Beint í efni

Land næturinnar

Land næturinnar
Höfundur
Vilborg Davíðsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Í Landi næturinnar leiðir Vilborg Davíðsdóttir leiðir lesendur í ævintýraför á slóðir víkinga í Austur-Evrópu. Sagan hefst þar sem þræðinum sleppir í bókinni Undir Yggdrasil.

Eftir harmleik heima á Íslandi heldur Þorgerður til Noregs þar sem örlögin leiða hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs Eyvindarsonar frá Jamtalandi. Saman halda þau í kaupferð til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja.

Úr bókinni

Hólmgarður stendur á lágum höfða á eystri bakka Volkhov, rétt neðan við upptök fljótsins í feiknastóru Ilmenvatninu, djúpbláu af heiðum himninum sem speglast í vatnsflæminu. Líkt og í Aldeigju og Eikarlundi er skíðgarður umhverfis virkið, reistur uppi á háum steinvegg, og varðturnar gnæfa yfir. Þorgerður hafði gert ráð fyrir því að byggðin væri á eyhólma líkt og nafnið gefur til kynna en þegar hún furðar sig á þessu bendir Tuhkuri henni á litla eyju nokkru sunnar og nær vesturbakkanum, svo lítt áberandi að hún hefði vart tekið eftir henni ella.
   "Hólminn helgi er þarna, þar sem þverárnar tvær og Volkhov koma saman út í Ilmen," segir hann. "En virkishæðin er raunar iðulega umflotin vatni á alla vegu þegar árnar brjóta af sér ísinn og flæða yfir bakkana í vorleysingunum; það eru þverár beggja vegna sem þú sérð ekki héðan fyrir trjánum, mýrar og fen allt í kring, og því auðvelt að verjast árásum."
   "Hólminn helgi?"
   Hann kinkar kolli. "Blótgyðjur Rúsa eiga þar vé sín. Enginn má stíga fæti í hólmann utan hofgyðjan ein og þeir sem sverja jarlinum hollustu í nafni Várar."
   Rúsarnir tigna Vár framar öðrum ásynjum og hún helgar trúareiða þeirra en annað veit Þorgerður ekki um þessa gyðju, hefur ekki heyrt hana nefnda fyrr en Tuhkuri skýrði fyrir þeim með nafni hennar af hverju liðsmenn í virkisgörðunum kallast væringjar. Herská hlýtur hún þó að vera, ólíkt Freyju, og grimmúðug af því að dæma; væringjarnir eru miklir vígamenn og að því er Kirjálinn segir eru engir jafnokar þeirra í bardaga, engir óvinir miskunnarlausari. Þorgerður þreifar eftir litla líkneskinu sem hún ber um hálsinn, mynd vanadísarinnar, steyptri úr gulli, með framrétt horn í hendi, gyðju frjósemis og nýs lífs. Það er orðið langt síðan henni gafst síðast tóm til að sýna Freyju virðingu, hún á enn eftir að færa fram þakkir fyrir barnsvonina. Hún brosir með sjálfri sér og lítur til Herjólfs sem situr undir árum á móti brytanum miðskips, klæddur þunnri skyrtu og línbrókum í sólarhitanum líkt og aðrir skipsverjar. Dökkt hárið er tekið í tagl, svitaperlur á háu enninu, andlitið sólbrúnt. Og þó má kannski segja að þau hafi glatt vanadísina í skógarlundinum ofan Aldeigju kvöldið fyrir brottförina. Hann horfir um öxl sér til lands, að bryggjunni sem skagar út í lygnt fljótið neðan byggðarinnar, en virðist skynja tillit hennar því hann snýr sér fram á ný og brosir til hennar, glampi í augunum því líkast hann hafi lesið í hug hennar.
   Kirjálinn við stýrið snertir öxl Þorgerðar, óvænt svo að hún hrekkur við. "Láttu vatnið ganga hingað," segir hann.
   Hún réttir honum leðurpyttluna og Tuhkuri teygar stórum svo að vatnið drýpur úr munnvikunum niður í skollit skeggið. "Það varður ágætt að komast nú í land og fá eitthvað sterkara en blávatnið til að væta kverkarnar." Hann þurrkar sér um munninn með handarbakinu og fær henni pyttluna aftur. "Fylltu á hana og láttu ganga aftur á; ræðarana þyrstir vafalaust ekki síður. Og gleymdu ekki Sampo." Litli markötturinn stekkur til hennar og skrækir biðjandi þessu til áréttingar.
   Þorgerður hlær við. Þeim er orðið vel til vina á vikulangri siglingunni upp Volkhov. "Þú færð líka að drekka, bíddu rólegur!"

(s. 54-56)

Fleira eftir sama höfund

Vígroði

Lesa meira

On the Cold Coasts

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira

Die Winterfrau

Lesa meira

Eldfórnin

Lesa meira

Undir Yggdrasil

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira

Felustaðurinn

Lesa meira