Beint í efni

Málverkið

Málverkið
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Um Málverkið:

Sumarið 1944 geysar illvígt borgarastríð á Ítaíu þar sem hersveitir Mussolinis og Hitlers berjast við sóknarheri Bandamanna og ítalska skæruliða. Yfirfull lest á norðurleið frá Róm verður fyrir sprengju og íslenski myndlistamaðurinn Kristín Jónsdóttir bjargast við illan leik heim á búgarðinn San Martino í Toskana. Enska húsfrúin, Marchesa Alice Orsini, lætur hlynna að henni eins og öðrum flóttamönnum sem þar leita skjóls meðan hún bíður sjálf eftir því að bóndi hennar snúi aftur. Alice veit ekki betur en að koma Kristínar sé tilviljun, en raunar á Kristín einmitt erindi á þennan stað ...

Úr Málverkinu:

Þjóðverjarnir komu með málverkið í byrjun apríl.

Það hafði snjóað af og til vikum saman og snjókoman hélt áfram eftir að páskahelgin gekk í garð. Greinar trjánna í garðinum svignuðu undan fannferginu og sérhvert kennileiti hvarf í dalnum, allt varð eins og undir hvítri voðinni. Vegirnir urðu ófærir, bæði til Montepulciano og Chianciano, og pósturinn lét ekki sjá sig dögum saman. Rafmagnið fór af svo við urðum að láta okkur nægja kertaljós og bjarma frá eldinum sem logaði allan daginn í sérhverjum arni því það var kalt og napurt, sérstaklega þegar blés. Það blés ekki alltaf, dögum saman var logn, en svo kom vindurinn fyrirvaralaust yfir dalinn frá Monte Amiata og þyrlaði upp snjónum og lokaði okkur inni í húsunum. Fattore og Signorina Harris lentu í stórhríð þegar þau voru á leið frá einni hjáleigunni þar sem kona hafði tekið sótt og minnstu munaði að þau villtust af leið. Það var líka hægara sagt en gert að koma matvælum og öðrum nauðsynjavörum niður hlíðina til barnanna og fólksins sem sér um þau, en það hafðist og suma daga tókst okkur meira að segja að flytja börnin hingað upp eftir til okkar. Þau réðu sér ekki fyrir kæti og vildu helst leika sér úti í snjónum, dauðleið á inniverunni þótt Schwester Marie og kennarinn leggðu sig auðvitað fram um að stytta þeim stundir. Við byggðum með þeim snjóhús og bjuggum til snjókarla og einn daginn sáu börnin kanínu koma hoppandi úr limgerðinu og yfir garðinn næst húsunum. Þau hlupu á eftir henni og náðu henni og fóru meðh ana inn í eldhús. Greyið var auðvitað dauðhrædd en við gáfum henni að éta og ákváðum að taka hana að okkur því börnin höfðu svo mikið yndi af henni.

Á páskadag var uppstytta. Söfnuðurinn byrjaði að streyma í kirkjuna snemma morguns og það gladdi hjartað að finna eininguna í þessu litla húsi. Kirkjan tilheyrir Chianciano en er nær okkur, ekki nema steinsnar niður veginn í dalnum. Kotbændurnir sem höfðu margir hverjir skotið skjólshúsi yfir liðhlaupa og særða hermenn mánuðum saman, lagt líf sitt í hættu fyrir þessa menn sem þeir þekktu ekki, hikuðu nú ekki við að koma með þá með sér og sitja við hliðina á þeimá kirkjubekkjunum, innan um munaðarleysingjana, rjóða í vöngum af eftirvæntingu, og starfsfólkið okkar. Ég settist á minn stað en enginn fékk sér sæti við hliðina á mér þar sem þú ert vanur að sitja og samt fannst mér eins og allir vissu að þín væri ekki von. Það var fullt út úr dyrum og því enn afkáralegra að skilja eftir autt sæti og eflaust hefði mér farið að líða illa ef einn munaðarleysingjanna, lítil stúlka frá Tórínó, hefði ekki klifrað upp á kirkjubekkinn og sest í sætið þitt. Hún horfði ekki á mig heldur bein fram fyrir sig á kertaljósin á altarinu og krossinn yfir kertunum, horfði beint fram og smeygði lítilli hendinni í lófa minn þegar presturinn gekk inn.

Eftir messuna fórum við heim með börnin og dönsuðum í stofunni. Pritchett tók að sér hlutverk þitt og brá sér í gervi Jóhannesar skírara, límdi á sig skgg, klæddi sig í loðskinnskápuna þína og setti á sig kósakkahattinn sem þú hefur alltaf dustað rykið af á þessum degi. Ég var óviðbúin og hálfhljóðaði upp yfir mig þegar ég kom í flasið á honum í ganginum. Andtartak trúði ég því að þetta værir þú. Og ég stóð sem lömuð frammi fyrir honum, orðlaus.

Pritchett skynjaði hvað um var að vera.

Fyrirgefðu, sagði hann, ég hefði átt að láta þig vita.

Börnin sungu og dönsuðu og ég horfði á þau og reyndi að taka þátt í hátíðarhöldunum en hugurinn var annars staðar. Þetta smávægilega atvik hafði sýnt mér fram á að þegar á hólminn kæmi hefði ég ekkert að segja sem gæti bætt fyrir það sem hefur gerst. Það var mér reiðarslag því ég hafði undirbuíð ræðuna mánuðum saman, skrifað hana á blað, endurskrifað hana, hnikað til orðum og greinarmerkjum, lagt hana á minnnið og farið með hana í huganum aftur og aftur. Hvílík einfeldni, sagði ég nú við sjálfa mig. Hvílík sjálfsblekking að halda að ég geti breytt einhveru með orðum þótt þau líti vel út á blaði og setningum sem hljóma fallega. Andspænis þér myndu setningarnar liðast ís undur og orðin verða að engu. Það hafði ég sannreynt.

(74-6)

Fleira eftir sama höfund

játning

Játning

Tveir íslenskir námsmenn, Elísabet og Benedikt, kynnast í Leipzig skömmu fyrir hrun múrsins.
Lesa meira

Markaðstorg guðanna

Lesa meira

Aldingarðurinn

Lesa meira

Retour en Islande

Lesa meira

Sakleysingjarnir

Lesa meira

Minnenas palats

Lesa meira

Una passeggiata nella notte

Lesa meira

Fjögur hjörtu

Lesa meira

Rakstur

Lesa meira