Beint í efni

Elías á fullri ferð

Elías á fullri ferð
Höfundur
Auður Haralds
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1985
Flokkur
Barnabækur

Myndir eftir Brian Pilkington

Um bókina

Elías og foreldrar hans eru enn í Kanada. Magga móða er gift Misja og sest að á hæðinni fyrir ofan í blokkinni. Og það, segir pabbi Elíasar, var ekki það sem hann hugsaði sér þegar hann flúði frá Möggu alla leið til Kanada.
   Það sem pabba þykir best af öllu er friður. En það er aldrei friður.
   Fyrst skellur yfir þau gestaplága svo skæð, að mamma og pabbi eru að hugsa um að flýja að heiman. Elíasi tekst að hrekja gestapláguna burtu, að vísu með nokkuð grófum ráðum.
   Til að ná sér eftir gestina ákveður pabbi að fara í útilegu. Í náttúrunni er nefnilega grænn friður, sem er ennþá betri en venjulegur heimilisfriður.
   Og þetta hefði getað orðið friðsamleg útilega ef Magga og Misja og flautan hans hefðu ekki komið með. Því þá hefðu þau ekki hitt dansandi björninn.

Úr bókinni

   Dyrabjallan hringdi grimmdarlega klukkan ellefu morguninn eftir. Þá hafði mér verið farið að leiðast svo heiftarlega, að ég var að ryksuga stofuna. Ég snaraði mér fram og opnaði.
   Fyrir utan stóð kona með ferðatösku í annarri hendinni og strák í hinni. Hún var að hrista strákinn þegar ég opnaði. Svo hætti hún að hrista hann, sennilega af því að hún sá annan strák í dyrunum sem hana langaði að hrista.
   "Ert þú þessi Elías?" spurði hún fyrtin.
   "Góðan daginn og velkomin," sagði ég með áherslu. "Þú hlýtur að vera Guðlaug."
   "Auðvitað," gargaði konan og gekk yfir mig inn með strákinn og töskuna í eftirdragi. Hún sleppti báðum á gólfið og strákurinn byrjaði að æpa. Taskan þagði, sem betur fer.
   "Hvar er mamma þín?" spurði Guðlaug með sömu frekjulegu röddinni.
   "Hún er í vinnunni, en kemur rétt strax," sagði ég og tók eftir að Guðlaugu fannst þetta ekki góður dagur, allavega ekki nógu góður til að nefna það við mig.
   "Í vinnunni?!" gargaði hún. "Í vinnunni!!! Ekki nóg með að maður er ekki sóttur á flugvöllinn, heldur verður maður að berjast hingað aleinn með farangur og börn í ókunnu landi, fólk er bara í vinnunni þegar maður kemur!!!"
   Hún var greinilega hneyksluð á þessu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að vera kurteis við þessa konu áfram. Mér fannst hún ekki vera neitt kurteis sjálf. En svo þótti mér ekki ástæða til að vera dóni þó hún væri það, svo ég sagði rólega:
   "Það stóð í bréfinu að þú kæmir á sunnudeginum. Við vorum úti á flugvelli allan sunnudaginn."
   Það var ekki satt, en eins og mamma segir, það sem maður veit ekki gerir manni ekkert illt. Og það þurfti rétt aðeins að setja ofan í við þessa Guðlaugu. En tók hún þetta nærri sér? Aldeilis ekki, því næst gargaði hún:
  "Voðalegur dóni ertu, drengur. Hér kemur maður alla leið frá Íslandi og þér dettur ekki einu sinni í hug að bjóða manni vatnsglas." Og svo fussaði hún.
   "Má bjóða þér vatnsglas?" spurði ég.
   "Vatnsglas!!! Er það allt sem manni er boðið?" æpti hún upp yfir sig.
   Hvernig átti ég eiginlega að gera þessari konu til hæfis?

(s. 20-21)

Fleira eftir sama höfund

hvað er drottinn að drolla?

Hvað er drottinn að drolla?

Miðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á 14. öld. 
Lesa meira
hlustið þér á mozart?

Hlustið þér á Mozart? Ævintýri fyrir rosknar vonsviknar konur og eldri menn

Rósemi Lovísu verkar sem fyrirboði, gamla konan fær ónot í magann, hana langar ekki að heyra meira, en hún verður.
Lesa meira
litla rauðhærða stúlkan

Litla rauðhærða stúlkan

Hér er stutt saga af lítilli rauðhærðri stúlku sem skrifuð var af Auði Haralds í samstarfi við Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur sem er höfundur myndefnis.
Lesa meira
læknamafían

Læknamafían : Lítil pen bók

Mér líður eins og perlumóður, ég á að halda áfram að safna steinum.
Lesa meira
hvunndagshetjan

Hvunndagshetjan : Þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn

Ég var orðin einstæð móðir án þess að taka eftir því.
Lesa meira
ung, há, feig og ljóshærð

Ung, há, feig og ljóshærð

Uss, það er enginn vandi að skrifa ástarsögu.
Lesa meira
Elías

Elías

Hún hafði náð í sérstaklega harðgert gaddavírsgarn og búið til eins konar húfu. Húfan var hauspoki með tveim hnappagötum fyrir augun.
Lesa meira
elías, magga og ræningjarnir

Elías, Magga og ræningjarnir

Bankastjórinn kom og ætlaði að þakka henni fyrir að bjarga bankanum og Magga skammaði hann bara fyrir að hafa svona banka þar sem fólk þyrfti að nota byssu til að fá afgreiðslu.
Lesa meira
elías í kanada

Elías í Kanada

Á veggjunum í ganginum og eldhúsinu mjökuðstu sniglarnir mínir upp og niður og þreifuðu fyrir sér með fálmurunum. Alveg hafði ég steingleymt þeim þegar ég kom heim kvöldið áður. Um nóttina höfðu þeir svo skriðið upp úr bakpokanum og voru ennþá að leita að góðum steini til að búa á.
Lesa meira