Beint í efni

The Killer’s Guide to Iceland

The Killer’s Guide to Iceland
Höfundur
Zane Radcliffe
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Ingvi Þór Kormáksson

Sumum kann að finnast ritari fara nokkuð út fyrir efnið í þessari bókarumfjöllun en komið er inn á ýmislegt sem var efst á baugi síðla í maímánuði. Snertir sumt sjálfsmynd Íslendinga beint og óbeint eins og ofangreind skáldsaga sem átti að vera aðalatriði þessa pistils og er kveikjan að honum.

Í 5. tölublaði tímaritsins Grapevine árið 2005 er að finna athyglisverða grein sem nefnist „Art in whose service?“ Höfundur hennar er Haukur Már Helgason. Þar er meðal annars minnst á bíómyndina Gargandi snilld þar sem umfjöllunarefnið er íslensk tónlist. Upp á síðkastið hefur nokkuð af opinberu fé verið sett í íslenskan tónlistariðnað og útkoman sú að sumir íslenskir tónlistarmenn fá séns erlendis. Er það af sem áður var er útlendingar vissu ekki neitt um íslenska tónlist og sýndu henni ekki nokkurn áhuga. Núna er alla vega tekið eftir íslenskum tónlistarmönnum þótt kannski sé það ekki endilega vegna þess að allt sé það gargandi snilld sem frá þeim kemur. Þeim er hins vegar af einhverjum ástæðum fyrirgefin barnsleg einfeldni og einlægni í tónlistinni sem aðrir en Íslendingar kynnu að fá skömm í hattinn fyrir. Er þetta jafnaðargeð útlendra gagnrýnenda kannski vegna áhrifa frá Björk og hennar músík? Stafar þessi krúttlegi séríslenski minimalismi kannski frá rímunum sem ýmsir ungir tónlistarmenn gefa upp sem áhrifavalda? Einkennilegur þessi áhugi á þeim. Fram til þessa hafa þær ekki þótt merkilegur kveðskapur (sbr. Jónas Hallgímsson) og enn síðri sem tónlist. En niðurstaðan virðist vera sú að af því að músíkin er íslensk sé eitthvað svo krúttlegt við hana. Kannski eru Íslendingar svona eins og þeir eru (sætir) og músíkin eins og hún er (krúttleg) vegna hrútspunga- og hákarlsáts kynslóðanna sem fram fór undir rímnakveðskap?

Samkvæmt greininni í Grapevine virðist þjóðernisrembingurinn í umræddri mynd allt að því vandræðalegur. Kannski hefði vottur af sjálfshæðni eins og hún birtist í bjórauglýsingunum, „Ísland, best í heimi“ verið vænlegri kostur. Unnu þær ekki til verðlauna?

Í framhaldi af lestri greinarinnar fer maður að velta fyrir sér hvort íslensk list sé að einhverju leyti komin í þjónustu ferðaiðnaðar og flugfélaga, sbr. Icelandair og Loftbrú Reykjavík, sem aðstoðar tónlistarmenn við að koma sér á framfæri erlendis. Er einhver hætta á að list geti orðið uppskrúfuð og húmorslaus og full af þjóðerniskennd þegar hún er komin í eina sæng með íslenska ríkinu og stórfyrirtækjum sem vinna hörðum höndum að því að „selja“ land og þjóð með öllum tiltækum ráðum?

Framangreindar hugleiðingar sem kviknuðu af greinarskrifum Hauks Más voru ritara ofarlega í huga er hann las The Killer’s Guide to Iceland eftir skoska rithöfundinn Zane Radcliffe. Sá vakti fyrst athygli með bókinni „London Irish“ (Bantam, 2002). Þessari nýju bók var stillt upp á áberandi stöðum í íslenskum bókaverslunum enda getur hún samkvæmt titlinum vakið athygli á landinu og bæst þar með í hóp hinna fjölmörgu ljósmyndabóka og fræðibóka (og núna bíómynda) um landið sem einmitt stútfylla bókaverslanir á sumrin. Þetta er raunar einkennileg bók atarna. Skáldsaga sem öðrum þræði er eins og ferðahandbók. Þetta er ekki algjört nýnæmi enda er, eins og við vitum, ekkert nýtt undir sólinni. Thomas A. Kennedy hefur ritað bækur af þessu tagi (t.d. Kerrigan’s Copenhagen, Wynkin de Worde, 2002) og einnig bókina The Literary Traveler (del Sol Press, 2005) ásamt Walter Cummins. Hér er um að ræða skáldsögur sem virka eins og ferðabækur en ekki ferðabækur sem virka eins og skáldsögur, sbr. bækur Peters Mayle um Provence og Francis Mayes um Tuscany. Áhugasömum má líka benda á bækur Peters Robb, Midnight in Sicily (Harvill Press, 1999) og A Death in Brasil (Picador, 2005) sem eru áhugaverðar blöndur ferðasagna, minninga og sagnfræði settar fram líkt og um skáldskap sé að ræða. Reyndar hefur Robb verið ásakaður um nettan ritstuld í síðarnefndu bókinni.

Zane Radcliffe hefur verið líkt við Englendinginn James Hawes og hinn írska Colin Bateman en báðir skrifa þeir grínspennusögur. Sumir kannast eflaust við bækur þeirra og enn fleiri við kvikmyndir eftir sögum þeirra, s.s. Rancid Aluminium (með Rhys Ifans) eftir Hawes og hin öllu betur heppnaða Divorcing Jack (með David Thewlis) eftir sögu Batemans. Gætum við átt eftir að sjá The Killer’s Guide to Iceland í bíó? Ef svo verður, er vonandi að kvikmyndin verði ívið betur heppnuð en bókin. Stundum getur það hent sem betur fer, því að bókin er því miður ekki upp á marga fiska. Það er eflaust þessi blanda af ferðabæklingi og spennusögu sem manni verður bumbult af.

Það þarf líka töluverða hæfileika að geta spaugað með mannrán og morð þannig að eðlilegt virðist og lesandinn hrífist með. Ekki er öllum gefið að feta í fótspor Carls Hiiasen sem listilega tekst að fjalla um slíka hluti í bókum sínum og fá lesandann til að emja af hlátri í leiðinni. Í Killer’s Guide to Iceland er það titillinn sem er eiginlega best heppnaður hvað spaugsemina varðar. Annars gengur fremur illa upp að blanda saman erfiðum fjölskyldumálum, slátri og kæstum hákarli, eldgosum og bröndurum er varða íslenskt mál og málfræði og áfram mætti lengi telja. Hin íslenska kærasta sögumanns er stöðugt að segja honum upp eða taka í sátt eftir því hvort hún heldur að hann hafi numið brott dóttur sína eða hreinlega gengið af henni dauðri. Þess á milli þrumar hún yfir honum jarðfræði- og mannlífsfyrirlestra af mikilli yfirvegun enda miklum gáfum gædd. Afskaplega hvimleið persóna sem tekur mikið pláss í bókinni. Aðrar persónur eru líka með þessum eindæmum, að halda fyrirlestra um Ísland og karaktereinkenni Íslendinga í tíma og ótíma. Þetta gerir það að verkum að lítið er um það sem kalla mætti eðlilegar samræður. Móðir kærustunnar er seiðkona og skyggn að auki svo að lesendur fara ekki varhluta af grasalækningum sem og yfirskilvitlegum fyrirbærum á borð við álfa og huldufólk og draugar birtast konunni sem ljóslifandi séu.

Þessu fylgja svo heimsóknir í Sundlaugarnar í Laugardal, Bláa lónið, Herðubreiðarlindir og haldið er á Öskjuslóðir þar sem hápunkti spennunnar er náð. Hinir ýmsu barir og veitingastaðir eru einnig heimsóttir. Sagt er frá frægasta eiganda kaffibars á Íslandi (sem er útlendingur) og nokkur nöfn íslenskra hljómsveita slettast með svo að þetta er að nokkru leyti í stíl við fyrrnefnda bíómynd. Íslenskar löggur fá þó fremur háðuglega útreið sem og blaðamenn. Að flestu öðru leyti dregur Radcliffe upp fremur jákvæða ímynd lands og þjóðar. Má hafa nokkuð gaman af bókinn á köflum þótt höfundur sé langt frá því að vera jafnoki Hawes og Batemans svo ekki sé minnst á Hiaasen..

Spurningin „How do You Like Iceland“ sem varpað er til útlendinga jafnvel áður en þeir stíga á íslenska grund er dæmi um örvæntingarfulla beiðni um staðfestingu á því að við séum fullgildir meðlimir í samfélagi þjóðanna og landið okkar sé frábært. Við verðum því afar lukkuleg með bók sem staðfestir hrifningu úlendings á mörgu því sem íslenskt er og gefur skemmtilega mynd af landi og þjóðareinkennum þrátt fyrir að höfundi fatist flugið ansi mikið bæði í spauginu og spennunni.

Af því að þetta er ritað þá helgi í maí er Júróvisjónfárið geysar, kemur eftirfarandi upp í hugann. Eitt af þreyttari dæmunum um tilraunir okkar til að selja hugmyndina um „Ísland – best í heimi“ er líklega þátttaka okkar í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Þetta árið kom berlega í ljós hversu þjóðin öll, með Sjónvarpið og kynni keppninnar í fararbroddi, hegðar sér eins og meðvirknisjúklingur hvað framlag okkar snertir: Við lítum á tap í söngvakeppninni sem höfnun. Hugmyndin voðalega, að við séum hugsanlega ekki best í heimi og kannski ekki næstbest heldur, læðist að okkur og brugðist er við henni með afneitun. Það er Balkan-mafían sem er á móti okkur, Austurblokkin áttar sig ekki á íslenskri snilld, búningarnir eru misheppnaðir og svo má lengi telja en enginn minnist á að þrátt fyrir að sérhæfðar dansmeyjar stökkvi um sviðið með fettur og brettur og engist um liggjandi í gólfinu tekst ekki að breiða yfir þá staðreynd að lagið var einfaldlega ekki nógu gott. Enginn vill viðurkenna að snillingunum sem starfsmenn Sjónvarpsins töldu að væru bestir (ef ekki í heimi, þá á Íslandi) tókst ekki upp sem skyldi í lagasmíðinni. Keisarinn var sem sé ekki í neinum fötum. Það var fíll í stofunni hjá okkur, klunnalegur og kjánalegur, átti hvorki heima þar né í stofunni hjá fólki af öðru evrópsku þjóðerni.

En munum við nokkurn tíma hætta að reyna að sýnast merkilegri en við erum í augum alheimsins þótt hann geti verið bæði stór og stundum vondur við okkur eins og dæmin sanna? Alla vega tökum við fegins hendi bók sem sýnir áhuga útlensks höfundar á Íslandi. Það sýnir að við erum einhvers virði enn og þótt við séum ekki best í heimi og bókin sé alls ekki besta bók í heimi megum við samt nokkuð vel við una.

Ingvi Þór Kormáksson, maí 2005.