundur?“ spurði Hallgrímur og kryddaði róminn með ertni.



,,Trúin veitir mér von um vissu, eins og ég nefndi einhvern tíma,“ sagði biskupinn án þess að svara.



Þeir þögðu báðir.



,,Þetta eru varla samræður hjá okkur,“ sagði Hallgrímur.



Aftur þögðu þeir.



,,Við tölum í sundur,“ bætti hann við síðar.



Eftir það sögðu þeir ekkert þar til Hallgrímur hafðist ekki lengur við í þögninni, talaði lágt og fannst sjálfum eins og hann væri að stagla:



,,Áður hélstu því fram að það þyrfti trú til að öðlast trú; trú hæfist á von um trú og endaði á trú um von. Þú hafðir einnig ...“



,,Við heyrum sönginn í sólskríkjunni en við sjáum hann ekki,“ tók biskupinn fram í fyrir Hallgrími, ,,og ég held ekkert annað um sálina nú en ég hélt þegar ég sagði þér hug minn ytra. Af minni hálfu er spurningum þeirra daga enn ósvarað; en þær vaka stöðugt í mér. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að það er ekki við hæfi, eins og fyrir mér er komið, að ég taki til við að sundurgreina kristindóminn líkt og við gerðum ungir menn á valdi vísindanna. Þar af stafar minn tómleiki, þar af sprettur þörf mín fyrir drauma. Þetta er gjald sem ég reyndi að færast undan að greiða. Mínir hlekkir.“



,,Allt heimsins glysið, fordild fríð, fergurðarprjál og skraut, fallvalt, meinslysið, fyrr og síð flestöllum reynast hlaut,“ sagði Hallgrímur þegar biskupinn hafði þagað um stund. Brynjólfur virtist ekki heyra það því að hann tók aftur til máls og fór að tína upp þau fræði sem hann gæti stundað, rak svo skyndilega í vörðurnar, leit framan í Hallgrím og spurði:



,,Var hún ort til mín?“



,,Hver þá?“ spurði skáldið.



,,Flærðarsenna,“ svaraði biskupinn.



,,Þeir segja það á Suðurnesjum að ég hafi ort hana eftir að ég var svikinn um lýsiskút sem mér hafði verið lofaður,“ svaraði Hallgrímur.



,,Og er það svo?“ spurði biskupinn.



,,Ekki umfram annað,“ svaraði skáldið af fullri hreinskilni.



(s. 318-320)



 


Fleira eftir sama höfund

Sódóma - Gómorra

Lesa meira

Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann

Lesa meira

Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli

Lesa meira

Þrjár sólir svartar

Lesa meira

Syngjandi fiskur

Lesa meira

Á fullu tungli

Lesa meira

Hrapandi jörð: Skáldsaga um Tyrkjaránið

Lesa meira

Rauð mold: Skáldsaga um Íslendinga í Barbaríu

Lesa meira

Átt þú heima hér?

Lesa meira