Beint í efni

Leiðirnar til himna

Leiðirnar til himna
Höfundur
Soffía Lára
Útgefandi
Höfundur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

„Veistu hvers vegna ég skemmti mér svona konunglega?“ spyr ljóðmælandi ljóðsins „Ó reiða kona“. Svarið er einfalt: „vegna þess að ég er ung kona“. Nú er ég kannski ekkert sérstaklega ung kona lengur, en skemmti mér þó konunglega yfir ljóðum skáldkonunnar Soffíu Láru, í ljóðabókinni Leiðirnar til himna. Bókin kom út á síðasta ári, en eins og títt er með sjálfsútgáfur rataði ekkert kynningareintak til okkar á Bókmenntavefnum og það var ekki fyrr en ungur samstarfsmaður benti mér á að þessi bók væri nýkomin inn á bókasafnið að ég vissi yfirhöfuð af tilvist verksins.

Ljóðin einkennast af hraða og öru flæði hugmynda og orða og minna að því leyti á stundum á fyrstu ljóðabækur Gyrðis Elíassonar og Kristínar Ómarsdóttur, auk sumra súrrealískra romsa Sjóns. Einnig mætti nefna ljóð Kristínu Svövu Tómasdóttur og Kristínu Eiríksdóttur, en líkt og þeirra verkum eru ljóð Soffíu Láru á stundum bæði ágeng og myrk, og næstum ölvuð. Myndirnar hlaðast upp á kraftmikinn hátt, hádramatík blandast lúmskum húmor og sjálfsmeðvitund, og allt fellur þetta saman í eina órofa heild.

Fyrsta ljóð bókarinnar nefnist „Alltaf að hugsa“ og hefst sem einskonar ævisaga eða jafnvel yfirlýsing fyrir bókina í heild:

hérna er líf mitt og þessi saga sem byrjar og endar einhversstaðar
líf mitt
hvað gerist í því?
það er stundum glansandi
mér finnst það dálítið fallegt
um daginn sat ég stól og las bók þegar eitthvað byrjaði að gerast
eitthvað sem endaði aldrei
og nú hvarflar að mér að ég þurfi ekki að eltast við neitt lengur
heldur komi það allt til mín

Eftir þessa frekar kyrrlátu byrjun endar ljóðið með öllu meiri látum:

fyllist heimurinn af hljóðum og hljóðum konum
hljóðandi æpandi emjandi konum
sem geta ekki hætt að teygja úr sér lengjast geispa
þú veist að þetta deyr aldrei
og í eilífðinni ertu ennþá emjandi konan sem þú varst
geispandi stórkostlegu ryki
og það hættir aldrei endar aldrei deyr aldrei

Vissulega má segja að hér fari hamagangurinn aðeins framúr sér og að myndirnar séu ekki mjög markvissar (hvað er allur þessi geispi að gera þarna?), en þó er í þessu einhver gleði og kraftur sem ekki er annað hægt en að hrífast með.

Næsta ljóð er orðaleikur sem vel gæti hafa byrjað sem prentvilla, en það nefnist „Teningasagan“ og hefst á línunum: „Þessi saga fjallar ekki um teninga / heldur um tengingar hún fjallar um það / þegar eitthvað er sett í samband / og þegar það kviknar á fjöllunum / og þau eru tóm að innan en samt / full af ljósi“. Svo erum við um stund stödd í einhverju undarlegum fjöllum en þar kemur einmitt teningur við sögu, í höfuðstað manns. Þessi heimur tilheyrir súrrealismanum, maður er næstum „drukknaður / í drykknum sínum“, og vill drekka meira, „hann vonar að hendur sínar lengist og að hann blási út“. Svo kemur smá millistef: „það vantar konur í þessa sögu gamlar konur börn og minnihlutahópa“. Þessu er reddað í hasti því í lok ljóðsins birtist sveit og hús og þar „er eitthvað / að deyja og það er gömul kona og hún er að sogast útum dyrnar“.

Annað ljóð fangar hversdagsleikann í hröðu flæði og nefnist „Áður en ég sofnaði“. Það hefst á því að ljóðmælandi leggst upp í rúm í öllum fötunum og segir sjálfri sér sögu um stjörnur sem snúast. Síminn hringir og það er amma að tala um píanó. En „áður en þetta gerðist og áður / en ég kom heim og lagðist í rúmið / fékk ég mér hamborgara á kex hostel / það voru tónleikar og ég sat í sófa með hamborgarann / og við hliðina á mér sat maður / og ég gaf honum hamborgarann / og franskarnar þegar mig langaði ekki í meira“. Í ljós kemur að „þar áður“ hafði komið upp í samræðum að hann hafði verið á geðdeild og því gefur stúlkan honum hamborgarann. Hann gefur henni upp númerið á leigubílastöð: „5885522 og ég hringdi góða kvöldið og ég ætla að panta einn leigubíl / á kex hostel“. Leigubílstjórinn villist aðeins eftir langan vinnudag „en ég vísaði veginn og horfði útum gluggann sá / tónlistarhúsið hörpu ský sjóinn fólk og indæl ljós og þegar ég kom heim beið / hún kisa gamla eftir mér í glugganum og ég borgaði manninum 1770 krónur / fyrir farið kom inn lagðist í rúmið og sagði mér söguna af stjörnunum sem / snerust“.

Hér má í raun næstum greina gamaldags raunsæi í því hvernig allar staðsetningar eru gefnar upp, símanúmer og upphæðir, auk þess sem komið er inn á stöðu þeirra sem minna mega sín. Ljóðið rennur á stundum út í prósa en einkennist umfram allt af léttleika og liðugri frásögn.

Önnur ljóð eru ágengari eins og „Ókeypis blöðrur“:

umami ókeypis blöðrur og blaðrandi fólk útum helvítis allt
með kampavín og magana fulla af blöðrum og blöðrum og sumum
innvortist blæðingar og öðrum ókeypis bragðlaukar reykjandi
viðbjóðslegir unglingar með magasár og innvortis blæðingar
og smálán og skuldir og blóð í bankanum kusk í hárinu himnarím
himnaríki á jörðu rassar og endalaust klám sumir hugsandi um
völd og peninga kötturinn með höttinn er hress og bragðlaus
brjóstsykur bleikur og rauður sjúgðu hann fastar meira bragð
meira ókeypis kakó í bankanum almennt aðeins meira ógeð í ljóðum

Að hluta til eru það orð og myndir sem knýja textann áfram, en undirliggjandi er samt hörð ádeila á græðgisvæðingu sem blandast tilvísunum í klassískar barnabókmenntir. Og líkt og í raunsæisljóðinu þarf ádeila ekki að vera þunglamaleg.

Í stuttu máli sagt er hér margt forvitnilegt á ferðinni og afskaplega auðvelt að grípa til klassískrar klisju miðaldra gagnrýnanda: það er full ástæða til að fylgjast með þessari ungu skáldkonu.

úlfhildur dagsdóttir, október 2015