Skáldabekkir
Bekkir eru á víð og dreif um borgina, en það eru bara sumir bekkir sem geyma skáldskap. Á skáldabekkjunum er QR-kóði sem leiðir þig inn á síðu með upplestri á ljóðum eða sögum sem tengjast staðnum.

Ægisíða - Óskar Árni Óskarsson
Hér les Óskar Árni Óskarsson ljóð og smáprósa. Í verkum hans er gjarnan brugðið ljósi á hið kynlega í hversdagslegum fyrirbærum.
Skólavörðuholt - Gunnar Gunnarsson
Hér á Skólavörðuholti er lesið upp úr Svartfugli, sögulegri skáldsögu Gunnars Gunnarssonar.
Steinbryggja - Vilborg Dagbjartsdóttir
Hér má hlusta á upplestur Vilborgar Dagbjartsdóttur á ljóðunum „Kyndilmessa III“, „Vetur“, „Ráðið“ og „Í japönskum þönkum“. Vilborg hefur lengi verið í hópi þekktustu skálda þjóðarinnar.
Sæbraut - Sigurbjörg Þrastardóttir
Hér við sjávarsíðuna á Sæbrautinni les Sigurbjörg Þrastardóttir ljóð sitt „Skipaskagi“ og brot úr smásögunni „Sveigðir hálsar“.
Nauthólsvík - Kristín Ómarsdóttir
Hér, nærri verki Helgu Guðrúnar Helgadóttur, „Sólstólar“ í Nauthólsvík les Kristín Ómarsdóttir ljóð sitt „Íslensk ættjarðarljóð“, úr bókinni Sjáðu fegurð þína.
Klambratún - Þorsteinn Erlingsson
Hér á Klambratúni, í grennd við brjóstmynd Þorsteins Erlingssonar (1858-1914), er lesið ljóð hans „Sólskríkjan“.
Höfði - Einar Benediktsson
Hér við Höfða má hlusta á upplestur Hjalta Rögnvaldssonar leikara á ljóðum eftir Einar Benediktsson.
Grasagarður - Auður Ava Ólafsdóttir
Hér við tjörnina í Grasagarðinum les Auður Ava Ólafsdóttir kafla úr skáldsögu sinni Afleggjarinn (Reykjavík: Bjartur, 2007).
Tjörnin - Bragi Ólafsson
Hér, við vesturbakka Reykjavíkutjarnar, les Bragi Ólafsson sögu sína „Herbergið mitt“ úr bókinni Við hinir einkennisklæddu.
Tjörnin - Tómas Guðmundsson
Hér við styttu Tómasar Guðmundssonar má hlusta á upplestur á ljóðum hans „Hótel jörð“ og „Við Vatnsmýrina“ úr bókinni Fagra veröld, sem kom út í Reykjavík árið 1933.
Tjörnin - Svava Jakobsdóttir
Hér við austurbakka Tjarnarinnar er lesið úr smásögunni „Endurkoma“ úr bókinni Undir eldfjalli (Forlagið, 1989) eftir Svövu Jakobsdóttur (1930-2004), einn fremsta rithöfund Íslendinga.
Hljómskálagarður - Jónas Hallgrímsson
Hér við styttu Einars Jónssonar af skáldinu Jónasi Hallgrímssyni (1807-1845) flytur Hjalti Rögnvaldsson ljóðið Ferðalok eftir Jónas. Ljóðið er ort á árunum 1844-45 og birtist fyrst í tímaritinu Fjölni árið 1845.
Austurvöllur - Þórarinn Eldjárn
Á Austurvelli, fyrir framan Alþingi Íslendinga, má hlusta á Þórarinn Eldjárn lesa upp úr skáldsögu sinni, Brotahöfuð.
Hótel Marina - Ljóð og prósi
Hér við Icelandair Hotel Reykjavik Marina má hlýða á úrval úr íslenskum samtímabókmenntum, bæði prósa og ljóð.
Skólavörðustígur og Austurvöllur - Íslenskar skáldkonur
Þann 19. júní 2015, á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi, setti Bókmenntaborgin upp tvo skáldabekki til heiðurs íslenskum skáldkonum. Annar þeirra stendur við Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og hinn á Austurvelli.