Beint í efni

Píanóleikarinn

Píanóleikarinn
Höfundur
Wladyslaw Szpilman
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Sögur gyðinga sem lifðu af seinni heimsstyrjöldina eru löngu orðnar að sérstakri bókmenntagrein – grein sem hefur sérstöðu innan bókmenntanna að því leyti að það að skrifa slíka bók er ekki eingöngu skapandi ferli, heldur pólitískt í sjálfu sér, skrifin sjálf eru staðfesting lífs, en um leið til minningar um þá sem ekki lifðu – áminning um þjóðarmorð. Umfjöllun um þessa bókmenntagrein er auðvitað mótuð umræðunni um mikilvægi þess að láta ekki þessa atburði verða gleymskunni að bráð. Persónulegar reynslusögur hafa orðið að helsta tækinu til að tryggja það og einnig hafa þau söfn sem hafa sprottið upp á síðustu árum (t.d. í Berlín og Washington) einmitt byggt mikið á persónulegum frásögnum og munum til að miðla því sem gerðist. En þegar blandast saman þessi áhersla á persónulegar frásagnir og svo ekki síður mikilvægi játninga í samtímamenningu (svo sem eins og sést í fjölmörgum viðtals- og kjaftaþáttum hérlendum og erlendum, svo ekki sé minnst á „opinská“ viðtöl í blöðum og tímaritum), þá er oft átorítet þessara sagna mikið.

Því er ekki að undra að mikið upphlaup hafi orðið, þegar í ljós kom að bókin Bruchstücke sem var gefin út sem minningar Binjamin Wikomirskis, sem hafði verið barn í útrýmingabúðunum, var í raun fölsun, eftir svissneskan mann að nafni Bruno Grosjean (sem að því er virðist trúir enn að þetta hafi komið fyrir hann). Píanóleikarinn, eftir Szpilman, staðfestir þó enn og aftur að fátt er jafn áhrifamikið og sjónarhorn þess sem upplifði þessa, að því er stundum virðist, gjörsamlega ósegjanlegu grimmd. Bókin er óvenjuleg að ýmsu leyti, og þá einkum fyrir þá sök að hún er skrifuð mjög stuttu eftir atburðina. (Þetta er líka einkenni á bók Leifs Mullers, Í fangabúðum nasista eins og Álfrún Gunnlaugsdóttir bendir á í grein sinni í Ritinu (2003:3)). Verkið hefur því mörg einkenni dagbókar – frekar en endurlit til löngu liðinnar tíðar. Bókin er svo að segja algjörlega takmörkuð við stríðsárin, lítið er fjallað um lífið á undan, en í svona verkum er oft lýst fjölskyldu- og hversdagslífi sem síðan er eytt í stríðinu og ekkert stendur eftir af í lokin.

já Szpilman er það frekar í athugasemdum í framhjáhlaupi sem veitt er skyndileg innsýn í heiminn sem er að hrynja, og eykur það enn á óhugnað frásagnarinnar. Einnig er þetta ólíkt bók Leifs Mullers, og flestra þekktustu rita gyðinga frá seinni heimsstyrjöldinni, ekki um fangabúðavist, heldur um það að lifa í felum. Frásagnarmáti bókarinnar er látlaus eins og Wolf Biermann bendir á í ágætum eftirmála. Á stundum er þetta eins og spennusaga – eins og þeir sem sáu mynd Roman Polanskis sem byggir á bókinni kannast við – því margoft er Szpilman næstum náð, sem rekur hann enn og aftur á flótta, á nýja felustaði, til nýrrar hættu. Hann rifjar upp alla þá atburðarás, en ekki síður það sem fyrir augu bar, það sem aðrir máttu þola, og er lesandanum strax á fyrstu síðum bókarinnar hellt út í grimmdina og óhugnaðinn þegar barn sem reynir að klifra undir múrinn sem aðskildi gyðingahverfið frá borginni er myrt svo að segja í höndum Szpilmans. Hversdagslegir atburðir eins og að nærast, fara í vinnu, samskipti við fjölskylduna – allt er undirorpið þessari stöðugu ógn, sem stafar ekki eingöngu af því sem fólk sá og upplifði, heldur, eins og kemst svo skýrt til skila í þessu verki einnig stöðugum sögusögnum og orðróm um hvað myndi gerast næst. Hverju finna Þjóðverjar uppá næst? Hverjir verða myrtir þá?

Þegar frásögn Szpilmans lýkur tekur við enn nýstárlegri frásögn, að minnsta kosti fyrir þennan lesanda, en það eru dagbókarbrot þýska hermannsins. Þar er á ferð miskunnarlaus sjálfskönnun þjáðs manns, sem skilur ekki grimmdina í kringum sig, grimmd landa sinni, og lýsingar á hörmulegum atburðum sem berast honum til eyrna. Þessi dagbókarbrot hrekja þá staðreynd að venjulegir Þjóðverjar og hermenn utan Gestapo og annarra sérsveita hafi ekki vitað hvað var að gerast. Í lok stríðsins er Szpilman orðinn að draugi í draugaborginni Varsjá, þar sem bókstaflega ekki Stendur steinn yfir steini. Hrun borgarinnar endurspeglar á áþreifanlegan hátt eyðingu menningar og samfélags – og draugurinn sem vafrar um rústirnar reynir að lýsa fyrir lesandanum og ekki síður sjálfum sér eyðingunni og þeirri röð órökréttra, en um leið allt að því hversdagslegu, tilviljana sem urðu til þess að hann lifði af.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, október 2004