Beint í efni

Sól í Norðurmýri: Píslarsaga úr Austurbæ

Sól í Norðurmýri: Píslarsaga úr Austurbæ
Höfundur
Megas
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1990
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

Ásamt Þórunni Valdimarsdóttur. 2. úgáfa 1993.

Af bókarkápu:

Hann fæddist á fyrsta ári íslenska lýðveldisins og ólst upp í Norðurmýri í Reykjavík. Hann hlaut nafnið Magnús Þór og nefndi sig síðar Megas. Í sögu hans kannast margir við sjálfa sig, því hún er sannferðug úttekt á heimi íslenskra barna á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Hver man ekki sokkabandakotin óþægilegu, skólahjúkkurnar skeleggu með lýsiskönnur á lofti eða klígjuna við kekkjóttri flöskumjólk, nauðungarljósaböðin og sundhallarafgreiðsludömurnar, stimamjúkar við fullorðna en önugar við ungviðið? - En í sögu litlu píslarinnar er líka að finna ljúfar minningar um lystireisur í Tívolí og út í Nauthólsvík, um pissubílinn og það sæla hasarblaðahungur.

Þau Þórunn Valdimarsdóttir og Megas hafa bæði lagt bernskuminningar sínar, drauma og ímyndunarafl að veði í ævintýralega og töfrandi bók. Þetta er ekki ævisaga, heldur fantasía eða rabbsódía um Reykjavík - umhverfi og atvík - í lífi lítillar píslar.

Úr Sól í Norðurmýri:

Píslin á sér móðursystur á Njálsgötunni. Barnakennarinn fer með hann þangað í dagvist og leiðir langan spöl. Fyrst þegar drengurinn man eftir sér er Njálsgatan fjarlægt borgarhverfi, næstum því Danmörk. Þar á hann frænda og næstum jafnaldra, Didda, sem er ári yngri. Móðursystirin verndar þetta einkabarn sitt fyrir öllum veraldarinnar ógnum. Honum er ætlað að leika sér við stelpurnar í götunni því strákarnir eru viðsjárverðir. Þarna á píslin yndislega daga.

Njálsgötufólkið hefur forframast í Danmörku, svo þar borðar píslin undursamlega framandi rétti svo sem spælegg og kótelettur, og annað sem ekki má rapportera heim: smurt maltbrauð með sykri ofan á. Það gengur glæpaverki næst að smjatta á þessu. Heima er honum kennt að það að setja brauð með sykri inn fyrir varir sé beinlínis aðferð til að eyðileggja tennur.

Stalín hangir á vegg. Húsbóndinn er hressilegur gamaldags kommúnisti með góðan húmor. Hann ritstýrir Æskunni fyrir góðtemplarana. Húsið er ættarhús, og þar búa foreldrar ritstjórans og bróðir. Fjölskyldan setur sterkan svip á húsið og hverfi þess.

Móðursystirin er píslinni sem önnur móðir. Hún hefur ýmsa aðra eiginleika en móðir hans, og hann veit alltaf hvar hann hefur hana. Hún er stundum svolítið hörð, en það gleymist um leið og hún mýkist aftur. Barn í ókunnum húsum þykist vita hvaða mömmur hýði eða setji í kalda sturtu, skræki og sleppi sér út í hörku eftir viðurkenndum aðferðum áratugarins. Þetta gerist hvorki heima né hjá frænkum hans, svo það ýfir hann til þess meira að þykjast skynja strangleika í öðrum húsum.
Píslin er svo hvatvís að hann stelst einn á Njálsgötuna áður en hann hefur náð lögaldri til millihverfaferða. Lætur engan vita - þá hefði hann ekki fengið að fara - og tímaskynið er svo brenglað að hann þykist koma aftur áður en hans er saknað. Auglýst er eftir honum í útvarpinu:
,,Magnús Þór Jónsson fimm ára með stór útstæð eyru er farinn út í buskann.

(86-7)

Fleira eftir sama höfund

Megas – textar 1966-2011

Lesa meira

Drög að sjálfsmorði

Lesa meira

Haugbrot: glefsur úr neó-reykvískum raunveruleika

Lesa meira

Á bleikum náttkjólum

Lesa meira

Bláir draumar

Lesa meira

Drög að upprisu

Lesa meira

Englaryk í tímaglasi

Lesa meira

Far ... þinn veg

Lesa meira

Fláa veröld

Lesa meira