Beint í efni

Tvífari gerir sig heimakominn

Tvífari gerir sig heimakominn
Höfundur
Anton Helgi Jónsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í bókmenntum heimsins hafa tvífarar lengi gengið ljósum logum, frá hamförum fyrri alda til ókennilegra spegilsjálfa nútímans. Tvífarinn hefur vitaskuld staðið fyrir tvöfalt (í það minnsta) eðli manneskjunnar, en öllu flóknari er hin Freud-ættaða kenning sem segir tvífarann táknmynd dauðans. Samkvæmt henni tvöfaldar maðurinn sjálfan sig í leit sinni að eilífu lífi, býr til annað sjálf sem á að tryggja tilveru framtíðar. En um leið og ‚hinn‘ birtist, stígur ljóslifandi fram úr speglinum sem skóp hann, verður hann ókennilegur og umturnast í táknmynd dauðans: áminningu um að dauðinn er ávallt nálægur. Ef marka má þessa kenningu sækir návist dauðans enn harðar en áður að nútímamanninum, því í dag eiga sér allmargir aukasjálf í staf- og rafrænum heimum sæbólsins, á samskiptamiðlum á borð við fjasbókina, tístið og (í hverfandi mæli) blogg. Þessi nýja sjálfsverund er sæborgsk, eins og bókmenntafræðingurinn Gunnþórunn Guðmundsdóttir bendir á í grein um minni og gleymsku á samskiptamiðlum: „Prófíl-síður okkar má sjá sem sæber-útgáfur af okkur sjálfum, í senn afsprengi lifaðrar reynslu og áhrifavaldur hennar. Þetta breytir okkur í raun í sæborgir án inngrips tækja og tóla líftækninnar“ (46). Spegillinn, hið forna tákn tvífarans, hefur því breyst í skjái, málverk spjátrungsins Dorians Gray hefur eignast skrilljónir afkvæma í ‚migur‘ sem dreifast um sæból hraðar en svikin loforð stjórnmálamanna.

Ljóðskáld hafa löngum átt sér önnur sjálf í skáldskap, en ljóðið er það form skáldskapar sem almennt er talið ‚persónulegast‘. Anton Helgi Jónsson, ljóðskáldið sem hér er (loks) til umræðu á sér í það minnsta tvö sjálf sem ljóðskáld, en fyrstu bækur hans komu úr á áttunda áratugnum, 1974 og 1979 og vöktu þá þónokkra athygli. Árið 1985 birtist sú þriðja og árið 1991 sendi skáldið frá sér ljóðaþýðingar úr belgísku, sem mun innihalda frumsamin ljóð en ekki þýðingar. Síðan síðan ekki söguna meir fyrr en 2006 þegar smávaxið og hannað limrusafn kom út en fór lágt. Það má vel skoða sem einskonar millikafla í lífi skáldsins, sem hóf annað skeið sitt sem ljóðskáld árið 2010 með Ljóðum af ættarmóti, bók sem vakti mikla athygli. Tannbursti skíðafélagsins fylgdi í kjölfarið 2011 og ári seinna var limrusafnið endurútgefið. Þriðja bók þessa nýja tímabils skáldsins er svo Tvífari gerir sig heimakominn.

Án þess að vilja alhæfa neitt má vel líta á þessa bók sem tvífara hversdagsleikans, þess hversdagsleika sem er alltaf eins en þó ekki. Eða eins og kemur fram í ljóðinu „Eftirþankar leiktjaldamálarans“:

Ég hef víða þvælst um ævina og málað ýmsa fleti
en aldrei vitað hvaða svæði
vöktu helst athygli
á handverki mínu
þau sem mér tókst að þekja
eða hin sem óviljandi urðu útundan.

Þetta er sagan um líf mitt og störf.

Ég veit ekki hvaða orð lýsa mér best
þau sem ég sagði og setti á blað
eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota.

Ljóðið fjallar reyndar um helgidaga, bæði þá sem teljast (gagnslausir) frídagar og svo þá sem verða til við misjafna málningarvinnu. Helgidagarnir eru auðvitað lykilhluti hverdsagsleikans („Ekkert hægt að gera. / Ekkert hægt að kaupa. / Allt var lokað og enginn vissi hvers vegna.“) og það er hversdagurinn sem skín í gegn þegar helgidagurinn birtist á leiktjaldinu.

Ólíkar raddir tókust á í Ljóðum af ættarmóti og í Tannbursta skíðafélagsins var ljóðið sjálft nokkuð mikið til umræðu, en hér er það semsagt hversdagurinn – sem vissulega er nálægur í báðum hinum bókunum – sem er tekinn í gegn. Handboltaleikurinn skiptir gamalmennin á elliheimilinu litlu, aðalatriðið er að koma skyrinu upp í munninn á því: „og endurtek ótvíræð hvatningarorð / Borðaðu nú skyrið þitt, pabbi“ („Seinni hálfleikur á dvalarheimilinu“). Spurningin um að skora tekur á sig enn aðra mynd. Það er líka ‚skor‘ í „Síðdegi við Rauðavatn“ en þar „kemur einn bíll og bíður. / Svo kemur annar með kringlóttar framlugtir. / Ljósin blikka og álútur skuggi hleypur milli bíla. // Það er ást í bíl við Rauðavatn.“ Og ekki má gleyma ánamöðkunum:

Séð og heyrt úr beðinu

Það fréttist ekki mikið úr lífi ánamaðkanna
meðan við sitjum hérna á pallinum
og drekkum volgan ávaxtasafa.

Núna gætu elskulegar hlussur
verið að draga sig saman
þarna úti í beðinu.

Við þurfum ekki að nefna nein nöfn.
Tveir ánamaðkar, hann og hann
skrúfa sig oft listilega saman
strax á fyrsta hittingi
og dæla sæði
hvor í annan
eins og herrum einum er lagið

en skiljast svo að og eru þá hún og hún
tvær
með frjóvguð egg.

Þannig eru ánamaðkarnir
fyrst eru þeir eitt
og svo eru þær annað

og þannig er allt lífið
eitt
og annað.

Þannig getur hversdagsleikinn líka verið fullur af ævintýrum, eins og í „Verslunarmannahelgin í borginni“ þar sem húsin í Árbæjarsafni slá upp dansiballi eða þegar hvalur blæs á Miklubrautinni:

Hann maraði í yfirborði götunnar
en bílarnir tóku fram úr
án mikilla vandræða.

Á móts við innstu húsin
stakk hann sér loks í djúpið
og sporðurinn reis yfir malbikið.

Í síðustu tveimur bókum mátti víða greina ádeilu, en hér er fer minna fyrir henni, þó vissulega kannist margar konur sjálfsagt við sendiferðabílstjórann sem er sífellt að villast og alltaf að spyrja konur til vegar „og horfist í augu / við geirvörtur konunnar“ („Botnlangi“). Einnig kannast margir við sjálfa sig í lýsingunni á dagblaðalestri í „Maður kominn á miðjan aldur flettir blaðinu“, en hann les ólíkar fréttir af fjárfestingum og jarðsprengjum og reynir að ímynda sér hvað fólk í Mósambík heitir. Þessi ljóð vísa til mikilvægis þess að vera meðvitaður um umhverfi sitt og sjálfan sig, eins og „Óskilapésinn“, sem bíður eftir sektarlausa deginum:

Þegar sektarlausi dagurinn kemur
þá fer ég á safnið
þá fer ég og skila bókinni
þá fer ég með mig í leiðinni og játa allt mitt líf.

Á sektarlausa deginum játa ég allt mitt líf.

Tvífarinn býður því upp á annarskonar ádeilu, en segja má að deilt sé á hversdaginn, eða kannski aðallega hugmyndir okkar um hversdaginn, það að láta stjórnast af rútínu og gráma. Þessari ádeilu er komið á framfæri með því að gefa hversdagsleikanum ævintýralegt yfirbragð, en birtist einnig í þeim tilvísunum til einmanaleika og ósýnileika sem finna má í ljóðunum, einmitt þeim ljóðum sem kalla tvífarann hvað ákafast fram. Hver er ég í hinu daglega lífi og hver er ég utan þess? Í „Milli hæða“ sést ljóðmælandi ekki í spegli. Hann forðast að vera samferða öðrum í lyftu, til að trufla þá ekki, en einn daginn treðst ung kona inn í lyftuna til hans:

Ég fylgist með henni í speglinum.
Ég bíð þess að hún líti upp
horfi í spegilinn og síðan á mig.

Hún veit ekki hvað gerist næst.
Ég veit ekki hvað gerist næst.

Í „Fantasíu á morgunvaktinni“ sendir starfsmaður matvælaframleiðandi kveðju með einum matarbakkanum, kveðju til þess einstaklings sem síðar mun sitja einn og borða matinn:

Þú lítur upp og reynir að horfa í augu mín
þar sem ég sit ekki handan við borðið.
Þú ert betri en enginn
og ég
gæti líka verið betri en enginn.

Þetta segir þú
við mig
þar sem ég sit ekki handan við borðið.

Titilljóð bókarinnar lýsir samskonar tilfinningu, en þar stendur ljóðmælandi fyrir utan heimili sitt „og kemst ekki inn.“

Ég kemst ekki inn.
Kemst ekki inn í líf mitt.
Kemst ekki inn í drauma mína.

Ég stend hér utan við mig.
Utan við veröld mína.

Takk.
Ég hef átt ágætis líf.

Ég er löngu kominn heim.
Ég sef í mínu rúmi.
Mig dreymir.

Vissulega hefur einmitt þessi tilfinning fylgt ljóðinu um langan tíma, en álíka stef fjarveru og ókennilegrar einsemdar stórborgarlífsins er einkenni nútímaljóðsins, eins og birtist svo vel í atómljóðunum svokölluðu. Hér birtist þó önnur hlið þessarar skynjunar, bókstaflega, því ljóðmælandi hér er ekki aðeins sá sem upplifir sig fjarri, hann er einnig sá sem er nær; sýn hans er klofin – eða tvöfölduð. Þannig er hann bæði til staðar og ósýnilegur („Ég veit ekki hvað gerist næst“), virkur þátttakandi í tilverunni („Ég hef átt ágætis líf“) og „betri en enginn“, þó hann sitji ekki við borðið. Eða eins og segir í „Eftirþönkum leiktjaldamálarans“:

Ég veit ekki hvaða orð lýsa mér best
þau sem ég sagði og setti á blað
eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2014