Beint í efni

Hundrað ára einsemd

Hundrað ára einsemd
Höfundur
Gabriel García Márquez
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1978
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Cien anos de soledad eftir Gabriel García Márquez í þýðingu Guðbergs Bergssonar.

Úr Hundrað ára einsemd

Á meðan Aurelíano Búendía liðþjálfi stóð andspænis aftökusveitinni átti hann eftir að minnast löngu liðna kvöldsins, þegar faðir hans leiddi hann sér við hönd og sýndi honum ísinn. Macondo var þá smáþorp með tuttugu húsum úr leir og pálmafléttum, reist á bökkum bergvatnsár sem streymdi um farveg risastórra hvítra sorfinna steina, í lögun eins og egg fugla frá forsögu mannsins. Heimurinn var svo spánnýr að ýmsu hafði ekki enn verið gefið nafn, og nauðsynlegt var að benda fingri á hlutina, væri vísað til þeirra. Ár hvert reisti tötraleg sígaunafjölskylda sýningartjald skammt frá þorpinu og kunngerði nýjustu uppfinningar sínar með háværu flauti og bumbuslætti. Sígaunarnir komu fyrst með segulstálið. Þrekvaxinn sígauni með úfið skegg og hendur líkar spörfuglsklóm kynnti sig með nafninu Melkíades og boðaði stærilátur almenningi það, sem hann áleit vera áttunda furðuverk gullgerðarmannanna vitru frá Makedóníu. Sígauninn dröslaði á milli húsa tveim heljarstórum járnklumpum. Fólk fylltist skelfingu þegar pottar, föt, tangir og glóðarker færðust úr stað, en viðurinn marraði við örvæntingarfull átök nagla og skrúfna sem rembdust við að losna. Meira að segja löngu týndir hlutir skutu upp kollinum, þar sem þeirra hafði verið leitað mest og skreiddust með skrykkjum á eftir undrajárni Melkíadesar. “Sérhver hlutur er gæddur sínu sjálfstæða lífi,” tónaði sígauninn hrjúfum rómi “vandinn er að vekja sál hlutanna.” Jose Arcadío Búendía var gæddur því taumlausa ímyndunarafli, sem nær ævinlega lengra en snilld náttúrunnar, jafnvel töluvert lengra en kraftaverk og galdrar. Þess vegna gerði hann sér í hugarlund að nota mætti einskisverða uppfinninguna til þess að draga gull úr jörð. Melkíades var mesti sómamaður, og hann sagði til viðvörunar: “Klumparnir koma að engu gagni við námugröft.” Á þessum tímum hafði Jose Arcadío Búendía enga trú á að sígaunar ættu til heiðarleika. Hann lét þess vegna múlasna í skiptum fyrir segulstálin og bætti kaupin með nokkrum geithöfrum. Eiginkonan hét Úrsúla Ígúaran. Hún hafði treyst því að dýrin gætu bætt auman fjárhag heimilisins, en fékk engu ráðið. “Bráðum eignumst við nægilegt gull til að flísaleggja húsið,” sagði eiginmaðurinn. Mánuðum saman lagði hann á sig ærið erfiði og reyndi að sanna að tilgáta hans hafi verið rétt. Hann rannsakaði héraðið fet fyrir fet, meira að segja árfarveginn líka, dró járnklumpana eftir fljótsbotninum og kyrjaði hástöfum særingar Melkíadesar. Ekkert hafðist upp úr krafsinu, annað en stokkryðguð brynja frá fimmtándu öld, og þegar hún var hrist, glumdi í henni eins og stóru graskeri fullu af grjóti. Jose Arcadío Búendía heppnaðist með hjálp aðstoðarmanna sinna að lima brynjuna sundur, og fannst í henni kölkuð beinagrind með koparnisti um hálsinn, í því var hárlokkur konu.

(s. 7-8)

Fleira eftir sama höfund

Saga af sæháki...

Lesa meira

Frásögn um margboðað morð

Lesa meira

Ástin á tímum kólerunnar

Lesa meira

Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu

Lesa meira

Um ástina og annan fjára

Lesa meira

Liðsforingjanum berst aldrei bréf

Lesa meira