Beint í efni

Edda

Edda
Höfundur
Harpa Rún Kristjánsdóttir
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
2019
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Guðrún Baldursdóttir

Handhafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar árið 2019 er ljóðskáldið Harpa Rún Kristjánsdóttir en hún hlýtur verðlaunin fyrir Eddu sem er hennar fyrsta ljóðabók. Eins og kemur fram á bakhlið bókarinnar er Harpa Rún afdalabarn en auk þess að vera bóndi er hún einn forleggjara forlagsins Sæmundar. 

Viðfangsefni ljóðabókarinnar Eddu er ellin og æskan og þá fyrst og fremst hvernig þessi lífsskeið birtast aðstandendum, þeirra sem staddir eru í miðju lífslínunnar og horfa til beggja átta. Edda er í raun ljóðabálkur þar sem ljóðin mynda eina frásögn, eða frekar mynd af fjölskyldumynstri og tilfinningum þess sem segir frá. Ellin er fyrirferðarmeiri í textanum og æskan birtist frekar sem raunhæf hliðstæða ellinnar. Lífsskeiðin speglast hvort í öðru og sjá má hvernig ljóðmælandinn sem stödd er mitt á milli þeirra ber þau saman í sífellu:

Haltu undir höfuð
hún kann ekki enn
að halda haus
agnarlítil, varnarlaus.

Gættu þín á visnandi
gamalli konu
snertu lausar
faðmaðu léttar
allt svo brothætt
bannað að meiða.

(„Snerting“)

Oft er talað um hringrás lífsins, við byrjum og endum á sama stað og þannig liggi lífsskeið okkar  í eins konar sveig. Í ljóðum Hörpu Rúnar birtist lífsskeiðið frekar eins og þráður þar sem sinnhvor endinn togar í okkur, lífsstrengurinn. Það vill þannig til að jafnvel þótt við þræðum ýmislegt á streng þá svipar endunum yfirleitt hvorum til annars. Ljóðmælandinn tekur fram í einu ljóðinu að þær tvær sem ljóðin fjalla um, sú gamla og sú unga, séu nær lífinu en hún.

Orðunum er ekki ofaukið í  ljóðum Hörpu Rúnar, og minna að því leyti sumpart á ljóð Gerðar Kristnýjar þótt stíllinn sé ekki eins meitlaður og sagan ekki eins línulaga og í ljóðabálkum Gerðar Kristnýjar. Í staðinn vinna ljóðin saman til að gefa mynd af  tilfinningalífi og togstreita tilfinninganna verður áþreifanleg. Hægt er að drepa niður hvar sem er í bókinni án samhengis þar sem flest ljóðin standa vel ein og sér, þótt sum þeirra komi í pörum eða þrjú saman.

Hugsanir ljóðmælandans birtist okkur á viðkvæman og fágaðan máta; samviskubit, sorg og hversdagslegur tregi yfir því sem ekki enn er farið:

Raddir
 

Ófær
um annað
sitjum við heima.

Bölvum spítölum,
ópersónulegum, yfirfullum,
ferköntuðum,
undirmönnuðum
pastellituðum undirmönnum.

Undir undirmeðvitundinni
klórar rödd
hvíslar

eitthvað um ófærð
og aðrar leiðir.

Í ljóðum ungra skálda í dag er borgin og borgarmyndir algengar, lífið á strætum Reykjavíkurborgar, og ekki að undra þar sem meirihluti Íslendinga býr nú á höfuðborgarsvæðinu. Sveitin fær sífellt minna pláss í nútímaskáldskap ef við berum daginn í dag saman við skáldskap fyrri tíma. Það er því ánægjulegt að fá ljóð úr brunni nútímasveitar, þótt hún liggi fyrst og fremst í bakgrunni og sé ekki viðfangsefni ljóðanna.

Sögusviðið er ótilgreind sveit á Íslandi, þar sem vegalengdir eru langar, veðrið hefur áhrif á daglegt líf fólks og náttúran er nálæg en ekki aðeins rómantísk sýn. Undir niðri liggur einnig einhver íslenskur kjarni, og er það meðal annars nánd kynslóðanna hver við aðra sem dregur þetta séríslenska fram. Allar persónur ljóðanna eru konur og þær tengjast blóðböndum þótt ekki sé beint útskýrt hver þau nákvæmlega eru. Fjölskyldan gegnir mikilvægu hlutverki og þá ekki aðeins sú nánasta heldur ættgarðurinn í stærra samhengi. Titill bókarinnar, Edda, vísar í merkingu orðsins, amma eða langamma, en auðvitað einnig í Eddur menningarsögunnar, dýrt kveðinn skáldskapur sem varðveist hefur í minni þjóðarinnar.

Umhyggjan sem birtist á milli kynslóða og þekkingin sem til verður þegar nándin við þá eldri og yngri er hluti af daglegu lífi; þessir tveir þættir eru viðloðandi ljóðin og er hluti af þessu íslenska sem erfitt er að henda reiður á nema þegar á heildina er litið. Í síðustu ljóðunum fáum við innsýn í fjölskylduna sem gengur frá búinu eftir að dauðinn hefur komið og sótt þá gömlu. Í ljós kemur að nærveran hefur verið mikil, ljóðmælandinn hefur alist upp með kynslóðunum frá upphafi og nú er gat eftir þar sem ástin var áður.

Og síðan er það blessuð náttúran, myndir sem Harpa Rún dregur upp af landslaginu eins og af sviðstjöldum að baki persónanna sem eru í aðalhlutverkum. Myndmálið birtist áreynslulaust í ljóðunum og myndirnar sem dregnar eru upp verða hluti af þróun tilfinninganna.

Samruni

 

Úr uppsprettunni
streyma bæði
bunulækir og stórfljót
yfir grjót og mýrar
gegnum gras og skóga.

Í læki
falla lækir
líka regn og sólskinsfræ.

Einn þeirra
við
sem rennum saman
litla stund
áður en við tvístrumst
í aðra læki.

Augnablikunum fjölgar hjá þeirri ungu og á sama tíma fækkar þeim hjá þeirri öldruðu og þarna mitt á milli fáum við að dvelja í ljóðum Hörpu Rúnar stutta stund. Sorgin yfir yfirvofandi dauða þeirrar gömlu verður enn sárari þegar stundunum er stillt upp til móts við gleðinni sem fylgir litla barninu.

Það sem ljóðabókin skilur helst eftir sig, og það sem Harpa Rún nær svo vel í þessari fyrstu ljóðabók sinni, eru þær erfiðu tilfinningar sem við tengjum í dag við ellina, hrörnun og minnislöp. Treginn yfir því að syrgja manneskju sem enn er meðal okkar og efinn um að aðstandendur séu að gera sitt besta. Samfélagsmynstrið breytist og venjur okkar í kringum ellina með því. Við treystum stofnunum fyrir fólkinu okkar til að „gera það sem mér finnst að ég ætti að gera.“ Við hin höldum áfram til að halda tannhjóli samfélagsins gangandi og höfum varla tíma til að staldra við, vera til staðar og hlusta.

 

Guðrún Baldvinsdóttir, nóvember 2019