Beint í efni

Markaðstorg guðanna

Markaðstorg guðanna
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1988
Flokkur
Skáldsögur

Úr Markaðstorgi guðanna:

II

1

 Ég legg frá mér myndina af föður mínum, legg hana frá mér á skrifborðið og held áfram að virða hana fyrir mér um stund, en smeygi henni svo í neðstu skrifborðsskúffuna og sný lyklinum í skránni. Það er tilviljun, að ég skuli geyma hana í sömu skúffu og ég geymi skjölin sem ég laumaði heim með mér úr Fyrirtækinu, einskær tilviljun. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en rétt í þessu, þegar ég stakk lyklinum í vasann. Mér þykir þetta undarleg tilviljun.
 Hann hefur að öllum líkindum verið á svipuðum aldri og ég er núna, þegar myndin var tekin. Ef til vill örlítið yngri, þó ekki mikið. Fertugur. Hann var ekki nema hálffimmtugur, þegar hann dó. Þá var ég nýfermdur. Mér finnst skrýtið að horfa á föður minn á þessari mynd, mann jafn gamlan sjálfum mér. Skyldum við hafa um eitthvað að tala, ef við hittumst á förnum vegi, ég og þessi maður á myndinni? spyr ég sjálfan mig, og verður um leið hugsað til nestisbauks hans. Ég veit það ekki. Ég þekkti hann ekki – ekki nema að því takmarkaða leyti sem barn þekkir föður sinn. „Hann var góður maður,“ var mamma vön að segja. Hún saknaði hans mikið.
 Ég hef erft andlitsfall hans: há kinnbein, hátt enni og ávala höku, enda þótt ég sé holdugri núna en hann er á þessari mynd. Þó ekki feitlaginn. Hendurnar eru líka þær sömu: fíngerðar hendur með löngum fingrum, fölar og allt að því kvenlegar. Það hefur aldrei farið fyrir brjóstið á mér, að ég skuli ekki hafa sterkar og karlmannlegar hendur. Ég hef aldrei unnið erfiðisvinnu, og þess vegna skiptir það ekki máli.
 Er ég líkur föður mínum í skapi? Ég get naumast um það dæmt, enda þótt mér þyki það ekki sennilegt. Aðstæður mínar eru svo ólíkar aðstæðum hans. Hann var sonur kotbónda á Austfjörðum, fluttist til Reykjavíkur tæplega tvítugur, hafði aldrei tök á því að ganga menntaveginn, en naut þess samt alla tíð að lesa bækur. Mig skorti hins vegar ekkert á uppvaxtarárum mínum, þótt foreldrar mínir væru ekki efnað fólk; hlaut þá menntun sem ég kaus, lauk doktorsprófi; lít varla í bók lengur. Hvað veit ég, hvort ég er líkur honum innanrifja? Þó langar mig að efast um, að hann hefði gert það á hlut annarra, sem ég hef gerst sekur um. Mig langar að ganga að því vísu, að hann hefði aldrei látið það hvarfla að sér. Það er orðið um seinan, að ég fari að sjá eftir þeim hlutum núna.
 Hann söng og var glaður, þá sjaldan hann bragðaði vín. Aldrei einn, heldur einatt með tveimur vinnufélögum sínum og sveitungum að austan. Slagara, þjóðlög, stundum brot úr óperum ellegar ljóðasöngvum, þrátt fyrir litla tungumálakunnáttu. Aftur á móti man ég ekki hvenær ég kættist síðast af víni. Það er æði langt síðan. Og samt fæ ég mér oft í staupinu núorðið, alltof oft að áliti konu minnar, sem setur upp áhyggjusvip þegar hún lýsir því yfir, uppgerðar áhyggjusvip – líkt og óreynd áhugaleikkona frá Raufarhöfn í hlutverki Höllu.
 Tíminn styttist. Ég minnist þess enn einu sinni, þegar ég hugsa um myndina í skúfunni hjá skjölunum. Nú hef ég ekki nema hálfan þriðja sólarhring til að ráða við mig, hvað ég geri við skjölin. Ekki meira en það. Ég veit að hann á eftir að hringja, ég veit að hann á eftir að hafa í hótunum, ég veit að honum er alvara. Ég efast ekki um, að hann sé reiðubúinn að láta verða af hótunum sínum.

(s. 122-123)

Fleira eftir sama höfund

Málverkið

Lesa meira
játning

Játning

Tveir íslenskir námsmenn, Elísabet og Benedikt, kynnast í Leipzig skömmu fyrir hrun múrsins.
Lesa meira

Aldingarðurinn

Lesa meira

Retour en Islande

Lesa meira

Sakleysingjarnir

Lesa meira

Minnenas palats

Lesa meira

Una passeggiata nella notte

Lesa meira

Fjögur hjörtu

Lesa meira

Rakstur

Lesa meira